Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 17:00:26 (4853)

2001-02-20 17:00:26# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[17:00]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Sú umræða sem fram hefur farið um þetta mál í dag hefur um margt verið merkileg og fróðleg. Einkanlega hafa viðbrögð hv. þm. Sjálfstfl., hæstv. forsrh., hv. 1. þm. Norðurl. e., og nú síðast hæstv. dómsmrh., sem lengstum hélt þó haus í þessari umræðu, og kom þannig fram af yfirvegun og festu en þegar á leið datt hún í sama farið og þeir hinir tveir áðurnefndu gerðu í umræðunni.

Það er virkilega umhugsunarefni, virðulegi forseti, þegar við ræðum í raun og veru jafnlítið mál og það að hv. Alþingi reyni að bæta vinnubrögð í störfum sínum. Út á það gengur málið. Þetta er lítil hugmynd um það að setja á fót lagaráð við þingið sem hefði það hlutverk að setja samræmdar reglur um samningu lagafrv. og annan undirbúning löggjafarmála. Þegar jafnlítið mál og þetta, þ.e. að Alþingi bæti vinnubrögð sín, er sett fram að þá skuli viðbrögðin vera á þann veg sem við höfum orðið vitni að í dag. Hér hafa bæði hæstv. forsrh. og hæstv. forseti þingsins komið fram með orðræður sem vart verða skildar öðruvísi en svo að þeir eru reiðir. Ég held, virðulegi forseti, að ekki hafi verið hægt að ráða neitt annað af málflutningi þeirra en að þeir séu ósáttir og að þeir hafi líka flutt mál sitt með þeim hætti.

Sú hugmynd sem hér er lögð fram er ekki fullkomin frekar en aðrar hugmyndir sem bornar eru fram á hinu háa Alþingi, langur vegur þar í frá, og þar má án efa bæta ýmislegt. En þegar nokkrir þingmenn leggja fram hugmynd um að bæta vinnubrögð þingsins að þá skuli því vera mætt með slíku viðmóti sem við höfum orðið vör við í dag. Ekki hefur verið nokkur leið að ræða þetta við þá hv. þm. stjórnarliðsins sem hafa talað í dag því að öll umræða þeirra hefur gengið út á það að snúa út úr og finna að og jafnvel grípa til setninga sem eru í frv. og leggja út af þeim þó að flestum sé kunnugt um hvað í þeim felst og hvert efni þeirra er.

Það er því dálítið erfitt, virðulegi forseti, að átta sig á hvert viðhorf hv. þm. stjórnarliðsins er til bættra vinnubragða á hinu háa Alþingi. Það er alveg ljóst og hefur ætíð verið ljóst að milli Stjórnarráðsins og Alþingis hefur verið togstreita. Sú umræða er ekki ný af nálinni. Sú umræða er margra alda gömul. Í gegnum söguna hafa verið háðar byltingar vegna þess að menn hafa verið ósáttir við hvernig með valdið er farið. Alltaf hefur verið togstreita milli þeirra sem með völdin fara og því hvernig völdunum er skipt. Það sem hér er verið að leggja til er að bæta vinnubrögð þingsins. Það er verið að leggja til að styrkja þingið. Það er verið að leggja til að styrkja einn valdþáttinn í ríkisvaldinu, Alþingi. Þá er brugðist við með þeim hætti sem við höfum orðið vitni að í dag. Menn leyfa sér það jafnvel að hreyta í menn án þess að ávarpa þá eins og hv. þingmönnum ber að gera. Spurt er: Af hverju er verið að leggja til að bæta vinnubrögðin með þessum hætti? Af hverju er ekki nóg að Stjórnarráðið sjái um þetta? Þessi viðhorf komu bæði fram hjá hæstv. dómsmrh. og hæstv. forsrh.

Það er alveg ljóst, virðulegi forseti, að sáralítill vilji er til að styrkja þingið. Það hefur líka komið fram í umræðunni og það oftar en einu sinni að mistök í lagasetningu eru meiri hér en annars staðar þekkist. Vissulega erum við fámenn og vissulega höfum við kannski ekki alveg sömu tök á því að fjalla jafnítarlega um mál eins og gerist í þjóðþingum annarra landa. En við getum hins vegar lagt til að reyna að bæta vinnubrögðin og það er verið að leggja til hér. Þetta er ein margra hugmynda sem grípa má til í þeirri viðleitni að reyna að bæta vinnubrögðin. En því er svarað af offorsi.

Ég ætla að vitna til ummæla hæstv. forsrh. frá því fyrr í dag þar sem hann las upp úr einni setningunni í 1. gr. þess frv. sem við ræðum um það hvort frumvörp standist stjórnarskrá og alþjóðasamninga. Spurt var með hneykslun hvort þeir hv. þm. sem stæðu að þessu máli gerðu sér ekki grein fyrir því að munur væri á stjórnarskrá og alþjóðasamningum.

Af þeirri ástæðu, virðulegi forseti, eru notuð tvö orð um þetta, annars vegar stjórnarskrá og hins vegar alþjóðasamningar, það er vegna þess að þetta er ekki eitt og hið sama. Það er kannski ekkert skrýtið að það sé gert því að stjórnarskráin hefur kannski verið einhver erfiðasti andstæðingur þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr. Svo kom hæstv. forsrh. og hélt því fram að það væri engin umræða um pólitík hvernig farið væri með valdið. Það er sennilega einsdæmi að það sé ekki pólitískt á hvern hátt valdinu er skipað, hvernig með valdið er farið. Menn hafa sennilega barist í byltingum á árum áður og öldum af tómum misskilningi, þetta var allt saman tómur misskilningur. Þetta snerist allt um hvort átti að malbika Faxastíginn fyrst eða Grundarstíginn. Þetta hafi bara verið forgangsröðun á einhverjum aurum, þetta sé ekki pólitík. Það sé engin pólitík hvernig valdinu er skipt á milli valdsþátta.

