Viðskiptabankar og sparisjóðir

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 17:59:09 (6054)

2001-03-27 17:59:09# 126. lþ. 99.4 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[17:59]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég var eingöngu að segja að við breytingu yfir í hlutafélagaformið eignist núverandi stofnfjáreigendur í fyrsta lagi hlutabréf, sem er ekkert mikils virði og þeir mega selja, en jafnframt verði þeir ævarandi þátttakendur í að kjósa stjórn fyrir meginhluta hlutafjár í fyrirtækinu, hlutafénu, 90% til að byrja með eða, verði selt til fleiri hluthafa, ekki nema 50%. En þeir hafa alltaf mjög mikil ítök í stjórn sjóðsins.

Ég hef sagt að sá sem stýrir fjármagninu ræður að mestu leyti hvað verður um það. Þó að grandvarir og góðir menn hafi hingað til tekið þátt í að stjórna sparisjóðunum þá er ekki víst að svo verði áfram. Það sem ég er að lýsa er ekki ásökun heldur nákvæmlega sama hugsunin og bak við það að koma á dreifðri eignaraðild að bönkunum. Af hverju freista menn þess? Það er af því að þeir óttast að einhver einn aðili nái undirtökunum. Er það einhver ásökun gagnvart hluthöfum almennt? Alls ekki. Menn eru að reyna að girða fyrir þá möguleika að slík staða geti komið upp. Mér sýnist að frv. sem við tölum um hér, með svo miklu fé sem enginn á, bjóði heim þeirri hættu.

Ég hefði talið eðlilegra t.d. að finna einhverja bakhjarla, þ.e. sem hv. þm. nefndi bakhjarla en ég vil kalla það eigendur. Af hverju er ekki leikfélagið eða sjúkrahúsið o.s.frv. á staðnum bara gert að hluthafa, félögunum gefið féð sem hlutafé? Það má þess vegna vera bundið, að það megi t.d. ekki selja þetta fyrstu 20 árin. Af hverju reyna menn ekki að finna eigendur sem gæta eðlilegra hagsmuna? Þegar menn ráða yfir miklu fé sem þeir eiga ekki sjálfir þá er alltaf mikil hætta, meiri hætta en þegar menn eiga stóran hlut í banka sem þeir hafa þó borgað með eigin peningum og hafa hætt eigin peningum, en þegar menn ráða stórum hluta af fé sem þeir hafa ekki lagt fram sjálfir og eiga enga möguleika á að komast að á annan hátt en þann sem ég nefndi.