Staða fíkniefnalögreglunnar með tilliti til fjárveitinga

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 13:58:00 (4994)

2001-02-27 13:58:00# 126. lþ. 77.94 fundur 334#B staða fíkniefnalögreglunnar með tilliti til fjárveitinga# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[13:58]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu eitt af mestu vandamálum samtímans en ég verð að segja það í upphafi að mér finnst orðanotkunin dálítið hastarleg hérna. Hæstv. dómsmrh. er búin að útskýra að ekkert yfirvinnubann hefur verið í gangi heldur takmarkanir á yfirvinnu á einhverjum tíma. Samt talar hver einasti ræðumaður um yfirvinnubann og þeir virðast ekki hlusta á útskýringar.

Það sem var erindi mitt í þessa umræðu var að minnast á afgreiðslu fjárln. á þessu máli. Við lokaafgreiðslu fjárlaga var farið yfir þetta mál, fíkniefnavandann og ákveðið var að bæta við 100 millj. til að berjast við þessi vandamál á ýmsum vígstöðvum og þar á meðal að veita fé til meðferðarstofnana. Veitt var fjármagn til að styrkja fíkniefnalögregluna að starfskröftum og eins og hv. 4. þm. Suðurl. sagði var fé lagt í sjóð til að mæta yfirvinnu í erfiðum málum. Þetta var afgreiðsla fjárln. og þingsins á málinu við lokaafgreiðslu fjárlaga í haust.

Ég vil ljúka máli mínu með því að segja að varðandi fíkniefnavandann yfirleitt hefur ekki verið veitt meira viðbótarfjármagn til nokkurs málaflokks á síðari árum eins og þessa og það veitir ekkert af eins og hér hefur verið rakið. Hins vegar furða ég mig á því að hv. þm. hlusti ekki á útskýringar þegar þær eru fram bornar í hv. Alþingi.