Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 16:15:05 (5029)

2001-02-27 16:15:05# 126. lþ. 77.7 fundur 133. mál: #A stjórnarskipunarlög# (þjóðaratkvæðagreiðslur) frv., BH
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[16:15]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Stjórnskipunin sem við byggjum á í íslensku samfélagi einkennist m.a. af því að við búum við það sem kallað er fulltrúalýðræði. Í því felst að þjóðin kýs sér fulltrúa, alþingismenn, á nokkurra ára fresti, og veitir þeim umboð til þess að setja landinu lög. Þannig er það ekki þjóðin sjálf sem setur lögin sem í landinu gilda. Í stjórnarskrá okkar eru engin ákvæði um rétt kjósenda til að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um ákveðin mál eða um frumkvæðisrétt kjósenda til að flytja lagafrv. eða koma slíkum hugmyndum á framfæri. Sá frumkvæðisréttur er einvörðungu bundinn við forseta, ráðherra og alþingismenn. Í tveimur tilvikum er þjóðaratkvæði um löggjafarmál þó stjórnarskrárbundið, þ.e. í þeim tilvikum að Alþingi samþykkir breytingu á kirkjuskipan ríkisins samkvæmt 62. gr., en þá skal leggja frv. undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar og skal sú atkvæðagreiðsla vera leynileg. Atkvæði á samkvæmt þessu ákvæði að greiða um frv. í heild og skulu menn annaðhvort samþykkja það eða fella. Breytingar kæmu þannig ekki til greina.

Í stjórnarskránni er ekki að finna frekari leiðbeiningar um þjóðaratkvæðagreiðsluna, ef Alþingi mundi samþykkja breytingu á kirkjuskipan ríkisins. Það eru t.d. engar kröfur gerðar um þátttöku í henni og þess er ekki heldur getið hvort meiri hluti kosningabærra manna þurfi að veita samþykki sitt eða aðeins meiri hluti þeirra sem atkvæði greiða. Þess vegna er óljóst hvernig slík þjóðaratkvæðagreiðsla yrði framkvæmd ef til hennar kæmi. Reyndar er það mitt að mat að frekar ólíklegt sé að farið verði út í breytingar á kirkjuskipaninni, a.m.k. í nánustu framtíð.

Síðan er önnur heimild í 26. gr. stjórnarskrárinnar um að fram skuli fara þjóðaratkvæðagreiðsla um lög þau sem forseti synjar staðfestingar. Þetta er sú heimild í stjórnarskránni sem hefur verið hvað mest í umræðunni, a.m.k. í seinni tíð og reyndar nokkuð lengi. Það hafa með jöfnu millibili komið upp mál sem leitt hafa til umræðu um hvort ástæða sé til þess fyrir forseta að synja staðfestingar á lögum. Í því tilviki öðlaðist frv. lagagildi þrátt fyrir staðfestingarsynjun forseta en úrslit þjóðaratkvæðis segja til um hvort lögin skuli halda áfram að gilda eða hvort þau skuli falla úr gildi. Fái lögin samþykki kjósenda halda þau framvegis gildi og þarf ekki að bera þau upp á ný fyrir forseta. Um slíka atkvæðagreiðslu yrði einnig að setja lög og sú leiðbeining er nú gefin í stjórnskipunarrétti Gunnars G. Schrams, þar er lagt til að eðlilegast væri að setja um það efni almenn lög. Líklega yrði talið heimilt að setja í þeim lögum ákveðin skilyrði um þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslunni líka en vegna þess hversu lítil leiðbeining er falin í stjórnarskránni og vegna þess að þessi ákvæði hafa ekki verið notuð þá er náttúrlega mikilvægt að það verði nánar afmarkað í lögum hvernig þau verði notuð ef til þess kæmi.

Í ýmsum öðrum löndum er löggjafarvaldið lagt í hendur þjóðarinnar í mun ríkara mæli en hér tíðkast. Hv. flm. Jóhanna Sigurðardóttir fór nokkuð yfir þetta. Hún gat t.d. um ákvæði dönsku stjórnarskrárinnar en þar er lagt til, í 1. mgr. 42. gr., að þriðjungur þingmanna geti farið fram á að til þjóðaratkvæðagreiðslu verði efnt um lög sem samþykkt hafa verið af þjóðþinginu. Í því tilviki er forsrh. skylt að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um hið umdeilda lagafrv. innan 18 daga frá því honum barst það frá þinginu og frestast þá gildistaka frv. á meðan. Eftir þessu ákvæði hefur einu sinni, síðan ákvæðið var sett árið 1953, farið fram þjóðaratkvæðagreiðsla í Danmörku.

