Framkvæmd Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 14:18:28 (5000)

2001-02-27 14:18:28# 126. lþ. 77.3 fundur 391. mál: #A framkvæmd Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn# frv., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[14:18]

Ásta Möller:

Herra forseti. Hér er til umfjöllunar frv. til laga um framkvæmd Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn en hann hefur áður verið til umfjöllunar á hinu háa Alþingi. Haustið 1999 bar ég fram fyrirspurn til hæstv. utanrrh. þar sem ráðherrann var inntur eftir því hvenær hann hygðist leggja fyrir Alþingi þáltill. um fullgildingu á Rómarsáttmálanum um stofnun alþjóðlegs sakamáladómstóls sem samþykktur var 17. júlí 1998 og var undirritaður af hálfu Íslands 26. ágúst 1998.

Sl. vor lagði hæstv. utanrrh. fram þáltill. þessa efnis og var hún samþykkt í maí árið 2000 og varð samningurinn þannig fullgiltur fyrir Íslands hönd.

Til að Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn geti tekið til starfa þurfa 60 þjóðlönd að staðfesta hann og kom fram í máli hæstv. dómsmrh. að 13. febrúar sl. höfðu 129 lönd undirritað samþykktina en einungis 28 ríki fullgilt hana. Þannig virðist enn nokkuð langt í land að Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn taki til starfa og er það miður.

Það frv. sem nú er til umfjöllunar snýr að því að lögfest verði nauðsynleg ákvæði til að dómstólum og stjórnvöldum hér á landi verði unnt að framkvæma ákvæði Rómarsamþykktarinnar í samræmi við skuldbindingar íslenska ríkisins. Ég mun ekki fjalla sérstaklega um einstakar greinar frv. en vil í nokkrum orðum ræða mikilvægi Alþjóðlega sakamáladómstólsins.

Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn hefur verið talinn eitt mikilvægasta skrefið í mannréttindamálum á síðari tímum. Ýmsir alþjóðasamningar, sáttmálar og yfirlýsingar hafa verið undirritaðir gegnum tíðina af þjóðum heims til varnar mannréttindum fólks. Þar ber hæst mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem er grundvallarsamningur þjóða í milli til verndunar mannréttindum einstaklinga. Hins vegar er það svo að þrátt fyrir góðan vilja, fjölmarga alþjóðlega samninga og reglur í þessa veru hefur mannkynið oft staðið máttvana gagnvart mannréttindabrotum sem framin hafa verið víða um heim og vanhæfni alþjóðasamfélagsins til að kalla þá einstaklinga til ábyrgðar sem gerast sekir um glæpi gagnvart mannkyninu og refsa þeim. Vinna við að koma á stofn alþjóðlegum sakamáladómstól til að lögsækja þá einstaklinga sem gerast sekir um alvarlega glæpi á ófriðartímum hefur staðið yfir í langan tíma en slíkt tæki hefur skort verulega.

Alþjóðadómstóllinn í Haag tekur þannig eingöngu á málum er varða samskipti milli ríkja og þá hafa svokallaðir ,,ad hoc`` stríðsdómstólar verið settir á laggirnar, t.d. vegna stríðsglæpa sem framdir voru í Rúanda og fyrrum Júgóslavíu en þeir dómstólar hafa eingöngu lögsögu í mannréttindabrotum sem framin eru í þessum tilteknu ófriðarlöndum og á ófriðartímum.

Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn verður ein af stofnunum Sameinuðu þjóðanna og mun hann verða stofnaður til frambúðar. Dómstóllinn mun lögsækja einstaklinga sem grunaðir eru um yfirgang, stríðsglæpi, þátttöku í þjóðarmorði eða aðra alvarlega glæpi gegn mannkyninu. Til hins síðastnefnda teljast víðtækar og skipulagðar árásir á tiltekinn hóp manna, t.d. með morðum, útrýmingu, nauðgunum, kynlífsþrælkun, þröngvuðum þungunum, mannránum eða glæpum vegna aðskilnaðarstefnu. Dómstóllinn hefur heimild til að taka upp mál með litlum fyrirvara eða beina tilmælum til viðkomandi þjóðlanda að lögsækja stríðsglæpamenn. Einnig getur hann að eigin frumkvæði lögsótt stríðsglæpamenn ef tilmæli um upptöku mála í viðkomandi landi reynast árangurslaus.

Í þessu sambandi má geta þess að nýverið voru fréttir í fjölmiðlum um að í fyrsta sinn í veraldarsögunni voru stríðsglæpamenn dæmdir fyrir mannréttindabrot á konum vegna kynlífsþrælkunar og nauðgana sem áttu sér stað í fyrrum Júgóslavíu en alþjóðadómstólnum er ætlað að taka fast á slíkum málum.

Með því frv. sem er hér til umfjöllunar og lögfestingu þess hefur Ísland gengið frá öllum endum af sinni hálfu til að fullnægja skuldbindingum þeim er við gengumst undir við undirritun samþykktarinnar í ágúst 1998.