Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 18:15:43 (2382)

1999-12-06 18:15:43# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[18:15]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Hér hefur farið fram allítarleg umræða um það sem mörgum finnst vera eitt stærsta og brýnasta úrlausnarefni okkar í dag, þ.e. byggðavandann svokallaða, og tilefnið er frv. til laga um Byggðastofnun. Ég tel umræðuna að mestu leyti hafa verið málefnalega hjá flestum hv. þm., þó með einni og einni undantekningu þar sem menn hafa leyft sér að skemmta sér með það sem kalla má útúrsnúninga ellegar þá vanþekkingu á því sem fram kemur í greinargerð og plöggum fylgjandi þessu frv.

Mönnum hefur orðið nokkuð tíðrætt um það hvar Byggðastofnun verði vistuð, þ.e. í iðnrn., og nokkru púðri hefur verið eytt í þá umræðu. Það er í rauninni einkennilegt að menn skuli vekja þá umræðu upp núna, ekki síst í ljósi þess að sú tillaga byggir alfarið á stjórnsýsluúttekt og tillögum frá Ríkisendurskoðun. Sú tillaga var birt og hefði þá mátt ætla að af því tilefni hefði verið ástæða til þess að vekja upp málefnalega umræðu um það hvort sú tillaga væri rétt eða verjanleg. Að því leytinu til er einkennilegt að sú umræða skuli koma upp núna en ekki þegar Ríkisendurskoðun vann þessa stjórnsýsluúttekt fyrir alþingismenn.

Þá er rétt að velta því aðeins upp hvers vegna mælt er með þessu. Hvers vegna mælir Ríkisendurskoðun og sú nefnd sem hefur verið að störfum og unnið afskaplega gott starf, með því að Byggðastofnun skuli vistuð í iðnrn.? Það skyldi þó aldrei vera af þeirri einföldu ástæðu að menn vilji horfa á byggðamálin út frá atvinnumálum og leggja þau til grundvallar? Í því samhengi er rétt að vara við því að menn festist í hinum hefðbundnu atvinnugreinum, einkum sjávarútvegi og landbúnaði, þó vissulega eigi þær atvinnugreinar eftir að gegna áfram mikilvægu hlutverki í atvinnu- og efnahagslífi okkar. En fram hjá hinu verður ekki litið að mannfrekustu atvinnugreinar í atvinnulífi okkar í dag eru utan þessara hefðbundnu, gömlu atvinnugreina, ekki síst á sviði þjónustu af ýmsu tagi og vart hefur farið fram hjá mönnum umræðan um sóknarfæri í nýjum atvinnugreinum svo sem í upplýsingatækninni.

Þá er rétt að hafa í huga að undir iðnrn. heyra ýmsar ýmsar stofnanir og vil ég þar sérstaklega nefna Iðntæknistofnun sem hefur lagt þunga áherslu á að styðja við frumkvöðlastarf, styðja við hugvitsmenn og styðja við nýja sprota í atvinnulífi á viðkvæmasta stigi. Að því leyti til kann það að vera hyggilegt --- sú hugsun býr væntanlega að baki --- að tengja með þessum hætti saman Byggðastofnun og hlutverk hennar við þær aðrar stofnanir sem heyra undir iðnrn. og eru að sinna þessum mikilvæga þætti, þ.e. nýsköpun og ekki síst í smáfyrirtækjum, litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Þá er rétt að hafa í huga að Byggðastofnun hefur á síðustu árum eflt mjög samstarfið við atvinnuþróunarfélög úti í hinum einstöku byggðum landsins. Ég tel að það hafi verið mikið gæfuspor hjá Byggðastofnun og hafi skilað verulega góðum árangri sem byggir e.t.v. ekki síst á því að færa ákvarðanatökuna nær vettvangi og láta heimamenn sækja fram á eigin forsendum. En það hefur einnig komið fram hjá þeim atvinnuþróunarfélögum sem Byggðastofnun hefur beinlínis stutt við bakið á að þar hefur stundum orðið skörun og myndast eins konar grá svæði, má segja, á milli Byggðastofnunar, Iðntæknistofnunar og annarra stofnana sem vinna að nýsköpun. En ég ítreka að reynslan af atvinnuþróunarfélögunum er afskaplega mikilvæg vegna þess að þar er ákvarðanatakan færð nær vettvangi. Mér þykir mjög skynsamleg ákvörðun að færa þetta undir eina stjórnsýslu og ítreka að þetta byggir á úttekt og tillögum Ríkisendurskoðunar.

