Kynningarstarf Flugmálastjórnar

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 14:19:50 (6797)

2001-04-25 14:19:50# 126. lþ. 112.1 fundur 576. mál: #A kynningarstarf Flugmálastjórnar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., RG
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[14:19]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Það er til fyrirmyndar í viðkvæmu og heitu tilfinningamáli, eins og flugvallarmálið reyndist vera, að viðhafa þau vinnubrögð sem Reykjavíkurborg viðhafði að vera með atkvæðagreiðslu þar sem fólkið í borginni gat tekið afstöðu til málsins. Það er með ólíkindum hvernig þeirri ákvörðun var mætt af sumum og ég tek undir það með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að það er með ólíkindum hvernig Sjálfstfl. hefur brugðist við.

En ég kem hér út af orðum þess aðila sem er sameiningartákn okkar þingmanna. Það er fullkomlega ósæmilegt að forseti þingsins komi upp í umræðu eins og þessari og sendi borgarstjóranum í Reykjavík tóninn eins og hann gerði hér, fullkomlega ósæmilegt og óásættanlegt.