Setning reglna um kosningar skv. 26. gr. stjórnarskrár

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 14:10:55 (5058)

2001-02-28 14:10:55# 126. lþ. 79.1 fundur 427. mál: #A setning reglna um kosningar skv. 26. gr. stjórnarskrár# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[14:10]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Úr því að hv. fyrirspyrjandi hagaði orðum sínum eins og hann gerir í fyrirspurninni, þá er e.t.v. ekki úr vegi að halda því til haga að ekki telja allir að það sé hafið yfir allan vafa hvort slíkt synjunarvald forseta, samkvæmt tilvitnaðri grein stjórnarskrárinnar, sé í höndum hans persónulega eða í höndum ríkisstjórnarinnar eða einstakra ráðherra eins og raunar allar aðrar athafnir sem atbeina forseta þarf til. Þannig hefur fyrrv. prófessor og hæstaréttardómari, Þór Vilhjálmsson, til að mynda sett fram þá skoðun í fræðigrein, með leyfi forseta: ,,að rökrétt samhengi fáist ekki í reglur stjórnarskrárinnar um lagasetningu nema ráðherra geti tekið ákvörðun um lagasynjun samkvæmt 26. gr. stjórnarskrárinnar.``

Hann telur með öðrum orðum að ráðherra sé ekki skylt að bera samþykkt lagafrv. upp til staðfestingar. Hann eigi jafnframt þann kost að leggja til að því verði synjað staðfestingar og að forseti sé bundinn af tillögugerð ráðherrans þar að lútandi. Aðrir fræðimenn, þar með taldir tveir fyrrv. forsrh., þeir Ólafur Jóhannesson og Bjarni Benediktsson, hafa að vísu ekki deilt þessum skoðunum með Þór Vilhjálmssyni en telja þá skipan sem 26. gr. stjórnarskrárinnar mælir fyrir um engu að síður, eins og þeir orða það, einkennilega, og telja að deila megi um hversu heppileg hún sé þar sem þingræði sé viðhaft, svo vitnað sé í þessa tvo fræðimenn. Þeir hafa auðvitað tjáð sig um málið.

En hvað sem þessu líður er e.t.v. ekki seinna vænna að huga að því hversu með skuli fara ef sú sérkennilega staða kæmi upp sem tilvitnað ákvæði stjórnarskrárinnar gerir ráð fyrir rúmri hálfri öld eftir að það var skilið með þessum einkennilega hætti.

Ef menn setja sem svo að fyrir liggi synjun í skilningi 26. gr. stjórnarskrárinnar sem skylt væri að bera undir atkvæði allra kosningabærra manna svo fljótt sem unnt er vakna margar spurningar um hversu með skuli fara. Hverjir mundu til að mynda teljast kosningabærir? Hvaða skilyrði þurfa menn að uppfylla í þeim efnum? Hvaða skilyrði væri unnt að setja um þátttöku í slíkri atkvæðagreiðslu og um afl atkvæða? Væri jafnvel hægt að setja skilyrði um aukinn meiri hluta eða væri hægt að búa við það að jafnvel 2.000 manns tækju þátt og 1.100 manns mundu nema úr gildi lög sem kannski stór meiri hluti þingmanna hefðu ákveðið o.s.frv.? Hvað tæki við þegar niðurstöður slíkrar kosningar lægju fyrir? Tökum öryrkjadóminn. Ef ríkisstjórnin hefði fengið sitt frv. samþykkt eins og hún fékk og forseti síðan synjað, þá hefði væntanlega orðið að greiða út þennan milljarð með fyrirvörum. Og ef synjun forsetans yrði síðan samþykkt, þá yrði að rukka þennan milljarð inn aftur.

Tökum einfaldara dæmi: Ef ríkisstjórnin mundi fá í gegn lög um það að rífa Bernhöftstorfuna. Forseti mundi synja. Lögin taka strax gildi. Þar stæði að rífa ætti hana innan viku. Ríkisstjórnin færi og léti jarðýtu keyra á Bernhöftstorfuna. Síðan færi málið fyrir þjóðina með einhverjum hætti. Synjun forsetans yrði staðfest. Hvar værum við stödd? Þetta er afskaplega undarlegt ákvæði svo ekki sé meira sagt. Það segir nefnilega að eftir að forseti hefur synjað taka lögin þegar gildi. Þetta vefst fyrir mörgum. Það frestast ekkert. Þau taka þegar gildi.

Ég tók þetta undarlega dæmi um Bernhöftstorfuna til að vekja athygli á því með skrýtnu dæmi hvernig þetta gæti litið út.

Þetta hefur svo sem ekki verið mjög mikið rætt en menn velta því fyrir sér hvað tæki við þegar kosningarnar væru búnar. Frá hvaða tíma til að mynda teldist brottfall laganna? Væri það frá synjunardegi forseta? Væri það frá staðfestingu þjóðarinnar á synjuninni o.s.frv.? Fullt af álitaefnum sem upp kæmu þyrftu menn að rannsaka og velta fyrir sér.

Um þennan þátt hefur lítið verið fjallað af fræðimönnum en Ólafur Jóhannesson virðist telja einsýnt og hefur sagt það að einsýnt væri að setja yrði lög um þessa atkvæðagreiðslu. Ég tek undir þetta sjónarmið Ólafs. Ég sé ekki hvernig öllum þessum spurningum og fleirum en þeim sem ég hef varpað hér fram verði svarað með öðrum hætti en með lögum. Eins og menn geta ímyndað sér þegar og ef þetta gerðist, þá yrðu væntanlega afskaplega miklar deilur uppi í þjóðfélaginu um mál og menn eru ekki endilega mjög sáttir um nokkurn skapaðan hlut þegar slíkar deilur eru uppi. Þess vegna væri afar þýðingarmikið að þessu yrði svarað með skýrum hætti með lögum frá þinginu en ekki frá framkvæmdarvaldshafanum sem væri að fara með framkvæmd kosninga.

Ég hef hins vegar ekki í hyggju að beita mér fyrir lagasetningum án þess að tilefni skapist til þess og til þess liggja ástæður af tvennum toga. Ef við lítum þannig á að synjunarvaldið sé í höndum ríkisstjórnarinnar eins og Þór Vilhjálmsson gerir, þá er út af fyrir sig væntanlega ekki ástæða til þess. Þá mundu hjól þingræðisins sjá um þennan þáttinn. Sé hins vegar litið svo á að forseti geti sjálfur beitt þessu ákvæði persónulega sem er þá hið eina í stjórnarskránni sem hann þarf ekki atbeina ríkisstjórnarinnr til, þá tel ég sjálfsagt að á því sé tekið í þetta eina skipti sem þetta mundi gerast, enda er ég þeirrar skoðunar að ef þetta gerðist, þá mundi þetta aðeins gerast einu sinni. Ég tel að hvorki þjóð né þing mundi í raun líða það að þingræðisreglunni yrði bægt burtu með slíkum hætti.