Búfjárhald og forðagæsla o.fl.

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 15:54:13 (7027)

2001-04-27 15:54:13# 126. lþ. 114.19 fundur 298. mál: #A búfjárhald og forðagæsla o.fl.# (varsla stórgripa) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[15:54]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég er einn af flutningsmönnum þessa máls og ég vil eingöngu koma í ræðustól til að lýsa því að ég tel að það sé orðið tímabært að taka á því máli að lausaganga stórgripa við þjóðvegi og miklar umferðaræðar að sumarlagi séu takmarkaðar og í raun og veru komið í veg fyrir að stórgripir séu við aðalumferðaræðar landsins.

Yfir sumartímann fer ferðamaðurinn víða um hálendi og jafnvel vegleysur. Það verður ekki við öllu gert en a.m.k. við aðalþjóðvegi landsins tel ég að standa þurfi þannig að verki að stórgripir séu ekki að þvælast við vegbrúnir og á vegum. Auðvitað sjást þessi dýr vel í bjartri sumarnóttinni en um leið og fer að skyggja nætur breytist það og getur valdið miklum slysum fyrir utan það að það er aldrei fyrir séð hvernig dýr haga sér við þjóðvegi jafnvel þó björt sé sumarnóttin. Eftir því sem fólki fjölgar sem aldrei hefur umgengist dýr og skynjar lítið hegðun þeirra eða umhverfi, því meiri hætta er á að menn aki þannig að þeir taki ekki beinlínis mið af því þó að stórgripahópar, t.d. hross séu við þjóðvegi og geti skyndilega breytt vegferð sinni frá því sem ökumaður ætlar. Ég held því að við séum komin þar að tryggja beri að stórgripir geti ekki verið á þjóðvegum landsins og eigendum dýranna og sveitarstjórnum beri að tryggja það með heldum girðingum. Ekki leggst ég gegn því að Vegagerðin komi þar að í samstarfi við eigendur en ég vonast til að þetta mál fái góða og efnislega umfjöllun í landbn. Ég á sæti þar sem áheyrnarfulltrúi og mun að sjálfsögðu reyna að fylgja málinu eftir þar.