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að sú umræða sem hefur farið fram í dag út af þessu litla máli verði lengi í minnum höfð.

Ég hafði orð á því áðan við einn hv. þm. að það var eins gott að við vorum ekki fjögur á þessu máli. Það hefði aldeilis skapað taugaveiklun hjá ríkisstjórninni ef við hefðum verið fjögur.

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa því yfir að ég fæ með engu móti skilið af hverju hæstv. forseti þingsins og hins vegar oddviti ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsrh., skuli bregðast svona við. Síðan kom hæstv. dómsmrh. í lokin og lýsti yfir eitthvað á þá leið að við skildum ekki hlutverk dómstóla. Það var sem sagt svarið við því að við vildum bæta vinnubrögðin á hinu háa Alþingi, að við áttuðum okkur ekki á hvert væri hlutverk dómstóla.

Virðulegi forseti. Hvernig á að halda uppi umræðu um þessa hluti þegar brugðist er við á þennan hátt? Hvernig í veröldinni eiga hv. þingmenn að geta komið fram með hugmyndir um það á hvern hátt megi bæta vinnubrögðin hér, á hvern hátt megi styrkja þingið, á hvern hátt megi styrkja lýðræðið, sem er án nokkurs vafa mikil pólitík og ekki síðri en það hvaða götur eigi að malbika fyrst, þegar viðbrögðin eru á þann hátt sem raun ber vitni?

Ég skal alveg kaupa þá röksemd að hæstv. ráðherrar vilji viðhalda völdum sínum. Það er í sjálfu sér ofur eðlileg röksemdafærsla, ég skal alveg kaupa hana. En það er ekki ástæða til að mæta hér og haga sér á þann hátt sem þessir hv. þm. hafa gert í ræðustólnum í dag.

Þá ekki síður það, virðulegi forseti, að í þeirri umræðu sem hefur farið fram hefur komið skýrt fram að við erum að leggja til að við þingið starfi ráð sem geti aðstoðað þingið í vinnu sinni og reynt að tryggja eins og kostur er vönduð vinnubrögð. Hér er ekki verið að leggja til eins og --- gott ef það var ekki hæstv. forseti, nei hæstv. forsrh., ég man nú kannski ekki hvor sagði hvað enda kannski ekkert skrýtið --- annar hvor þeirra, hæstv. forseti eða hæstv. forsrh., orðaði það á þá leið að ef settar væru reglur um það á hvern hátt ætti að vinna að löggjöf þá færi það í bága við stjórnarskrána. Hann nefndi reyndar ekki ákvæðið. En ef hér yrðu settar einhverjar reglur á þá leið að vanda vinnubrögðin þá færi það bara í bága við stjórnarskrána. Ég veit ekki hvaða ákvæði stjórnarskrárinnar hv. þm. átti við, það er ekki gott að segja.

En ég vil þó tiltaka sérstaklega vegna þessara ummæla að hv. 1. flm. þessa máls, Bryndís Hlöðversdóttir, lýsti því yfir að ástæða þess að hugmyndin sem hér er verið að leggja fram væri orðuð jafnopin og raun ber vitni er sú að menn væru ekki að binda sig um of þegar menn væru að fara af stað með þessa hugmynd heldur gætu jafnvel látið verklagið móta hana hvernig hún yrði unnin. Ekki er nokkur vafi á því að þar hefði forsn. þingsins mikil áhrif á hvernig vinnubrögð lagaráðs yrðu mótuð. Einu athugasemdir sem þaðan komu voru þær: Af hverju megum við ekki skipa þrjá? Af hverju eigum við bara að skipa einn? Þar með var þetta fallið um sjálft sig. Það var bara eitthvert fólk úti í bæ sem átti að tilnefna í þetta lagaráð. Það var allur áhugi oddvita forsn. á málinu.

Virðulegi forseti. Það litla mál sem við ræðum í dag hefur þó dregið það fram að mjög lítill áhugi er á því að styrkja þingið að öðru leyti en að byggja einstakar hallir. Það var dálítið skrýtið, virðulegi forseti, þegar hv. 1. þm. Norðurl. e. kom upp og spurði hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að því hvað það kostaði að samþykkja þetta. Manni varð nú litið út um gluggann á höllina hérna hinum megin við Austurvöll. Kannski hefði mátt taka eitthvað af þeim kostnaði.

Eins og ég lýsti hér áðan, virðulegi forseti, þá er þessi hugmynd skilin eftir dálítið opin til þess að ef hún yrði að veruleika, sem ég get nú vart ímyndað mér eftir þá orðræðu sem hér hefur farið fram í dag, þá gætu menn mótað það dálítið í vinnunni hversu víðfeðm starfsemin yrði og þar af leiðandi um leið hversu kostnaðarsöm hún yrði. (Gripið fram í.) Þess utan er ég sannfærður um að bætt vinnubrögð mundu þegar til lengdar lætur spara heilmikið og kannski með því borga tvær hallir, hver veit eitthvað um það?

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fjalla meira um þetta mál enda hefur verið gerð nokkuð ítarleg grein fyrir því. En erindi mitt í ræðustól var fyrst og fremst til þess að fjalla um þau viðbrögð sem það mál sem við ræðum hér, sem fjallar um bætt vinnubrögð, hefur fengið frá oddvita hæstv. ríkisstjórnarinnar og hæstv. forseta Alþingis.