Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 17:14:22 (6732)

2001-04-24 17:14:22# 126. lþ. 110.18 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[17:14]

Frsm. minni hluta allshn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem fyrst og fremst upp í andsvar til að mótmæla því sem kom fram í máli hv. þm. að mjög vönduð vinna hafi farið fram í þessu máli. Það kemur fram í umsögnum sem taka afstöðu til málsins að engin undirbúningsvinna hafi farið fram og hvergi komi nokkuð fram sem skýrir af hverju menn eru að breyta þessum refsimörkum. Sú umræða fór ekki fram í hv. allshn. Það voru einungis kallaðir fyrir þeir aðilar sem gáfu umsögn og þeir skýrðu sjónarmið sín. Í þeirri umræðu kom mjög skýrt fram að þurft hefði að vinna þetta miklu betur. Það var ekki gert þannig að ég vil mótmæla því.

[17:15]

Í öðru lagi vil ég einnig mótmæla því að dómstólaráð leggist ekki gegn málinu. Það sem þar kemur fram er einfaldlega að þeir segjast ekki hafa um þetta mál að segja, en síðan snupra þeir hæstv. dómsmrh. ærlega með því nákvæmlega að segja þetta og benda á þær röksemdir að líkur séu til þess að við munum fá miklu harðara og grimmara samfélag með hertum refsingum. Það er það sem kemur fram.

Ég vil einnig nefna eitt að því er varðar ríkissaksóknara. Í áliti hans segir aðeins að það séu til dómar sem slaga upp í þetta refsihámark, en síðar segir að að öðru leyti hafi ríkissaksóknari engar ábendingar, athugasemdir eða skoðun á þessu tiltekna máli. Ég held því að nauðsynlegt sé, virðulegi forseti, að halda þessu til haga og halda því til haga að þeir sem gerðu efnislegar athugasemdir við frv. vöruðu eindregið við því í röksemdafærslu sinni að þessi leið væri farin.