Viðskiptabankar og sparisjóðir

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 19:05:57 (6068)

2001-03-27 19:05:57# 126. lþ. 99.4 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[19:05]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki sömu skoðunar og hv. þm. um að þetta sé svona mikið áhyggjuefni. Hvað meinar hv. þm. með því að hann vilji opna þennan klúbb, bara galopna hann? Er hann þá ekkert hræddur um hverjir mundu koma þar að og eignast viðkomandi sparisjóði?

Ég held því fram, sem ég er margbúin að láta koma fram í þessari umræðu, að ég sé ekki aðra aðila sem séu betur til þess fallnir að skipa fulltrúaráð sjálfseignarstofnunar og þar með að hafa þá skyldu að kjósa til stjórnar í sjálfseignarstofnuninni en þá stofnfjáreigendur sem eru til staðar þegar breytingin á sér stað yfir í hlutafélagaformið. Ef hv. þm. er að tala um að hann vilji þjóðnýta sparisjóðina, þá er það skoðun út af fyrir sig. Er hv. þm. að hugsa um að rétt væri að kjósa til stjórnar á hv. Alþingi, eða hvað? Eða kannski að ráðherra fengi þann heiður og það mikla vald að skipa stjórn í sparisjóðina? Ráðherra hefur reynslu af því. (GÁS: Já, við þekkjum það allt of vel.) En ég tel að það sé eðlilegt eins og ég hef sagt áður að menn séu með vangaveltur og séu ekki vissir í sinni sök í sambandi við þetta mál og þær tillögur sem lagðar eru fram í frv. en ég held mig við það að þær séu þó þær skynsamlegustu.