Þingsköp Alþingis

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 17:20:26 (5035)

2001-02-27 17:20:26# 126. lþ. 77.9 fundur 147. mál: #A þingsköp Alþingis# (upplýsingar um hlutafélög) frv., 148. mál: #A hlutafélög# (réttur alþingismanna til upplýsinga) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[17:20]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við erum að ræða tvö frv. sem hafa komið fyrir þingið í tvígang áður og snúast m.a. um réttindi þingmanna til upplýsinga um fyrirtæki í eigu ríkisins. Kveikjan að þessum frv., sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson flytur og hefur flutt í tvígang áður á þinginu, var m.a. fyrirspurn sem ég lagði fyrir 121. þing, árið 1997, um starfskjör yfirmanna Pósts og síma þar sem ég óskaði eftir upplýsingum um starfskjör þeirra fyrir og eftir formbreytinguna í hlutafélög en þá var verið að hlutafélagavæða Póst og síma. Ég fékk þau svör frá hæstv. samgrh. um að ráðherra mundi veita upplýsingarnar sem varða ríkisfyrirtækið áður en það varð hlutafélag en ekki eftir að það var orðið að hlutafélagi og taldi sér ekki fært að krefjast þeirra upplýsinga og að starfskjör væru trúnaðarmál milli stjórnar og starfsmanna.

Þessi mál snúast um grundvallarmál sem eru upplýsingaskylda ráðherra um opinber málefni til alþingismanna og hafa félagar mínir sem hafa talað á undan mér farið rækilega yfir það. Sú fyrirspurn sem ég vitna hér til var borin fram með venjubundnum hætti og studdist við stjórnarskrá og þingsköp og hefði ráðherra átt að svara.

Það sem var merkilegt í þessu atriði var að viku áður en fyrirspurninni var svarað, sem voru engin svör reyndar, hafði komið fram hjá viðskrh. í umræðu um hlutafélagavæðingu Landsbankans og Búnaðarbankans þar sem hann var spurður um hvort hann teldi að Alþingi ætti að hafa aðgang að upplýsingum um kjör yfirmanna ríkisbankanna eftir að bankarnir væru orðnir að hlutafélögum, þá taldi hann að svo væri og ekki síst meðan bankinn væri að 100% hlut í eigu ríkisins og þetta stangaðist á við skoðanir þáv. hæstv. viðskrh. og hæstv. samgrh.

Það er alveg rétt eins og kom fram í máli hv. þm. Jóhanns Ársælssonar að auðvitað hefði ráðherra getað svarað þessum spurningum og öðrum sambærilegum spurningum. En ég tel að hann hafi ekki viljað koma með þær upplýsingar sem óskað var eftir, í þessu tilviki launakjörin hjá yfirmönnum Pósts og síma fyrir og eftir hlutafélagavæðinguna því að hann hefði vel getað kallað eftir þeim upplýsingum. Ráðherrann var eini hluthafinn eða handhafi ríkisins á hlutabréfinu og hann hefði getað óskað eftir slíkum upplýsingum. Ef hann hefði ekki fengið þær hefði hann getað látið kalla saman aukahluthafafund og fengið þær upplýsingar sem óskað var eftir hér á þingi en einn hluthafi getur haldið fund hvenær sem hann óskar þess og krafið stjórn um upplýsingar sem varðar rekstur fyrirtækisins. Sömuleiðis er í lögum um ársreikninga getið um sambærilegan rétt til upplýsinga eins og fyrirspurnir þær sem ég vitna hér í kveða á um, þar sem segir að laun stjórnenda í fyrirtæki skuli vera birt. Ég tek því undir það sem kom fram hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni að auðvitað hefði ráðherra getað svarað slíkum spurningum og ráðherrar eiga auðvitað að svara spurningum sem kallað er eftir hér á þingi um þessi málefni og er löngu tímabært að þau frv. sem hér eru til umræðu, um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, og breytingu á lögum um hlutafélög, nái fram að ganga því að það er bágt og erfitt fyrir þingmenn sem ber að sinna eftirlitshlutverki sínu, sérstaklega þingmönnum í stjórnarandstöðu, að geta ekki lengur sinnt því með fyrirspurnum eins og nú er og reynslan hefur sýnt varðandi ríkisfyrirtæki sem orðin eru hlutafélög.

Ég gæti náttúrlega farið yfir ýmislegt fleira í sambandi við þetta mál eins og t.d. skýrslu þá sem hæstv. forsrh. lagði fram á þingi í kjölfar utandagksrárumræðna um þessi réttindi og niðurstöðu þeirra sem m.a. er vitnað til í greinargerð með þessum frumvörpum, en ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en tel mjög brýnt, herra forseti, að þessi mál fái afgreiðslu, þau verði unnin í nefnd og fái síðan afgreiðslu því að þetta eru tímabær þingmál sem ættu að komast inn í þingið aftur og fást afgreidd sem lög.