Staða fíkniefnalögreglunnar með tilliti til fjárveitinga

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 14:06:51 (4998)

2001-02-27 14:06:51# 126. lþ. 77.94 fundur 334#B staða fíkniefnalögreglunnar með tilliti til fjárveitinga# (umræður utan dagskrár), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[14:06]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég verð að játa að ég undrast mjög þá umræðu sem hér fer fram. Í fyrsta lagi hefur komið fram að það mál sem er tilefni umræðunnar var rannsakað og ekkert bendir til þess að stór sending fíkniefna hafi komist í umferð. Í öðru lagi liggur fyrir að í þessu máli var aðstoð við embættið í Vestmannaeyjum til reiðu og ljóst að fullyrðing um að fjárskortur hafi komið í veg fyrir að sú aðstoð væri veitt á enga stoð í veruleikanum. Í þriðja lagi liggur fyrir að ég hef óskað eftir úttekt á málinu enda vil ég fá það upp á borðið ef --- og ég segi ef --- hugsanlegt er að samskipti lögregluliðanna hafi ekki verið jafnljós og skilvirk og best verður á kosið. Úr því þarf að bæta ef minnsta ástæða er til þess að ætla að eitthvert samskiptavandamál sé fyrir hendi og á því verður tekið ef þörf er á.

Eins liggur fyrir að stórátak hefur verið gert í fíkniefnamálum á undanförnum árum. Þetta vita hv. þm. Ég hef lagt þunga áherslu á þennan málaflokk og ríkisstjórnin öll. Komið hefur verið á fót neti fíkniefnalögreglumanna um nær allt landið og sérstöku samstarfi lögregluliða á suðvesturhorninu. Eins og hér kom fram voru aukalegar fjárveitingar til fíkniefnalöggæslu og sérstaklega síðasta haust. Þá var um að ræða 50 millj. og þar af var ákveðin fjárhæð sem var ætlað að mæta sérstökum kostnaði við rannsókn meiri háttar fíkniefnamála. Hér er komið nauðsynlegt svigrúm til að takast á við umfangsmikil mál sem kalla á lotuvinnu í lögregluliðum þannig að áætlanir um yfirvinnu kunna að raskast.

Hv. þm. deila þeim áhuga sem ég hef og ríkisstjórnin öll á að taka á þessum vanda í tengslum við fíkniefnin. Ég vona svo sannarlega að við getum öll verið sameinuð í þeirri baráttu.