Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 17:30:42 (6740)

2001-04-24 17:30:42# 126. lþ. 110.18 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, Frsm. minni hluta LB
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[17:30]

Frsm. minni hluta allshn. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur kannski að stórum hluta tæmst. Hún er farin að snúast um hvað stendur eða stendur ekki í þeim gögnum sem voru lögð fyrir hv. allshn.

Kjarninn er einfaldlega sá að einungis tveir aðilar sendu inn efnislega umsögn um málið. Annar aðilinn, dómstólaráð, telur að það lúti ekki að þeim að taka beina afstöðu til málsins. En öll röksemdafærsla dómstólaráðs er á þá leið að engin hætta sé á því að farið sé að strekkjast á þeim refsimörkum sem nú eru í lögum.

Lögmannafélagið leggst gegn þessu máli. Það er alveg klárt. Aðrir ýmist velja það að tjá sig ekki eða, eins og t.d. ríkissaksóknari, koma með þá athugasemd að einhverjir dómar séu farnir að nálgast þetta en að öðru leyti hafi þeir ekki athugasemdir eða frekari umsagnir um málið. Þetta kemur mjög skýrt fram og af því að enginn mælir með málinu þá hlýtur maður að spyrja hvers vegna meiri hlutinn fer þessa leið og maður hlýtur að kalla eftir rökunum af því að allir sérfræðingar sem hafa tekið efnislega afstöðu og fjallað um þetta hafa mælt þessu í mót. Þau hafa ekki komið fram. Einu rökin sem hafa komið fram eru þau að það eigi að kveða upp þunga dóma við alvarlegum brotum. Og að Samfylkingin sé einhverrar annarrar skoðunar, það hefur aldrei komið fram, aldrei nokkurn tíma.

Við teljum hins vegar að þegar verið er að taka ákvörðun um að hækka möguleika dómstóla á að svipta menn frelsi um tvö ár þá sé það svo mikilvægt og svo stórt að það kalli á alvöruumræður, kalli á vandaða umræðu og góðan rökstuðning. Það er eftir honum sem við höfum verið að kalla hér í allan dag. Það eina sem við höfum fengið er að menn vilja þunga dóma við alvarlegum brotum. Það er stefna ríkisstjórnarinnar bara sisvona að þyngja refsingar.

Ég nefndi í upphafsræðu minni að umræða um áhrif refsinga hafi verið umdeild í árhundruð og þó ekki væri nema af þeirri ástæðu er ástæða til þess að rökstyðja þetta ærlega. Það er ekki gert. Svo kemur hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hér upp og segir: ,,Það þýðir bara ekkert að tala við menn. Við erum bara annarrar skoðunar. Þeir eru bara annarrar skoðunar og þeir hlusta ekkert á okkur.`` Það er allt og sumt. Þetta eru svona einhver ,,af því bara``-rök. Þetta minnir dálítið á óþægan krakka í sælgætisbúð sem stappar niður fæti sökum þess að hann fær ekki sleikjó. En við höfum kallað eftir rökum. Við höfum kallað eftir hver markmiðin eru og hvað liggi þarna að baki. Það hefur ekki komið fram.

Þetta er kjarni þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram í dag og niðurstaðan er, og það er reyndar hárrétt mat hjá hv. þm., að það stendur ekkert annað eftir en að: ,,Við viljum hækka refsingar úr tíu árum í 12 ár. Við höfum að vísu ekkert fyrir okkur og við höfum engin sérstök markmið. Við teljum að líkur bendi til þess að einhvern tíma muni falla dómur sem verður nálægt þessu. En að öðru leyti höfum við óskaplega lítið fyrir okkur.``

Þetta er allt og sumt, virðulegi forseti, sem um þetta mál er að segja ef maður dregur þessa niðurstöðu saman í örfá orð. Niðurstaðan er sú að meiri hlutanum hefur ekki tekist að færa fram nein sannfærandi rök fyrir því að hækka refsingar úr tíu árum í tólf. Og það sem meira er, þeir hafa ekki einu sinni fundið meðreiðarsvein í þessu máli ef undan er skilinn einn, til þess að halda öllu til haga. Það er einn aðili í laganefnd Lögmannafélags Íslands hvers nafns er ekki getið, þ.e. minnihlutaaðili. Og það verð ég að segja eins og er að mikið óskaplega þætti mér gaman að því á hinu háa Alþingi að minnihlutaálitin yrðu ofan á annað slagið. Ef það er orðið einasta haldreipi meiri hlutans að það megi finna einn aðila í minni hlutanum í lögmannanefnd fyrir þessari niðurstöðu þá verð ég að segja það alveg eins og er að haldreipið er ekki sterkt.