Viðskiptabankar og sparisjóðir

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 17:36:52 (6051)

2001-03-27 17:36:52# 126. lþ. 99.4 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[17:36]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það frv. sem við ræðum um breytingu á lögum um viðskiptabanka og sparisjóði er búið að vera nokkurn tíma í undirbúningi og er til þess ætlað að mæta ákveðinni stöðu sem menn töldu rétt að taka til skoðunar. Helstu atriði frv. eru að starfandi sparisjóðum er veitt heimild til að breyta rekstrarformi sínu í hlutafélag, að gerðar eru breytingar á ákvæðum um stofnfjárbréf sparisjóðanna í því skyni að gera bréfin að eftirsóknarverðum fjárfestingarkosti og að í stað þess að sveitarfélög eða sveitarmenn tilnefni tvo stjórnarmenn af fimm í sparisjóðum, þá sé heimilt að kveða á um í samþykktum að stofnfjáreigendur kjósi alla fimm stjórnarmenn sparisjóðs.

Vegna þessa þriðja atriðis sem ég las finnst mér ástæða til að nefna, herra forseti, að það er svo þegar. Til eru sparisjóðir þar sem fulltrúaráð kýs alla stjórnarmenn og sá háttur er hafður á að sveitarfélög kjósa þá tiltekinn fjölda manna inn í fulltrúaráðið. Það hefur verið talið nauðsynlegt þar sem um það hefur verið að ræða og sveitarfélög hafa verið að sameinast og sömuleiðis sparisjóðir en ekki endilega eftir sömu landamerkjum.

Þannig má segja í þessu tilfelli að þetta sé eitt af þeim atriðum sem sett eru upp til að mæta þeim breytingum sem hafa orðið og eru að verða á starfsumhverfi sparisjóðanna, enda skoðaði sú nefnd sem fjallaði um lögin eins og þau voru, og gerir þessa tillögu til breytinga eða setti ákveðnar tillögur í hendurnar á ráðherra, hlutverk sparisjóða á fjármagnsmarkaði og möguleika þeirra til að taka þátt í þeirri öru þróun sem þar á sér stað. Nefndin var þar að velta fyrir sér samkeppnisstöðu fyrirtækja á fjármagnsmarkaði og horfði til sparisjóðanna og möguleika þeirra til að lifa þær breytingar af eða takast á við þær.

Fram kemur að sparisjóður sem breytt er í hlutafélag á áfram að vera sparisjóður í skilningi laga um viðskiptabanka og sparisjóði, þ.e. á frv. eru ákveðnir ,,prófílar`` sem gefa þeim fjármálastofnunum, þó svo þeim yrði breytt í hlutafélag, ákveðna sérstöðu gagnvart öðrum fjármálastofnunum. Það má nefna, herra forseti, að ákveðin byggðapólitísk hugmyndafræði liggur að baki sjálfseignarstofnuninni sem hér hefur verið dálítið rædd og ég ætla að koma inn á í ræðu minni og má segja að það sé kannski það sem helst greinir eða mun greina sparisjóði, þó að hlutafélögum séu orðnir, frá öðrum fjármálastofnunum sem eru í hlutafélagaformi. Við þá breytingu munu stofnfjáreigendur eingöngu fá hlutafé sem gagngjald fyrir stofnfjárhluti sína, þ.e. það græðir enginn einstaklingur á slíkri breytingu, en sá hluti eigin fjár sparisjóðsins sem ekki gengur til stofnfjáreigenda verður eign sjálfseignarstofnunarinnar og megintilgangur hennar er eins og hér hefur komið fram að stuðla að vexti í starfsemi sparisjóðsins og viðgangi hans.

Fram hefur komið hér að fulltrúaráð sjálfseignarstofnunarinnar skuli skipað öllum stofnfjáreigendum í viðkomandi sparisjóði þegar honum var breytt í hlutafélag og að þetta fulltrúaráð skuli kjósa stjórn sjálfseignarstofnunarinnar. Jafnframt kemur fram að einstökum hlutum er aldrei heimilt að fara með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóði sem breytt hefur verið hlutafélag. Menn geta út af fyrir sig borið þetta 5% heildaratkvæðamagn saman við það fyrirkomulag sem er í dag.

