Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 17:20:30 (6735)

2001-04-24 17:20:30# 126. lþ. 110.18 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, Frsm. meiri hluta ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[17:20]

Frsm. meiri hluta allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé sama hvað sagt verður við hv. þm. Lúðvík Bergvinsson. Hann kemur alltaf til með að fara með sömu þuluna, að hér sé verið að setja fram lagafrv. án röksemda. Það er ekki rétt, ég er einfaldlega ekki sammála honum. Hann verður bara að taka því, karlinn.

(Forseti (ÁSJ): Hv. þm.)

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson. Ég tel að ágætis rök hafi verið færð hér. (Gripið fram í: Ávarpa forseta.) Herra forseti. Karlinn hann Lúðvík Bergvinsson.

(Forseti (ÁSJ): Hv. þm.)

Hv. þm., herra forseti. Ekki lagast þetta hjá mér. En engu að síður, ég ætla að halda áfram að reyna. Það sem stendur eftir, herra forseti, við þessa umræðu er að ... (Gripið fram í.) Herra forseti. Væri hægt að fá að klára þetta stutta andsvar án þess að hv. þm. sé gjammandi fram í?

Það sem stendur eftir þessa umræðu og orðræðu hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar er að hv. þm. getur ekki tekið því að við höfum að okkar mati fært góð rök fyrir máli okkar. Við höfum fært rök fyrir því af hverju við viljum hækka refsimörkin fyrir þessi alvarlegu fíkniefnabrot úr 10 árum í 12. Mér finnst, það er mitt mat, að Samfylkingin hafi forðast að svara þeirri spurningu hvort hún vilji auka refsimörkin úr 10 árum í 12. Vill hún ekki herða refsingar við þessum alvarlegu brotum?

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill að gefnu tilefni áminna þingmenn um að hafa hljóð í salnum og gefa ræðumönnum frið til að flytja mál sitt. Og einnig áminna þingmenn um að ávarpa hv. þm., hæstv. ráðherra og hæstv. forseta.)