Námsstyrkir

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 15:05:07 (6815)

2001-04-25 15:05:07# 126. lþ. 112.5 fundur 583. mál: #A námsstyrkir# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[15:05]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Það er rétt sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda að á undanförnum árum hefur tekist að auka fjárveitingar til þeirra þátta sem lúta að námsstyrkjum vegna framhaldsskólanema. Nú er svo komið að því marki sem menn settu sér í byggðaáætlun er náð og Alþingi hefur með fjárveitingum fullnægt þeim markmiðum sem menn settu sér þar. Það hefur því mikið áunnist á þessu sviði.

Síðan hefur einnig verið unnið að því að endurskoða þær reglur sem gilda um úthlutun þessara styrkja og á sl. hausti var gefin út ný reglugerð um hvernig staðið er að úthlutun styrkjanna. Var það m.a. gert í ljósi þess að menn töldu reglurnar sem þá voru í gildi ekki fullnægja öllum þeim kröfum sem gera bæri í slíkum tilvikum. Og ekki síst voru það nemendur sem bentu á það að kerfið væri misnotað.

En hv. þm. spyr: Í hversu mörgum tilfellum bárust athugasemdir við afgreiðslu námsstyrkjanefndar á umsóknum framhaldsskólanema um námsstyrki fyrir skólaárið 2000--2001?

Fjöldi styrkumsókna vegna náms á haustmissiri árið 2000 var 2.816. Af þeim voru 62 ógildar, endursendar, og 327 var synjað um styrk. Samtals voru því 2.427 styrkumsóknir samþykktar, 2.039 vegna dvalarstyrks og 388 vegna akstursstyrks. Til viðbótar þessum styrkþegum nýttu sér 507 nemendur skipulagðan akstur á vegum skóla, þ.e. samkvæmt yfirlitum frá þeim skólum sem notið hafa greiðslna frá námsstyrkjanefnd vegna akstursins.

Haustið 2000 var akstursstyrkur 48.750 kr. Dvalarstyrkur A 65.000 kr. Dvalarstyrkur B 74.750 kr. Og dvalarstyrkur C 84.500 kr. En landinu er skipt í svæði A, B og C eftir nánari skilgreiningu í reglugerðinni.

Hinn 30. mars sl. hafði námsstyrkjanefnd borist 201 erindi vegna afgreiðslu umsókna um styrk sl. haustmissiri. Af þessum erindum eru 14 afgreidd þegar þetta svar er samið af starfsmönnum Lánasjóðs íslenskra námsmanna sem tóku að sér að sinna þessu verkefni samkvæmt hinni nýju reglugerð.

Þá er spurt: Hversu mörgum úrskurðum um námsstyrki var breytt vegna athugasemda sem bárust námsstyrkjanefnd?

Svarið við því er að námsstyrkjanefnd hefur endurskoðað eða breytt fyrri afgreiðslum í 79 erindum.

Loks er spurt: Telur ráðherra ástæðu til að endurskoða reglugerð 746/2000, um jöfnun námskostnaðar?

Þegar reglugerðin var gefin út sl. haust var því lýst yfir að menn mundi að sjálfsögðu fara yfir reynsluna af þessum vetri og meta hana og skoða þau erindi sem bærust ef menn teldu að ekki væri rétt að málum staðið eða komið nægilega til móts við sanngirnissjónarmið með reglugerðinni. Yfirlit yfir þetta hefur ekki verið tekið saman enn, enda skólaárinu ekki lokið. En að sjálfsögðu verður það gert og ég veit að námsstyrkjanefndin sem hefur unnið þetta verk hefur unnið það af mikilli samviskusemi og farið nákvæmlega yfir allar athugasemdir sem borist hafa. Einnig hafa menn fært margvísleg rök fyrir því hvaða sjónarmið búa að baki þessum reglum. En eins og við vitum er grunnhugmyndin með þessum styrkjum að auðvelda fólki í dreifbýli að stunda nám í framhaldsskóla.

Það nýmæli var einnig tekið upp við gerð þessarar reglugerðar núna að gefa nemendum sem búa á höfuðborgarsvæðinu kost á að fá slíka styrki, enda mundu þeir ákveða að stunda nám utan höfuðborgarsvæðisins og sækja nám í dreifbýlisskólum. Við teljum að það sé liður í því að jafna líka framboð á námi með því að leitast við að fjölga nemendum í þeim skólum þar sem þeim hefur frekar fækkað á undanförnum árum.