1999-12-14 16:42:58# 125. lþ. 45.20 fundur 195. mál: #A alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna í útrýmingarhættu (CITES)# þál. 2/125, SJS
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 125. lþ.

[16:42]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég á aðild að nál. utanrmn. og er stuðningsmaður þess að við Íslendingar gerumst aðilar að samningnum um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu. Ég vil aðeins af því tilefni að þessi samningur er að koma til afgreiðslu láta í ljós það álit mitt í fyrsta lagi að ég held að löngu sé tímabært að við séum aðilar að þessum samningi og í raun og veru hafi það verið mistök af okkar hálfu að hafa ekki verið þátttakendur í þessu samstarfi á undanförnum árum, bæði til að leggja þar lið þeim aðilum sem hafa verið að reyna að fá skynsamlega stefnu framkvæmda hvað varðar viðauka samningsins og tegundir sem eru í viðaukum um dýr í útrýmingarhættu eða sem alvarleg ógn steðji að, sem í raun og veru engin minnsta ástæða er til að hafa þarna inni, samanber hvalategundirnar, og eins til þess að reyna að hafa áhrif á það að skynsamleg stefna hvað varðar til að mynda flokkun tegunda og svæðaskiptingu væri þarna framkvæmd.

Staðreyndin er sú að við getum átt mjög mikið í húfi í þeim efnum að samningurinn sé framkvæmdur þannig að skynsamleg og eðlileg aðgreining tegunda og undirtegunda sé virt í framkvæmd samningsins en það gerist ekki, sem dæmi munu vera um, að vegna þess að tegund á einhverju afmörkuðu svæði, hafsvæði getum við sagt, hefur látið undan síga eða er orðin mjög sjaldgæf að þá sé jafnvel viðkomandi tegund á heilum heimshöfum eða um allan hnöttinn sett á slíka lista. Það er auðvitað óásættanlegt í tilviki okkar, t.d. ef við værum að nýta aðgreinda hluta dýrastofna, að framkvæmdin sé á þá leið.

[16:45]

Enn fremur, herra forseti, finnst mér það eiginlega skylda Íslands, þegar um er að ræða skipulagt alþjóðasamstarf um varðveislu lifandi tegunda og gæslu náttúrulegra auðlinda eins og þessi samningur að sjálfsögðu gerir á sinn hátt, að vera þar þátttakandi. Auðvitað á Ísland svo yfirgnæfandi hagsmuna að gæta í því að vera á vettvangi, koma sjónarmiðum sínum á framfæri og gæta hagsmuna sinna þar sem í hlut á hin lifandi náttúra og auðlindir jarðarinnar að það þarf mjög sterk rök til að við séum fjarverandi. Við höfum sökum smæðar og sjálfsagt af ýmsum fleiri ástæðum ekki komist yfir það að vera fullgildir þátttakendur á öllum vígstöðvum í senn. Það er erfitt verk fyrir litla þjóð með fámenna utanríkisþjónustu að gæta hagsmuna sinna alls staðar. Við neyðumst kannski til að velja þar úr og taka það sem við teljum mikilvægast að sinna. En ég er þeirrar skoðunar að við eigum sérstaklega að reyna að vera virkir þátttakendur alls staðar í alþjóðasamstarfi sem lýtur að varðveislu náttúrunnar og lífríkisins, baráttu gegn mengun og öðrum slíkum þáttum. Þar eigum við Íslendingar alls staðar að vera með og leggja okkar lóð á vogaskálar.

Að því leyti er þetta jákvætt, herra forseti, og enginn efi í mínum huga um að rétt sé að gerast aðili að þessum samningi og þó fyrr hefði verið.