Almenn hegningarlög

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 11:26:33 (6977)

2001-04-27 11:26:33# 126. lþ. 114.12 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[11:26]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil vekja athygli á því að frv. sem hér er til umræðu er vel undirbúið. Í því sambandi má benda á fskj. I með frv. Þar er rakin öll íslensk dómaframkvæmd sem snertir þetta ákveðna ákvæði hegningarlaga, 173. gr. a. Það sést alveg greinilega af þeirri þróun, fyrst í dómi frá 1982 og fram á árið 2000, að dómar hafa verið að þyngjast og eru komnir upp í 9 ár. Þeir eru nánast komnir upp í hámark sem er núna 10 ár. Það þykir því full ástæða til að leggja til þá breyting að ramminn sé stækkaður þannig að hámarkið verði 12 ár.

Hins vegar er rétt að undirstrika það sem fram kemur í greinargerð með frv., að í sjálfu sér felur frv. það ekki í sér að dómar verði þyngri. Slík breyting mun hins vegar gefa dómurum færi á að geta tekið á málum ef upp koma mun alvarlegri mál en þegar hafa komið fram og þykir þó mörgum nóg um, t.d. heróínmál og annað slíkt. Í þeim tilfellum væru dómarar til þess bærir að taka betur á málum.

Víða í kerfinu er unnið að því að safna tölfræðilegum upplýsingum í refsiréttarmálum. Ég er alveg sammála hv. þm. um að breytingar sem þessar þurfi að undirbyggja mjög vel. Ég mun leggja ríka áherslu á að það verði gert enn frekar en verið hefur en ég tel að við megum ekki bíða með að gera þessar breytingar.