Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 11:32:07 (7103)

2001-05-02 11:32:07# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[11:32]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér heyrðist hæstv. samgrh. orða það svo í andsvari sínu að honum hefðu orðið á mismæli og hann hefði leiðrétt það. Ég verð bara að viðurkenna það fúslega að ég tók ekki eftir því að hann hefði leiðrétt það sem mismæli en tek það fyllilega til greina og lofa því að í seinni ræðu minni í dag mun ég ekki misbeita þessu mismæli.

Hitt er hins vegar alveg ljóst af máli hæstv. samgrh. að hann er mjög með böggum hildar yfir sínu eigin tímaskyni. Honum þykir það bersýnilega slæmt að hann missti af gullnu tækifæri til að fá út úr eigum ríkisins allmiklu meira en hann á nokkra von til að fá núna. Af umhyggju hans við hlutafjáreigendur í landinu þá held ég að hann þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur af því í sjálfu sér en ég vil rifja það upp sem stendur í samstarfssáttmála stjórnarflokkanna, að eitt af markmiðunum með einkavæðingu sé að fá sem mest fyrir þau fyrirtæki sem seld eru, herra forseti. Það skiptir miklu máli.

Hitt er svo annað mál að ég sé ekki umhyggjuna, sem hann nefnir hér, fyrir þeim hluta almennings sem vill festa fé sitt í hlutabréfum fyrirtækja eins og Landssímans speglast mjög í greinargerð með frv. Hvernig stendur á því að einungis á að selja, a.m.k. í fyrstu lotu, 14% til almennings? Nú er það svo að helmingur af fólkinu í landinu hefur verið að kaupa hlutabréf og sennilega hefur stór hluti af því tapað eitthvað á síðustu missirum. Ef einhver á að græða á þessu með þessari heimskulegu tímasetningu af hverju ekki að leyfa almenningi að græða? Af hverju að úthluta 10% eða 35% raunar, þegar fyrstu tveimur áföngum er lokið, til einhverra ríkisbubba og fjárfesta í samfélaginu? Af hverju má ekki almenningur fá möguleika á því að kaupa þetta allt þangað til kemur að seinni lotunni? Hvers vegna ekki? Ég spyr hæstv. ráðherra ef honum er svona umhugað um velferð hlutafjáreigenda.