Í Danmörku er sá möguleiki sem lagt er til í frv. sem hér er mælt fyrir hins vegar ekki fyrir hendi, að tiltekinn fjöldi kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Aftur á móti er nokkuð um það í öðrum löndum að þjóðaratkvæðagreiðsla gegni nánast hlutverki löggjafaraðila. Það er stundum stjórnarskrárbundið að almenn atkvæðagreiðsla kjósenda skuli fara fram um tiltekin lög eða lagafrv. og í öðrum tilvikum veita stjórnarskrár skilorðsbundna heimild til þjóðaratkvæðis, þ.e. veita ákveðnum aðilum, ákveðnum hópi þingmanna eða tiltekinni tölu kjósenda, rétt til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um nánar tilgreind lög eða lagafrv. Frv. er sem hér er mælt fyrir er af þeim meiði.

Það hefur lítið kveðið að þjóðaratkvæðagreiðslum hér á landi, þrátt fyrir að skylt sé samkvæmt stjórnarskránni í ákveðnum tilvikum að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu eins og hér var áðan rakið. Hins vegar eru engin ákvæði í íslensku stjórnarskránni um skilorðsbundna heimild til þjóðaratkvæðagreiðslu, jafnvel þó að nokkuð hafi verið reynt á síðari árum að fá slík ákvæði inn í lögin. Í tillögum stjórnarskrárnefndar, í skýrslu hennar sem gefin var út í janúar árið 1983 og einnig í stjórnarskrárfrv. Gunnars Thoroddsens, þáv. forsrh. á þinginu 1982--1983, var gerð tillaga um að fjórðungur alþingiskjósenda gæti óskað eftir því að fram færi, reyndar ráðgefandi í því tilviki, þjóðaratkvæðagreiðsla um einstök málefni og að um framkvæmd slíkrar atkvæðagreiðslu skyldi nánar fyrir mælt í lögum. Þessar tillögur voru ekki afgreiddar á Alþingi en sýna að hugmyndin sem hér er mælt fyrir er alls ekki ný af nálinni heldur hefur komið upp umræða um slíka heimild öðru hvoru.

Herra forseti. Í sjálfu sér er ekki óeðlilegt að lagt sé til, á þann hátt sem hér er gert, að þegnarnir fái meira um það ráðið þegar mál eru afgreidd frá hinu háa Alþingi, sérstaklega þegar um er að ræða mál sem geta varðað þjóðina miklu. Eiginlega má segja að það sé ákveðin bremsa á þeirri tillögu sem hér er lögð til, að leggja hana upp þannig að það þurfi þó fimmtung atkvæðisbærra kjósenda til að leggja fram slíka kröfu. Það þurfa þannig að vera nokkuð mikilvæg mál á ferðinni til þess að menn hafi fyrir því að safna slíkum fjölda manna á slíka tillögu.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, framsögumaður þessa máls, hefur farið ítarlega yfir efni frv. Eins og hún sagði hefur það verið lagt fram á fimm liðnum þingum án þess að hljóta afgreiðslu. Ég tek undir það með hv. þm. að ég óska þess að í sjötta sinn sem mælt er fyrir þessu frv. þá megum við nú bera gæfu til þess að gera það að lögum, a.m.k. áður en langt um líður.

Með þessu frv. er lagt til að rýmkuð verði til muna heimild í stjórnarskránni til að þjóðaratkvæðagreiðsla geti farið fram. Í tillögunni felst líka sú grundvallarbreyting á stjórnarskránni að þegnum landsins er gert kleift að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök mál sem Alþingi hefur haft til umfjöllunar og samþykkt. Slík heimild er ekki fyrir í stjórnarskránni eins og ég minntist á hér áðan.

Tillagan felur með öðrum orðum í sér vísi að beinu lýðræði. Við búum við fyrirkomulag þar sem fólk getur einungis haft áhrif með því að greiða atkvæði í kosningum. Margir telja hins vegar að bæta megi lýðræðið með því að auka bein áhrif fólks. Og það er hægt að gera með því að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál. Ég er ein þeirra sem taka undir slíkar hugmyndir, enda einn af flutningsmönnum þessa frv.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mikið fleiri orð um það ágæta mál sem hér er mælt fyrir í sjötta sinn. Ég vil einungis hvetja til að skoðað verði af alvöru hvort ekki sé ástæða til að gera slíkt frv. að lögum og bæta þannig, eða a.m.k. setja inn í stjórnarskrá heimild til þess, aðkomu þegnanna að stórum ákvörðunum sem teknar eru á hinu háa Alþingi og geta vissulega varðað þjóðina mjög miklu.