Námsstyrkir

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 15:14:58 (6820)

2001-04-25 15:14:58# 126. lþ. 112.5 fundur 583. mál: #A námsstyrkir# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[15:14]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin og upplýsingarnar. Ég tel að þau 200 erindi sem bárust vegna 2.800 umsókna og um 2.400--2.500 endanlegra styrkþega sýni að álitamálin í þessu sambandi eru býsna mörg. Upp undir 10% af þessum umsóknum leiða síðan af sér erindi til námsstyrkjanefndar. Og það sýnir held ég að álitamálin eru þarna býsna mörg.

Í öðru lagi finnst mér það jákvætt að vilji sé til þess að halda áfram að endurskoða þessar reglur. Ég held að það sé þörf á því. Ég þekki allmörg tilvik sem upp komu strax í vetur sem sýna að viðmiðunarmörk eða reglur af því tagi sem menn eru auðvitað að reyna að setja sér og geta verið fullkomlega skiljanleg, eins og 30 km reglan eða annað slíkt, geta á hinn bóginn skapað vandamál og gert það að verkum að um verður að ræða nánast hreina og klára mismunun eftir því hvorum megin hryggjar menn detta við slíkar reglur.

Ég tel að sú breyting að gera nemendum úr þéttbýli kleift að njóta styrkja í heimavistarskólum á landsbyggðinni hafi verið góð. Aðstæður eru þannig eins og við vitum í mörgum slíkum tilvikum að það er held ég öllum mjög til góðs að sá möguleiki sé opinn og þá er ekki gott að um mismunun yrði að ræða í því tilliti.

Að lokum vil ég segja, herra forseti, að ég tel að mikið verk sé óunnið í að fara áfram yfir þetta mál. Kostnaður hefur hækkað mjög. Þó að í krónum talið hafi upphæðin á fjárlögum í grófum dráttum náð því sem byggðanefnd þingflokkanna lagði til, þá þarf líka að líta á þann fjölda sem er að fá styrki, því það er deilitalan og það þarf líka að líta á raunkostnaðinn. Þetta kostar að farið sé rækilega yfir málin með reglubundnu millibili.

Ég minni á að síðustu að þeir útreikningar sem lágu til grundvallar hugmyndum byggðanefndarinnar voru lauslegir. Það var viðurkennt að þar væri ekki um mjög viðamikla úttekt á raunkostnaðinum að ræða.