Virðisaukaskattur af hugbúnaðarvinnu

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 16:00:57 (6839)

2001-04-25 16:00:57# 126. lþ. 112.8 fundur 594. mál: #A virðisaukaskattur af hugbúnaðarvinnu# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[16:00]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Kannski er ekki miklu við þetta að bæta. Ég vil eingöngu segja að ef brotalöm er í þessari framkvæmd, eins og mér heyrðist hv. fyrirspyrjandi halda hér fram með tilvitnun í umræddan mann, þá er sjálfsagt að reyna að endurbæta framkvæmdina eftir því sem tök eru á. Í grundvallaratriðum held ég að stefnan sé alveg skýr í þessum lögum og í þessum reglugerðum. Prinsippin eru alveg klár. Það á ekki að skipta máli fyrir fyrirtæki úti á markaði að því er varðar skatt hvort það innir þjónustu sína sjálft af hendi eða kaupir hana að. Það á ekki að vera þannig að fyrirtæki sem selja þessa þjónustu úti á markaðnum beri skarðan hlut frá borði vegna þess að aðilar hagnist á því að skaffa þessa þjónustu sjálfir með eigin starfskröftum. Þannig er málið.

En það er með þetta eins og oft, að það geta verið hugsanleg jaðartilfelli. Það getur líka verið að erfitt sé að fylgja þessu nákvæmlega eftir. Í gegnum árin hafa verið alls kyns deiluefni út af þessu. En ég tek undir það sjónarmið sem fram kemur í máli fyrirspyrjandans. Þannig á þetta að vera. Ef framkvæmdin er ekki eins og hún á að vera þá þarf að reyna að bæta hana.