Endurheimt íslenskra fornminja frá Danmörku

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 13:37:08 (3597)

2001-01-16 13:37:08# 126. lþ. 58.1 fundur 352. mál: #A endurheimt íslenskra fornminja frá Danmörku# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 126. lþ.

[13:37]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að hreyfa þessu máli og er nauðsynlegt að skýra það eins og raunar hefur verið gert áður í þessum sal.

Hv. þm. las úr 6. gr. sáttmála Danmerkur og Íslands frá 1965 um lausn handritamálsins en sleppti einni mikilvægri setningu, herra forseti, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt því skal að hálfu íslenzka ríkisins eigi unnt í framtíðinni að hefja né styðja kröfur eða óskir um afhendingu slíkra minja úr dönskum skjalasöfnum eða söfnum, opinberum jafnt sem í einkaeign.``

Ekki var aðeins lýst yfir að með þessari samþykkt eða sáttmála frá 1965 væri viðurkennt að fullkomlega og endanlega væri útkljáð um allar óskir af Íslands hálfu, heldur var einnig samið um að Íslendingar mundu ekki leggja drög að slíkum kröfum. Hér er því um mun viðameira mál að ræða en það að menn ræði um einstakar minjar í dönskum söfnum. Nauðsynlegt er að hafa í huga að sá gjörningur Dana á sínum tíma að ákveða að afhenda Íslendingum handritin er einstæður í menningarsögu heimsins og það má segja að engin þjóð hafi með slíkum hætti staðið að því að afhenda annarri þjóð menningarminjar eins og Danir gerðu með samningnum um handritamálið. Þess vegna eigum við Íslendingar einnig að virða þau ákvæði sáttmálans og ekki að leggja okkur fram um að rifta þeim nema rík ástæða sé til.

Þetta mál hefur verið reifað oftar en einu sinni, bæði hér í þingsalnum og einnig í blöðum. Þegar menn átta sig á því afdráttarlausa orðalagi í sáttmálanum sem bæði Danir og Íslendingar undirrituðu 1965, þá staldra þeir jafnan við og segja sem svo: Hvaða ríku ástæður eru það nú sem krefjast þess af okkur að við förum að taka upp jafnafdráttarlaus ákvæði og hér er um að ræða?

Aðstæður hafa ekki aðeins breyst á þann veg að þjóðum sé betur ljóst en áður að menningarminjar einstakra þjóða eru dreifðar víða um heiminn, heldur hafa aðstæður einnig breyst á þann veg að miklu auðveldara er en áður var að fá muni til láns úr söfnum hvar sem er og mynda nýjar sýningar eins og t.d. tókst í Bandaríkjunum með því að Norðurlöndin stóðu að víkingasýningunni sem þar fer nú um og verður á ferðalagi þar næstu árin. Ef ekki hefðu verið uppi breytt viðhorf varðandi safnastarfsemi hefði aldrei verið hægt að setja þá sýningu saman. Og þegar leitað hefur verið eftir því við þjóðminjasafnið í Kaupmannahöfn að fá að láni gripi frá Íslandi til sýninga eða rannsókna hingað til lands, hefur ævinlega verið leitast við að verða við því. Síðasta dæmið þar um er þegar stóllinn frá Grund og helgiskrínið frá Keldum voru lánuð á sýninguna Kirkja og kirkjuskrúð, miðaldakirkjan í Noregi og á Íslandi, samstæður og andstæður. Samvinna við þjóðminjasafnið í Kaupmannahöfn hefur ævinlega verið með miklum ágætum.

Ég held að menn verði líka að hafa þetta í huga þegar þeir ræða um stöðu þessara mála og velta fyrir sér hvort einstakar þjóðir geti notið þeirra þjóðardýrgripa sem þær eiga í öðrum löndum og söfnum annarra landa.

Hér var vísað til þess sem hefur verið að gerast í samskiptum Dana við Grænlendinga og Færeyinga varðandi minjar frá þeim löndum í Kaupmannahöfn. Það er rétt að Danir hafa samþykkt að ýmsir merkir gripir verði fluttir til Færeyja, enda hafa aðstæður skapast þar til að vernda þá og varðveita með viðunandi hætti. Sömu sögu er að segja um muni sem á að flytja frá Danmörku til Grænlands. Þar vísa menn að sjálfsögðu m.a. til þess gjörnings þegar Danir ákváðu að afhenda okkur handritin. Ég veit ekki til þess að nokkrir samningar séu til á milli Dana og Færeyinga eða Dana og Grænlendinga sem eru sambærilegir við sáttmálann sem Danir og Íslendingar gerðu árið 1965 um lausn handritamálsins en það er sá sáttmáli sem við verðum að hafa í huga þegar við hugum að þessum atriðum gagnvart Dönum. Mér finnst því að við þurfum að hafa mjög ríkar ástæður til þess að leggja út í það að hefja eða styðja kröfur eða óskir um afhendingu slíkra minja þegar við höfum lýst því yfir í sáttmálanum að það sé ekki unnt fyrir okkur að gera það.