Herra forseti. Hins vegar er mikið umhugsunarefni hversu margar rannsóknarstofnanir við höfum orðið í okkar þjóðfélagi og spurning hvort ekki þurfi í rauninni að sumu leyti að stokka þær upp til að dreifa ekki kröftunum um of. Þó er mjög gott samstarf á milli þeirra eins og við þekkjum m.a. frá Keldnaholti þar sem nokkrar rannsóknarstofnanir eru og þar á meðal a.m.k. tvær stofnanir sem heyra undir iðnrn.

Herra forseti. Ég tel að það sé skynsamleg stefna sem kynnt er í frv. hvað varðar lánastarfsemina þar sem mælt er með því að fyrst um sinn a.m.k. verði Byggðastofnun ætlað áframhaldandi hlutverk í lánastarfsemi. Það hefur að mörgu leyti gefist vel eins og fram hefur komið, m.a. í ræðu hv. þm. Guðjóns Guðmundssonar sem er stjórnarmaður í Byggðastofnun og kom að undirbúningi þessa frv. Með því að færa lánastarfsemina strax til bankastofnana er hættan auðvitað sú að arðsemissjónarmið verði um of ráðandi og vil ég í því sambandi m.a. benda á hvernig Nýsköpunarsjóður hefur þróast og kannski þroskast, en að mörgu leyti held ég að megi færa rök fyrir því að hann hafi ekki náð að gegna því hlutverki sem honum var ætlað og fram kemur í nafni hans. Ég tel þess vegna hyggilegt að fara þar varlega og halda þessum þætti áfram innan Byggðastofnunar meðan hún er að stíga þau nýju skref sem lögð eru til með frv.

Herra forseti. Hér hefur nokkuð verið gert að umtalsefni vald forstjóra og jafnvel vald ráðherra sem ítrekað hefur verið dregið hér inn og hefur komið fram í ræðum manna sá skilningur ýmissa hv. þingmanna að hæstv. iðnrh. eigi nánast að gegna hlutverki drottins allsherjar í þessu. Sumir hafa nefnt hér að hann sé stjórnin, hann sé stjórnarformaður og hann sé forstjóri. En þá verða menn auðvitað að hafa í huga að með frv. er verið að leggja til að Byggðastofnun heyri stjórnsýslulega undir iðnrh. og að sjálfsögðu ber þá hæstv. ráðherra, hver sem hann er hverju sinni, ábyrgð á þessari stofnun.

En það er rétt að draga hér fram það sem ég tel afskaplega hyggilegt með þessu frv., þ.e. markmiðið er að auka sveigjanleika með því að stjórn setji leikreglur og feli síðan forstjóra að starfa eftir þeim leikreglum til þess að geta brugðist við verkefnum jafnóðum þau koma upp en þurfa ekki að bíða eftir stjórnarfundi. Ég tel það vera afskaplega hyggilegt og auka á skilvirkni í starfi stofnunarinnar, en það kann að vera ein ástæða þess að menn grípa til þessara ráða að Byggðastofnun hefur stundum verið gagnrýnd fyrir það að ákvarðanatakan þar er ekki mjög fljót.

Þá er athyglisvert í sambandi við stjórn og stjórnsýsluna, þ.e. að Byggðastofnun skuli vera færð undir iðnrn. og hæstv. iðnrh., hversu margir hv. stjórnarandstæðingar hafa að því er virðist gefið sér að Sjálfstfl. og Framsfl. muni sitja í ríkisstjórn áfram því að í umræðum hefur ítrekað komið fram hjá nokkrum hv. stjórnarandstæðingum að ekki muni aðrir en framsóknarmenn verða í stjórn hinnar nýju Byggðastofnunar og að Framsfl. muni sitja í iðnrn. Auðvitað fagna ég þeirri trú sem kemur þar fram á mínum ágæta flokki. Ég held hins vegar að þetta sé ekki mjög raunhæft. Eins og stjórnmálasagan sýnir þá verða breytingar í stjórnmálum. Hér er auðvitað verið að ræða um iðnrn. og iðnrh. hverju sinni.

