Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 11:04:37 (7097)

2001-05-02 11:04:37# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[11:04]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra kom inn á það undir lokin að einmitt nú væru sterk efnahagsleg rök fyrir því að einkavæða Landssímann og þá fyrst og fremst þau að með því gæfist innlendum fjárfestum gott tækifæri á áhugaverðum fjárfestingarkosti innan lands í stað þess þá væntanlega að fara með fé sitt til útlanda.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Er hér komin meginástæðan fyrir óðagotinu nú að ríkisstjórnin bindi einhverjar vonir við það að einkavæðing Landssímans næstu mánuði geti eitthvað dregið úr frjálsu falli krónunnar? Og er e.t.v. sama ástæða að einhverju leyti á bak við það markmið sem það er orðið í sjálfu sér að selja fjórðung og jafnvel 35% Landssímans til útlanda? Er sem sagt, herra forseti, verið að moka út fjölskyldusilfrinu til þess að reyna að treina veisluna á langinn?