Viðskiptabankar og sparisjóðir

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 18:53:30 (6060)

2001-03-27 18:53:30# 126. lþ. 99.4 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[18:53]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra sagði áðan að ákvæðin sem væru í frv. um breytingu á lagaákvæðum um eftirlit með eigendum virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum mundu gilda um sparisjóðina. Mig langar þá til þess að spyrja hæstv. ráðherra um það hvort hann telji að eignarhlutur og yfirráð þeirra stofnfjáreigenda sem nú eru í sparisjóðunum geti farið saman við anda þess sem er í frv. þar sem það liggur fyrir að ef stjórn þessara fyrirtækja er svona fyrir komið eru þeir sem eiga mjög lítinn hlut alfarið ráðandi yfir þessum fjármálafyrirtækjum. Er það þá ekki mismunun ef það á að fara að taka á einhverjum öðrum fjármálafyrirtækjum út frá þeim grunni að menn eigi þar of mikið? Það er talað um 10%, það eigi að skoða málið þegar menn séu komnir yfir 10% eignarhlut í fjármálafyrirtækjum en hérna erum við að tala um að þeir sem eiga kannski 15% heildareign í sparisjóði geti ráðið honum alfarið. Ef það á að vera eitthvert samræmi í því sem það opinbera er að gera getur þá þetta gengið upp? Mig langar til að fá svar við þessu.

Síðan langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún óttist ekki að með þessu fyrirkomulagi muni þeir sem hafa þessi ráð í hendi sér geta verðlagt með einhverjum hætti söluna á þeim völdum sem fylgi þessu, þ.e. að þeir geti fengið tilboð í eignarhlut sinn í sparisjóðnum sem sé langtum hærra en þau prósent sem þeir eiga þar inni.