Ég vil taka undir það sem hefur verið nefnt hér að Byggðastofnun hefur unnið að mörgu leyti afskaplega þarft og gott starf og má benda á mýmörg dæmi úti á landsbyggðinni um lítil fyrirtæki sem sprottið hafa upp beinlínis vegna tilstyrks og stuðnings frá Byggðastofnun. Með frv. er verið að skerpa enn frekar á hlutverki og starfi Byggðastofnunar enda tóku nokkrir núv. og fyrrv. stjórnarmanna þátt í að semja það eins og fram hefur komið.

Herra forseti. Byggðavandinn er, eins og ítrekað hefur komið fram, eitt aðalúrlausnarefni samfélagsins. Við þurfum að leggjast á eitt í þeim lífróðri sem róinn er til þess að snúa þeirri þróun við sem orðið hefur á síðustu árum. Ég vil enn og aftur nefna það sem komið hefur fram í umræðum um þessi mál hér á hv. Alþingi, að þjóðir Evrópu telja það orðið alvarlegt vandamál þegar 25--35% þjóðar býr í kringum höfuðborg. Þetta hefur m.a. verið rætt í tvígang á síðustu fimm árum á vettvangi Evrópuráðsins. Menn telja það alvarlegt vandamál þegar þetta hlutfall er 25--35%. En nú stöndum við hér frammi fyrir u.þ.b. 65% þannig að af því einu sést hve mikill vandinn er.

Byggð í landinu og byggðaþróun ræðst að sjálfsögðu af atvinnuháttum. Áherslan með þessu frv. er einmitt að efla Byggðastofnun, ekki síst í gegnum atvinnulífið, og ég ítreka það sem ég nefndi áðan, þ.e. mikilvægi þess að festast ekki í hinum hefðbundnu atvinnugreinum heldur að horfa einnig til nýrra sóknarfæra. Í tengslum við það vil ég einmitt nefna aðeins eitt dæmi, ágætt frv. sem liggur fyrir hv. Alþingi um fjarskipti sem felur líklega í sér meiri sóknarfæri en margan grunar, ekki síst hvað það varðar að efla störf, fjarstörf og ýmis störf á upplýsingahraðbrautinni. Grundvöllur að því er einmitt lagður með fjarskiptafrv. sem er til meðferðar á hv. Alþingi.

En það er auðvitað ekki bara atvinnulífið sem ræður byggðaþróun eins og fram hefur komið í umræðunni. Það gerir líka gildismatið sem að mörgu leyti hefur verið að breytast, en auðvitað skiptir atvinnan þar afskaplega miklu máli því ungt fólk sækir sér menntun en hefur síðan ekki störf við hæfi til þess að hverfa að í sinni heimabyggð. Þá koma til ýmsir menningarlegir og félagslegir þættir sem snerta byggðaþróunina og líklega í vaxandi mæli núna á síðustu árum.

[18:30]

Ég hef grun um að frá 1995 hafi gildismat okkar breyst allverulega, frá 1995 þegar atvinnuleysi og kyrrstaða í atvinnulífi var ráðandi og svartsýn. En nú hafa þær aðstæður breyst mjög svo til batnaðar og um leið má segja að gildismatið hafi breyst og ekki síst þá beinst meira að hinum félagslegu og menningarlegu þáttum. Ég tel, eins og fram kemur í greinargerð með frv., að Byggðastofnun eigi ekki síður að sinna þeim þætti og henni er ætlað að sinna honum.

Herra forseti. Ég vil benda á það sem hér er tekið fram um árlegan aðalfund Byggðastofnunar. Ég tel afskaplega mikilvægt að hafa fastan vettvang þar sem staðan í byggðamálum er metin markvisst og faglega a.m.k. einu sinni á ári og í framhaldi af því birtar lausnir til bóta. Ég tel það afskaplega mikilvægan þátt í frv.

Að þessu sögðu, herra forseti, ítreka ég að ég tel frv. vera til þess fallið að skerpa Byggðastofnun og gera hana skilvirkari sem verkfæri ríkisvaldsins til þess að hafa áhrif á byggðaþróun. Ég vænti þess að líflegar og ekki síst faglegar umræður um frv. verði í nefndinni eftir að því hefur verið vísað þangað.