Eftirlitsskylda þingmanna með framkvæmd laga

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 13:44:29 (5282)

2001-03-07 13:44:29# 126. lþ. 83.91 fundur 347#B eftirlitsskylda þingmanna með framkvæmd laga# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 126. lþ.

[13:44]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Það er ákaflega sérkennileg málsvörn forustu Sjálfstfl. í þinginu fyrir þeim gjörningi sem hæstv. menntmrh. hefur orðið uppvís að og fyrst og síðast birtist hann í útúrsnúningum og hálfgerðum kjánaskap, herra forseti.

Samfylkingarmenn í Hafnarfirði þurfa enga hjálp í baráttu sinni við villuráfandi sjálfstæðismenn þar í bæ. Þeir hafa þar tögl og hagldir. Hér erum við hins vegar að ræða alvörumál sem lýtur ekki eingöngu að Hafnarfirði, betur að satt væri, því að því máli björgum við í héraði í næstu sveitarstjórnarkosningum. En hér er um að ræða stefnumörkun sem mun væntanlega og mjög sennilega mun flæða yfir landið allt.

Herra forseti. Til að taka af öll tvímæli þá erum við að ræða um framkvæmd laga. Ekki breytingar á lögum sem eu væntanleg eða liggja fyrir í þinginu heldur hvernig ráðherrar framkvæmdarvaldsins fara með þetta vald sitt. Um það snýst þessi umræða.

Hér eru þingmenn hver á fætur öðrum að vekja á því athygli að einn hæstv. ráðherra, sem lýtur stjórn hæstv. forsrh., er að misfara með vald sitt og menn hafa leitt rök að því og bent á umræðu í þinginu sl. þrjá áratugi. Það er efni þessa máls og við höldum okkur við það. Það er undarlegt og satt að segja óskiljanlegt að stjórnarliðar óttist þá umræðu í fagnefnd þingsins. Þetta mál á ekkert að fjalla um utan dagskrár. Það er á dagskrá og við viljum ganga faglega til verka. En auðvitað er það svo að ef menn vilja ekki taka þannig á því þá munu menn grípa til annarra ráða hjá hinu háa Alþingi. Það eru ýmsar leiðir færar, herra forseti.

Ef menn þola ekki umræðuna, þora ekki í hana, þá verður auðvitað að koma henni þannig fyrir að menn komast ekki undan henni. En þessu máli lýkur auðvitað ekki hér. Það byrjaði í Hafnarfirði og því miður mun því ekki ljúka þar og við munum í engu eira fyrr en þessi tilraun með börn, sem er sannheiti á þessu, verður stöðvuð.