Afstaða ríkisstjórnarinnar til Kyoto-bókunarinnar

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 14:17:47 (6704)

2001-04-24 14:17:47# 126. lþ. 110.95 fundur 482#B afstaða ríkisstjórnarinnar til Kyoto-bókunarinnar# (umræður utan dagskrár), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[14:17]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Það er rétt að umhvrh. er að reyna að vinna eftir þeim leiðum sem hún telur bestar og það er að vera í beinum viðræðum við stjórnvöld í Bandaríkjunum við borðið hjá regnhlífarhópnum. Þetta eru beinar viðræður og betra gerist það ekki til að hafa áhrif.

Hér kom hins vegar fram í máli fulltrúa Vinstri grænna að íslenska ákvæðið væri ekki til fyrirmyndar og að skortur væri á trúverðugri röddu hjá okkur á alþjóðavettvangi. Þetta er alrangt. Við höfum unnið mjög vel að hagsmunum Íslands á alþjóðavettvangi, eigum mjög öfluga samninganefnd og ég vil sérstaklega minnast á það hér vegna þessara orða sem eru einungis til þess ætluð að slá ryki í augu fólks, að Jan Pronk --- gott ef hann er ekki græningi --- umhvrh. Hollands og forseti ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, hefur sagt í fjölmiðlum á Íslandi --- takið eftir að hann er forseti þess þings sem tekur á málinu og getur þess vegna ekki leyft sér að segja hvað sem er. Hann þarf að gæta hagsmuna allra. Jan Pronk segir í íslenskum fjölmiðlum, með leyfi virðulegs forseta:

,,Sérstaða Íslands hefur verið rædd í þaula og í Haag höfðum við næstum náð heiðursmannasamkomulagi sem leitt hefði til lausnar.``

Hér segir neðar:

,,Öll lönd þurfa að vera með og hvert og eitt glímir við sértæk vandamál. Þau eru mjög sérstök hér á Íslandi og það er almennur skilningur á því. Og ég er handviss um að þau megi leysa svo að Íslendingar geti einnig staðfest samkomulagið.``

Hér er forseti þess þings sem fjallar um málið að lýsa því að almennur skilningur sé á sérstöðu Íslands. Okkur hefur tekist á alþjóðavettvangi að vera með trúverðuga rödd. Okkur hefur tekist að sannfæra alþjóðasamfélagið um að það sé réttmætt að menn nýti endurnýjanlega orku en ekki kol og olíu við að framleiða málma til þess að létta bíla og létta skip, sem er að sjálfsögðu umhverfinu í hag.