Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 14:07:38 (4813)

2001-02-20 14:07:38# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., Flm. BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[14:07]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal með glöðu geði leiðrétta eða koma á framfæri skýringu við þessa spurningu hæstv. forseta. Ástæðan fyrir því að þetta er lagt til er til þess að tryggja sjálfstæði þess ráðs sem hér er lagt til að verði skipað. Þetta er í samræmi við þá umræðu sem átt hefur sér stað í Danmörku þar sem reyndar í mörgum tilvikum er verið að leggja til að dómarar eigi hlut að slíku ráði, það eru sem sagt dómari og síðan yfirleitt háskólinn og þá lögmannafélögin sem verið er að ræða um í þeirri umræðu þar. Í sænska tilvikinu eru það dómstólarnir alfarið sem skipa slíkt ráð sem ég tel ekki vera æskilegt. Við getum haft langt mál um það og ég get komið að því í seinni ræðu minni af hverju ég tel það ekki æskilegt. Herra forseti. Ég held að nú höfum við kannski komist að kjarnanum í því hvers vegna hæstv. forseti Alþingis er svo andvígur þessu frv. og þessari tillögu. Er það ekki vegna þess, herra forseti, að lagt er til að það komi að þessu óháðir menn utan úr bæ, eins og hæstv. forseti orðaði það svo smekklega, til þess að fjalla um þessi mál.

Herra forseti. Það eru ekki bara einkamál okkar sem hér sitjum hvernig lög eru úr garði gerð og hvernig frv. fara í gegnum hið háa Alþingi. Það er málefni samfélagsins alls og það skiptir allt samfélagið máli hvernig það er og það skiptir líka allt samfélagið máli að virðing Alþingis sé slík að okkur sé öllum sómi að. Ég tel, herra forseti, að núna hafi einmitt komið í ljós kjarni þess hvers vegna hæstv. forseti Alþingis hefur lagst af öllum þunga sínum gegn því að þetta mál verði samþykkt á Alþingi án þess að færa fyrir því málefnaleg rök, sem ég hef ekki enn þá heyrt, herra forseti.