Skipan stjórnarskrárnefndar

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 14:21:12 (5061)

2001-02-28 14:21:12# 126. lþ. 79.2 fundur 428. mál: #A skipan stjórnarskrárnefndar# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[14:21]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Á síðustu öld, frá því í aðdraganda stofnunar lýðveldisins á árinu 1942, hafa starfað einar fimm nefndir sem hafa haft það hlutverk að vinna að setningu eða endurskoðun eða breytingum á stjórnarskránni. Þetta voru nefndir á árunum 1942--1947 sem tengdust tilurð lýðveldisins eða stofnun lýðveldisins undir formennsku fyrst Gísla Sveinssonar og síðan Sigurðar Eggerz og að lokum 1947 undir forustu Bjarna Benediktssonar, og síðan nefndir sem störfuðu eftir árið 1972 þegar fjórða stjórnarskrárnefndin var sett á laggirnar undir formennsku Hannibals Valdimarssonar og loks fimmta og síðasta stjórnarskrárnefndin sem tók til starfa 1978 og var í upphafi undir forustu Gunnars Thoroddsens en við lát hans tók Matthías Bjarnason við og var formaður þar til nefndin var lögð niður 21. ágúst 1995. Það hafa sem sagt starfað fimm nefndir á lýðveldistímanum, herra forseti, með þetta hlutverk.

Nokkrum sinnum hafa verið gerðar breytingar á stjórnarskránni, oftast vegna breyttrar kjördæmaskipunar eða kosningalaga en einnig hafa efnisákvæði tekið breytingum og nægir þar að nefna hinn nýja mannréttindakafla stjórnarskrárinnar sem lögtekinn var 1995. Sú umræða hefur haldið áfram að ýmis ákvæði stjórnarskrárinnar væru barn síns tíma og breyttar aðstæður kölluðu á að farið væri á nýjan leik yfir ýmis ákvæði stjórnarskrárinnar. Sú vinna hefur oftast farið þannig fram að hún hefur verið kaflaskipt og menn hafa haft einstaka kafla undir hverju sinni en ekki kannski stjórnarskrána í heild sinni. Nefndir hafa verið til að mynda kaflarnir um stjórnskipun landsins og það var rætt, herra forseti, í tengslum við næstu fyrirspurn á undan á dagskránni og einnig kaflarnir um dómstóla eða ákvæði um dómstóla og fleiri þætti sem beinlínis þörfnuðust endurskoðunar vegna breyttra aðstæðna, ýmist innri aðstæðna hér í landi eða vegna breyttrar réttarþróunar alþjóðlega.

Herra forseti. Með vísan til alls þessa og einnig hins að talsverð umræða hefur verið nú síðustu missirin um ýmsa þætti sem tengjast stjórnskipun landsins og gildi stjórnarskrárinnar, dómar hafa fallið sem hafa sýnt fram á mikilvægi ákvæða stjórnarskrárinnar og það virðist í vaxandi mæli vera svo að til hennar sé litið, hef ég leyft mér að spyrja hæstv. forsrh. hvort hann hyggist að nýju skipa nefnd sem vinni að áframhaldandi endurskoðun stjórnarskrárinnar og hvaða efnisatriði, kaflar og greinar stjórnarskrárinnar það væru þá sem hæstv. ráðherra teldi helst þörf á að endurskoða.