Ég ætla, herra forseti, að snúa mér aðeins að megintilgangi sjálfseignarstofnunar og þeim vandamálum sem menn sjá fyrir sér varðandi þá þætti. Í umræðunni hefur komið fram að mönnum finnst sá ljóður helst vera á frv. að hér verði eftir sem áður um að ræða fé sem enginn á og hv. þm. Pétur H. Blöndal sem ég vildi gjarnan að hlýddi á mál mitt vegna þess að hann hefur tekið þátt í umræðunni á þann hátt að hann hefur einmitt ...

(Forseti (ÍGP): Forseti mun sjá til þess að hv. þm. komi í þingsalinn.)

Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur einmitt rætt dálítið um framtíð þess mikla fjár sem enginn á. Mér finnst full ástæða til að stalda svolítið við það ákvæði hvað varðar sjálfseignarstofnunina. Mér finnst ástæða til að við veltum því fyrir okkur hvernig valið er í fulltrúaráðið. Vegna þess að auðvitað er það svo að endurvelja þarf í fulltrúaráðið til að það skipi allt að því 30 manns og þar með hvernig valið er í stjórn sjálfseignarstofnunar. Í rauninni erum við þarna að fjalla um vandamál sem er vandamál þegar í dag. Menn eru og hafa verið að velta því fyrir sér á undanförnum árum hvernig og hver á að fara með þetta vald. Sú leið sem hér er fundin er ugglaust ekki sú eina og full ástæða er til að hv. efh.- og viðskn. velti því vandlega fyrir sér hvort hægt er að finna aðrar leiðir að því marki að valið sé með eðlilegum hætti inn í fulltrúaráðið og þar með áfram í stjórn sjálfseignarstofnunar. Menn þekkja hvernig tilurð slíkra fulltrúaráða var í gamla daga, fyrir 150 árum eða svo, 100 árum þegar verið var að stofna sparisjóðina. (Gripið fram í: Og er enn.) Ja, víða er búið að breyta þessu mjög mikið. Það er rétt að það komi fram. Sums staðar eru menn búnir að búa til mjög fjölmenn fulltrúaráð þar sem stofnfjáreigendur hafa greitt inn umtalsvert fé. Það eru vissulega undantekningar frá því og menn halda í gamla háttinn, en víðast hvar er búið að breyta þessu.

Að minnsta kosti var það þannig á árum áður eða fyrir árhundraði og rúmlega það að ábyrgðarmannahópurinn varð hugsanlega til úr hópi stöndugra bænda sem voru tilbúnir að taka að sér ábyrgð fyrir stofnun sparisjóðsins. Það hlutverk gekk síðan að segja má í arf sums staðar. Sonur tók við af föður. Það var sjaldan dóttir og var kannski ekki fyrr en ábyrgðarmannahóparnir voru stækkaðir að konur komu að einhverju leyti að stjórn slíkra stofnana og sums staðar hafa þær komið myndarlega að stjórninni eins og við þekkjum á síðari tímum. En vissulega þarf að velta því fyrir sér og ég geri ráð fyrir að hv. nefnd geri það og beini því til fulltrúa í nefndinni sem hér eru að þeir skoði það hvort möguleiki sé á því að til verði einhverjir bakhjarlar fyrir sjálfseignarstofnunina.

Þegar menn eru að stofna sjálfseignarstofnanir í dag, tökum eins og þá sjálfseignarstofnun sem fer með rekstur Listaháskóla Íslands hins nýja, að þar er búinn til í rauninni bakhjarl sem Bandalag ísl. listamanna stendur að til þess að kjósa í stjórn sjálfseignarstofnuninnar á móti ríkinu þannig að einhverjir möguleikar ættu að vera til til þess að búa til slíka bakhjarla og það má jafnvel velta því fyrir sér vegna þess að ljóst er að sjálfseignarstofnunin hefur ákveðna sveitfesti eða peningarnir hafa ákveðna sveitfesti og eiga að vinna í þágu viðkomandi sveitarfélags. Ef þeir eru innleystir eiga þeir að ganga til menningar- og líknarmála á svæðinu. Spurning er hvort einhver slík félög, menningarfélög eða líknarfélög á svæðinu ættu að mynda slíka bakhjarla. Mér finnst þetta vera hugmynd sem er vert að skoða og velta fyrir sér hvort menn eiga ekki að kanna hvort getur rímað við þær sjálfseignarstofnanir sem eiga að fara með þetta fé sparisjóðanna af því að mér finnst að við eigum að svara þeirri spurningu á einhvern hátt ef menn eru ekki sáttir við að þetta sé eins og lagt er til í frv. þó að það sé skref fram á við miðað við ástandið eins og það er í dag, þ.e. ef menn ætla að fara í það að breyta sparisjóðum í hlutafélag sem við vitum að alls ekki allir muni gera.

