Lokaafgreiðsla fjárlaga og fjáraukalaga

Þriðjudaginn 14. desember 1999, kl. 13:32:57 (2857)

1999-12-14 13:32:57# 125. lþ. 45.91 fundur 215#B lokaafgreiðsla fjárlaga og fjáraukalaga# (aths. um störf þingsins), JB
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 125. lþ.

[13:32]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég leyfi mér að gera athugasemdir við störf þingsins. Í dag eru fjáraukalög fyrir árið 1999 tekin til 3. umr. Á morgun er stefnt að því að taka fjárlög ársins 2000 til 3. umr. Fjárln. fékk fyrst í gærmorgun fyrstu drög að endurskoðaðri tekjuáætlun fyrir 1999 sem sýnir miklar breytingar frá því í haust þegar frv. var lagt fram. Þessar grunnforsendur fjárlagagerðar voru enn að taka breytingum í gær. Forsendur tekjuhliðar fjárlagafrv. fyrir árið 2000 voru fyrst kynntar í gærmorgun munnlega og með fyrirvara. Óskað var eftir að fá þær skriflega og með útskýringum. Síðdegis í gær kom svo minnisblað með áætlun um tekjur og gjöld en engar uppgefnar forsendur. Seint í gærkvöld kemur svo viðbótarminnisblað með stikkorðum, ef kalla má, um grunnforsendur tekjuáætlunar á næsta ári en þó áfram með fyrirvara. Núna eftir hádegi varð fjárln. svo að fresta fundi vegna þess að tilskilin gögn höfðu ekki borist vegna 3. umr. á morgun.

Herra forseti. Fjárln. hefur síðan í haust, á mörgum löngum fundum, fjallað um útgjaldahlið frv. og metið upphæðir til einstakra liða, allt frá nokkrum hundruðum þús. kr. til milljarða. Um tekjuhliðina hefur nánast ekkert verið fjallað í nefndinni enda afar takmörkuð gögn fyrir hendi til að fjalla um fyrr en núna tæpum sólarhring áður afgreiða á fjárlög. Ég leyfi mér að átelja þessi vinnubrögð. Lög um fjárreiður ríkisins eru þverbrotin, sbr. frv. til fjáraukalaga. Afleiðing slíkra vinnubragða, herra forseti, verða illa unnin fjárlög sem nánast ekkert mark er á takandi og þar af leiðandi fjármálaóstjórn.