Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 15:36:15 (6715)

2001-04-24 15:36:15# 126. lþ. 110.18 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[15:36]

Frsm. minni hluta allshn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst það ekki mikil krafa þó við ætlumst til þess að þeir sem tjá sig hér tjái sig ekki eins og um sé að ræða rökræðukeppni hjá Morfís eða eitthvað þess háttar.

Ég tala hins vegar fyrir okkur tvö (Gripið fram í.) sem sitjum í allshn. og við erum ekki þeirrar skoðunar að við munum bæta samfélagið með hertum refsingum á öllum sviðum. Við erum ekki þeirrar skoðunar. Það er alveg hárrétt. Hins vegar erum við ekki að gera lítið úr því að þessi brot geta verið mjög alvarleg.

En ef við ætlum að fylgja eftir þeim viðhorfum og skoðunum sem hér koma fram, af hverju að staldra við tólf ár? Það er ekki stór munur á níu eða tólf árum. Af hverju bara ekki 42 ár? Eða 700 ár? Spurningin er einmitt þessi: Af hverju tólf ár? Af hverju er verið að breyta þessu án þess að menn geti fært fram skynsamleg rök? Eitt einasta skynsamlega markmið? Sýnt fram á eina skynsama rannsókn sem rökstyður þetta? Ekkert. Ekki nokkur skapaður hlutur. Meira að segja er það þannig að dómararnir hafa við þetta verulegar athugasemdir.

Ekki má gleyma öðru í þessu öllu saman eins og ég nefndi hér áðan í ræðu minni. Það eru aðeins 40% þeirra sem eru dæmdir til refsivistar sem sitja allan tímann. Hverjir eru það sem veita reynslulausn? Það eru stjórnvöld. Stjórnvöld hafa þá ekki meiri áhyggjur af þessu en svo að þeim tilteknu aðilum sem hv. þm. vildi loka frá samfélaginu í langan tíma er hleypt út ýmist eftir helming eða tvo þriðju af dæmdum refsitíma. Það eru um eða yfir 60%. Svo það stendur ekki steinn yfir steini í röksemdafærslu þeirra sem standa að þessu máli.

Ég ítreka enn og aftur að þetta eru mjög alvarleg mál. Við verðum að gera meiri kröfur til okkar sjálfra en þetta.