Samningur um flutning dæmdra manna

Þriðjudaginn 14. desember 1999, kl. 16:38:23 (2872)

1999-12-14 16:38:23# 125. lþ. 45.19 fundur 113. mál: #A samningur um flutning dæmdra manna# þál. 1/125, Frsm. TIO
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 125. lþ.

[16:38]

Frsm. utanrmn. (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Fyrir hönd utanrmn. mæli ég fyrir nál. um tillögu til þál. um fullgildingu viðbótarsamnings við samning um flutning dæmdra manna.

Samningurinn um flutning dæmdra manna var gerður í Strassborg árið 1983 á vegum Evrópuráðsins. Megintilgangur þessa samnings er að gera fullnustu refsingar mögulega í öðru ríki en þar sem hún er ákveðin. Að baki samningnum búa þau mannúðarsjónarmið að gera dómþola kleift að afplána refsingu í heimalandi sínu og einnig það sjónarmið að þannig sé fremur unnt að stuðla að endurhæfingu hans og búa hann undir að koma út í þjóðfélagið á ný. Þessi samningur öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. des. 1993.

Með þáltill. er leitað heimildar til að fullgilda viðbótarsamninginn við samninginn um flutning dæmdra manna. Meginmarkmiðið með viðbótarsamningnum er að gera flutning á fullnustu dóms mögulegan í þeim tilvikum þegar dómþoli leitast við að komast hjá fullnustu eða frekari fullnustu með því að flýja til landsvæðis þegnríkis áður en hann hefur afplánað dóminn.

Nefndin leggur til að málið verði samþykkt.

Ásamt framsögumanni sem hér stendur undirrita nál. hv. þingmenn Valgerður Sverrisdóttir, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Einar K. Guðfinnsson, Sighvatur Björgvinsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Steingrímur J. Sigfússon.