Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 11:38:40 (7107)

2001-05-02 11:38:40# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[11:38]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Það stappar a.m.k. ákaflega nærri því, herra forseti. En ég verð að viðurkenna þar sem ég stend hér og hugsa þetta grennra að þá hefði ég kannski ekki átt að orða þetta nákvæmlega eins og ég gerði. En það er alveg ljóst að Síminn hefur yfirburðastöðu. Hann hefur einokun á þessum markaði og eins og ég gat um í síðasta hluta ræðu minnar held ég að það sé óhjákvæmilegt að hann deildi þeirri einokun með einhverjum hætti, herra forseti.

Að öðru leyti hefði ég kosið að hv. þm., af því að hann situr nú í stjórn Landssímans, hefði reynt að bæta um betur það sem hæstv. ráðherra sagði áðan og reynt að skýra út fyrir okkur af hverju í ósköpunum menn vilja ekki ráðast í það að skilja að dreifikerfið og samkeppnisreksturinn. Ég rifja það upp að sá maður sem hann réð sem forstjóra Landssímans hefur þráfaldlega sagt upp í opið geðið á þjóðinni að það sé tæknilega ókleift. Síðan hefur hv. þm. Magnús Stefánsson ráðið sérfræðing til að kanna þetta og sérfræðingurinn kemst einfaldlega að þeirri niðurstöðu að það sé tæknilega kleift. En hann orðar það svo að það sé ekki nauðsynlegt út frá ýmsum forsendum sem hann gefur sér.

Með öðrum orðum eru rökin fallin sem áður var haldið fram, m.a. til þess að berja Framsfl. til hlýðni. Og ætlar ekki hv. þm. að taka þessum forstjóra svolítið tak sem í þessu efni og einnig varðandi verðlagningu hefur verið að halda fram hlutum sem standast ekki próf raunveruleikans? Ætlar hv. þm. kannski líka að sitja undir því að forstjórinn eða einhverjir aðrir yfirmenn ráðist í það að kaupa stóra hluti núna í Símanum? Er það eðlilegt?

Ég segi þetta að gefnu tilefni vegna þess að að þessu leiða menn getum í fjölmiðlum morgunsins.