[17:45]

Hv. þm. Pétur Blöndal stakk upp á því í gær að sú aðferð yrði skoðuð að menn litu e.t.v. fimm ár aftur í tímann og skuldarar og innistæðueigendur fengju afhent hlutabréf gefins í hlutfalli við reynslukvóta sinn. Ég veit ekki hvort það er aðferð sem við getum fellt okkur við, að gefa mönnum hlutafé í hlutfalli við reynslukvóta en það er sjálfsagt að skoða þessar hugmyndir þó að mér geðjist kannski ekki að nákvæmlega þessari. Ég held að hin væri betri.

Benda má á að hluthöfum fjölgar auðvitað ef sparisjóðurinn fer að selja hlutafé, fer að selja aðgang að sjóðnum ef svo má að orði komast. Þá fjölgum við auðvitað hluthöfum sem er þá af hinu góða. Peningarnir verða eftir á viðkomandi starfssvæði og nýtast þar til menningar- eða líknarmála.

Þá er ég komin að þessari byggðapólitísku hugmyndafræði sem lögð er til grundvallar, þ.e. að með sjálfseignarstofnuninni er, þó að sparisjóðnum sé breytt í hlutafélag, verið að tengja núverandi eigið fé við svæðið. Eigið fé sparisjóðsins, það sem ekki gengur til stofnfjáreigenda, er bundið svæðinu samkvæmt því frv. sem hér liggur fyrir. Sjálfseignarstofnunin verður til úr því eigin fé sem til er í sjóðnum við stofnun hans. (PHB: Hverjir stýra?) Þeir stýra sem voru í fulltrúaráðinu þegar sjóðnum var breytt í hlutafélag og þá þeir sem hugsanlega koma að síðar, beri menn gæfu til að vinna með skapandi hætti í þessu frv. Hugsunin er sú að tengja í raun svæðið við sparisjóðinn vegna þess að þó að sparisjóður sameinist þá er sjálfseignarstofnunin til áfram, skipuð þeim sem voru stofnfjáreigendur þegar sjóðurinn var gerður að hlutafélagi. Þeir munu áfram stýra því hlutafé sem sjálfseignarstofnunin á. Selji sjálfseignarstofnunin féð þá nýtist það heima fyrir. Séu þeir allir fluttir þá gilda væntanlega ákvæðin um að aðrir séu þá valdir inn í staðinn, eins og fram kemur í greinargerð. (Gripið fram í.) Nú ráðlegg ég hv. þm. að lesa aðeins betur. Það er heimilt að innleysa stofnfjárhlut við brottflutning þannig að í raun er sama hvort þú breytir í hlutafélag eða ekki. Það liggur fyrir.

Það er þessi byggðapólitíski prófíll sem skiptir máli varðandi sjálfseignarstofnunina. Enda þótt sameining eigi sér stað þá næst það fram að eigið fé sem myndast hefur í sjóðnum verður áfram til ráðstöfunar á starfssvæði sjóðsins. Það skiptir máli. Það kemur fram í frv. og það er sú hugmynd sem liggur að baki.

Menn geta flutt af svæðinu en sjálfseignarstofnunin flytur ekki af svæðinu. Hún er bundin við svæðið. Sá munur er á, jafnvel ef haft væri á þessu annars konar form, að þó sparisjóðirnir sameinuðust þá verður eigið fé eftir í heimabyggð með einum eða öðrum hætti í krafti sjálfseignarstofnunarinnar.

Auðvitað geta menn smám saman selt fé út úr sjálfseignarstofnuninni en eins og ég sagði áðan þá getur það fé sem þannig verður til runnið til líknar- og menningarmála nema menn kjósi að sjálfseignarstofnunin endurfjárfesti í sparisjóðnum eða með öðrum hætti. Hlutverk hennar er eins og við vitum að standa að þessum rekstri.

