Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 15:27:14 (5016)

2001-02-27 15:27:14# 126. lþ. 77.6 fundur 414. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (aðild RALA að hlutafélögum) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[15:27]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra þarf engar áhyggjur að hafa af því að ég verði honum ekki ráðhollur í landbn. En þannig er það nú að vinur er sá er til vamms segir. Það var eingöngu af þeim ástæðum að hér kvað við algerlega nýjan tón hjá hæstv. ráðherra, ég náði ekki að fylgja honum að fullu og öllu.

Ég er ekki alveg sannfærður enn þá og rifja það upp, þó vilji ég trúa því að hæstv. ráðherra hafi fulla trú á því að þetta geti aukið rannsóknir og þróunarstarfsemi í landbúnaði, þá er það vissulega þekkt hins vegar að þær stofnanir sem til eru, í þessu tilfelli Rannsóknastofnun landbúnaðarins, tæmast í raun innan frá. Þessi stoðfyrirtæki, háeff-væddu verði alfa og ómega þeirra hluta sem gera skal.

Það eru kannski þær áhyggjur sem ég el í brjósti að meginþungi starfseminnar færist frá þeirri stofnun til annarra markaðsvæddra stofnana. Kannski er það allt í lagi en menn þurfa hins vegar að vita af slíkri hættu og horfast í augu við hana. Það er kannski fyrst og síðast það sem ég velti vöngum yfir en við munum auðvitað skoða þetta mál mjög vandlega í landbn. og gera það samkvæmt bestu vitund okkar og með jákvæðu hugarfari. Ég vil ekki ætla hæstv. landbrh. neitt illt í þessum efnum, ég trúi því að hjartað slái enn þá vinstra megin þrátt fyrir allt.