Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 14. desember 1999, kl. 18:39:40 (2894)

1999-12-14 18:39:40# 125. lþ. 45.1 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 125. lþ.

[18:39]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta var býsna merkileg yfirlýsing hjá hæstv. fjmrh. Málum er svo komið að gjaldeyrisvarasjóðurinn er orðinn það rýr að það er ekki talið skynsamlegt að greiða niður erlend lán. Í stað þess sagði hæstv. ráðherra að innlend lán hefðu verið greidd niður. Þá auðvitað verður til nýr vandi. Hann er sá að með þeim hætti aukast fjármunir í umferð innan lands. Bankarnir og lífeyrissjóðirnir hafa auðvitað úr meira fé að moða. Ekki dregur það úr þenslunni.

Herra forseti. Þetta andsvar hæstv. ráðherra staðfestir í einu og öllu það sem ég sagði áðan. Það er komin upp pattstaða, sjálfhelda í fjármálum ríkisins eftir mesta góðæri Íslandssögunnar. Það er skelfilegt.