Ég vil ítreka, herra forseti, að menn skoði þetta með sjálfseignarstofnunina og stjórn hennar, að menn horfi til þess að heppilegra kunni að vera að hún eigi sér aðra bakhjarla við hliðina á fulltrúaráðinu eða í stað þess, að það verði skoðað hvernig því verði við komið hjá þeim sjóðum sem vilja breyta sér í hlutafélög. Það er ástæða til að undirstrika, herra forseti, að það hvort sjóði er breytt í hlutafélag eða ekki er valkvætt. Því ráða þeir sem fara með stjórn í viðkomandi sjóði.

Vegna þess sem hér hefur verið rætt um, hvort eðlileg sjónarmið muni gilda þá finnst mér líka hægt að gagnálykta. Spyrja mætti: Hafi þeir sem í mörgum tilfellum hafa stýrt sparisjóðunum farsællega, hafa gert þá að farsælum peningastofnunum á starfssvæði sínu, er þá þeim sömu aðilum ekki treystandi til að gera svo áfram? Er ástæða til að ætla að ef þetta frv. verður að lögum og þeir fá heimildir til að breyta sparisjóði í hlutafélag þá fari menn að hugsa allt öðruvísi? Er líklegt að menn hugi þá ekki lengur að þeim megingildum sem þeir áður höfðu við uppbyggingu sjóðsins?

Eins og hér hefur komið fram hafa menn unnið að uppbyggingu sparisjóðanna víðast hvar af því sem í dag mundi kallast óeigingirni. Menn hafa ekki verið kröfuharðir á ávöxtun þess fjár sem þeir hafa sett inn í sjóðina. Er ástæða til þess að ætla að það breytist svo mjög hjá þessum sömu aðilum, enda þótt þeir eigi kost á því að breyta í hlutafélag, vegna þess að stofnfjárhlutur þeirra mun í sjálfu sér ekki breytast svo mikið? Þar væri enginn að græða. Menn fá eingöngu gagngjald fyrir stofnfé sitt. Þeir fá ekki hlutdeild í þeim arði sem orðið hefur til eða eigin fé sem orðið hefur til í sjóðnum heldur eingöngu gagngjald fyrir stofnfé sitt. Ég held að það sé ekki ástæða til að ætla að menn fari að haga sér með gjörólíkum hætti.

Ég held að það sé hins vegar full ástæða til þess að undirstrika að ugglaust hafa ekki allir áhuga á því að takast á við framtíðina með breyttu formi. Það er valkvætt. Það er einnig valkvætt hvort sveitarstjórnir eða héraðsnefndir skipa fulltrúa beint í stjórnir sjóðanna þar sem það er enn þá gert. Ég held, herra forseti, að það sé mikilvægt fyrir sparisjóðina, umhverfi þeirra og starfssvæði, að þær leikreglur sem gilda taki mið bæði af fortíð þeirra eins og mér finnst reynt að gera í þessu frv. og ekki síður af þeirri stöðu sem sjóðirnir eru í á gjörbreyttum fjármálamarkaði. Það er mikilvægt að þeir geti tekist á við þær aðstæður og haldið áfram að vera til eða eftir atvikum sameinast öðrum sjóðum eins og gerst hefur. Þó verður eigið fé sjálfseignarstofnunarinnar varðveitt með þeim hætti sem hér er lagt til á starfssvæði sjóðsins fyrir sameininguna, annaðhvort í gegnum stjórnunarleg áhrif á sparisjóðinn eða með þeim peningum sem nýttir yrðu til líknar- eða menningarmála eins og hér er mælt fyrir um.

Það er ástæða til þess að undirstrika, af því að norska leiðin var rædd hér í gær, að samkvæmt þessu frv. verður stofnfjáreigendum auðveldara að selja stofnfjárbréf sín. Það er verið að liðka til með það frá því sem er í dag. Þannig er reynt að bæta starfsaðstæður eða færa nær nútímanum starfsaðstæður þeirra sjóða sem ekki vilja nýta sér þá heimild sem hér er.

Herra forseti. Það er ljóst að sparisjóðirnir í landinu, með sína löngu sögu, gegna ákveðnu hlutverki. Mér sýnist að hér sé reynt að varðveita ákveðin sérkenni þeirra þó að einhverjir þeirra kjósi að breyta sér í hlutafélög. Ég vænti þess að nefndin takist á við það verkefni sitt að fara yfir lögin og taki tillit til ábendinga minna um sjálfseignarstofnanir og möguleikann á að velja inn í fulltrúaráðið og þar með stjórn sjálfseignarstofnunar með öðrum hætti en hér er lagt til.