Einbreiðar brýr

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 14:14:28 (3613)

2001-01-16 14:14:28# 126. lþ. 58.3 fundur 374. mál: #A einbreiðar brýr# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 126. lþ.

[14:14]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Katrínu Fjeldsted fyrir að vekja athygli á þessu brýna máli. Ég held hins vegar að málið snúi þannig við að við verðum að taka höndum saman og taka a.m.k. þjóðveg 1 og fækka einbreiðum brúm. Vegagerðin hefur sannast sagna gert átak í öllum merkingum. Það er varla hægt upp á það að klaga.

Á leið minni til höfuðborgarinnar, frá Akureyri til Reykjavíkur, er að mínu mati stórbót að blikkljósunum sem eru komin á flestar brýr. En ég held að það liggi alveg ljóst fyrir eins og kom fram hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni að við verðum að taka okkur tak og ráðast í framkvæmdir á þessum fjölförnu vegum og breikka brýrnar þannig að þær anni þeirri umferð sem um þær þarf að fara.