Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 18:29:56 (4875)

2001-02-20 18:29:56# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., Flm. BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[18:29]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að hv. formaður allshn., hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir, er að mínu mati mun málefnalegri í afstöðu sinni við 1. umr. til málsins en margir flokksbræður hennar sem hér hafa talað og ráðist hafa af mikilli hörku gegn þessu máli. Vil ég þar sérstaklega nefna hæstv. forseta Alþingis, hv. þm. Halldór Blöndal, og hæstv. forsrh. Ég fagna því að það sé a.m.k. skoðun þingmannsins að þetta sé fyllilega þess virði að skoða.

En ég vil benda á varðandi framkvæmdina í Danmörku að vissulega hefur hún haft betrumbætur í för með sér varðandi lagatæknilega ágalla. Eigi að síður er gríðarlega mikil umræða á meðal lögfræðinga og líka í dönskum fjölmiðlum um þetta fyrirkomulag einmitt vegna þrískiptingar ríkisvaldsins. Um það erum við að tala hér. Ég er ekki að efast um að hin lagalegu gæði ráðgjafarinnar gætu verið hin sömu. En spurningin er hvort við viljum styrkja þátt Alþingis í lagasetningunni eða hvort við viljum styrkja þátt framkvæmdarvaldsins og að auki hvort meiri líkur séu á því að þá séu í raun pólitísk inngrip inn í hina lögfræðilegu ráðgjöf undir hatti ráðuneytanna eða undir hatti Alþingis. Um þetta snýst málið.