Úthlutun úr Jöfnunarsjóði sókna

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 14:20:16 (3617)

2001-01-16 14:20:16# 126. lþ. 58.4 fundur 378. mál: #A úthlutun úr Jöfnunarsjóði sókna# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 126. lþ.

[14:20]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller):

Virðulegi forseti. Síðasta haust varpaði ég fram fsp. til hæstv. dómsmrh. um Jöfnunarsjóð sókna þar sem ég óskaði eftir upplýsingum um hversu mikið fé hefði runnið í sjóðinn á árunum 1987--2000. Jafnframt var óskað upplýsinga um hvernig fénu hefði verið varið. Svar við þessari fyrirspurn liggur fyrir.

Jöfnunarsjóður sókna á sér stoð í lögum um sóknargjöld. Sem kunnugt er er kveðið á um það í lögum um sóknargjöld að þjóðkirkjusöfnuðir, skráð trúfélög samkvæmt lögum um skráð trúfélög svo og háskólasjóðir eigi ákveðna hlutdeild í tekjuskatti þannig að ákveðin fjárhæð, nú um 500 kr. á hvern einstakling 16 ára og eldri, rennur til þess trúfélags sem viðkomandi tilheyrir. Vegna einstaklinga sem ekki eru skráðir í trúfélag rennur gjaldið til Háskóla Íslands.

Jöfnunarsjóður sókna er á hinn bóginn sérstakt gjald sem nemur 18,5% af gjöldum sem renna til þjóðkirkjusafnaða og er til viðbótar sóknargjaldi. Hlutverk sjóðsins er að veita styrki til þeirra kirkna sem sérstöðu hafa umfram aðrar sóknarkirkjur, að leitast við að jafna aðstöðu og styrkja sóknir þar sem lögmætar tekjur, þ.e. sóknargjöld, nægja ekki fyrir nauðsynlegum útgjöldum og í þriðja lagi að auðvelda stofnun sókna í nýjum byggðahverfum og að styðja kirkjulega félags- og menningarstarfsemi.

Jöfnunarsjóður sókna er eingöngu til ráðstöfunar innan þjóðkirkjunnar. Önnur skráð trúfélög hafa ekki aðgang að sambærilegum sjóði til styrktar starfsemi sinni. Í svari hæstv. dómsmrh. við fsp. minni um upphæðir sem runnið hafa til sjóðsins á síðustu árum og ráðstöfun þess kemur fram að á tímabilinu 1987--2000, að báðum árum meðtöldum, runnu 1.758 millj. í Jöfnunarsjóð sókna og er upphæðin talin saman á verðlagi hvers árs og er ekki reiknað til núvirðis. Á árinu 2000 voru 215 millj. og 500 þús. til ráðstöfunar í sjóðnum.

Í samræmi við tilgang sjóðsins, að styrkja sérstaklega þær kirkjur sem hafa sérstöðu umfram aðrar kirkjur, er sérstök áhersla lögð á að styrkja helstu höfuðkirkjur landsins. Þær hafa fengið um 344 millj. úr sjóðnum. Álíka upphæð eða 365 millj. kr. hefur verið varið til ýmissar kirkjulegrar starfsemi og má þar nefna Hjálparstarf kirkjunnar upp á 23 millj., Skálholtsskóli 32 millj. og söngmálastjóri 15,5 millj. kr. svo eitthvað sé nefnt.

Tilefni fsp. minnar til hæstv. dómsmrh. um forsendur sem lagðar eru til grundvallar ákvörðun um úthlutun fjármuna úr Jöfnunarsjóði sókna er að í sundurliðun á upphæð til einstakra sókna og einstakra verkefna er erfitt að sjá á hvaða grunni ákvarðanir um úthlutun eru teknar. Hér er um verulegar upphæðir að ræða eða hátt í þrjá milljarða kr. á núvirði. Því væri fróðlegt að fá þetta upplýst. Jafnframt vil ég vekja athygli á þeim aðstæðumun sem er milli þjóðkirkjunnar annars vegar og annarra skráðra trúfélaga hins vegar gagnvart fjárveitingavaldinu.

Ég vil sérstaklega taka fram að í fsp. minni felst engin gagnrýni á það hvernig fénu er varið eða efasemdir um að því sé vel varið. Ég tel nauðsynlegt að Alþingi fylgist með hvernig skattfé borgaranna er varið og í því sambandi hef ég einnig varpað fram fsp. til hæstv. heilbrrh. varðandi Framkvæmdasjóð aldraðra.