Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 11:42:23 (7110)

2001-05-02 11:42:23# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[11:42]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það frv. sem hér er til umræðu er ákaflega einfalt. Það er óvenjulega einfalt af svo þykkri bók að vera. Megingrein þess er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Heimilt er að selja allt hlutafé ríkissjóðs í Landssíma Íslands hf.`` Punktur.

Öllu einfaldara, herra forseti, getur það nú ekki verið. Það er ekki bara verið að biðja um heimild til að selja þau 49% eignarhlutarins sem sagan segir að einhvers konar samkomulag stjórnarflokkanna, baktjaldasamkomulag stjórnarflokkanna gangi út á. Nei, selja allt hlutafé Landssímans eitt hundrað prósent.

Á mannamáli þýðir þetta, herra forseti, að Sjálfstfl. fær hér heimild til að einkavæða Landssímann með húð og hári, eins og hann leggur sig. Lögin, ef samþykkt verða, ganga út á það. Hvað verður svo með framhaldið er allt meira og minna í þoku, eins og ég hygg að menn hafi áttað sig á ef þeir hafa heyrt t.d. þokukenndar yfirlýsingar hæstv. utanrrh. sem hefur talað ýmist í mánuðum eða missirum um það sem síðar gerist.

Einkavæðingaröflin í Sjálfstfl., í kringum hann og á bak við hann eru að fá sitt fram. Og Framsfl. hefur samkvæmt bókinni og venju, eins og hún hefur þróast í samstarfi þessara flokka, lekið niður.

Herra forseti. Það er ástæða til við þessi tímamót að staldra aðeins við þegar enn eitt vígið er að falla fyrir markvissri sókn einkavæðingaraflanna í og í kringum Sjálfstfl. en þó reyndar og því miður með talsverðum hugmyndafræðilegum og aðgerðalegum stuðningi afla í fleiri stjórnmálaflokkum. Hlut Alþfl. sáluga og nú Framsfl. í þessu ferli þýðir ekki að gleyma. Það tjáir ekki að horfa fram hjá því að Alþfl. sálugi og Framsfl. eiga hér líka verulegan hlut að máli. Um einkavæðingarstefnuna sem slíka, um trúboðið sjálft eru að sjálfsögðu skiptar skoðanir innan þeirra flokka og staðan þar ekki jafnsterk og hún er í og á bak við Sjálfstfl. en engu að síður hafa þessir tveir flokkar sl. áratug verið verkfæri Sjálfstfl. í veigamiklum mæli.

[11:45]

Herra forseti. Þessi hugmyndafræði, stundum kölluð nýfrjálshyggjan, sækir að verulegu leyti í smiðju sem kennd er í vestrænum stjórnmálum við þau skötuhjúin Ronald Reagan og frú Thatcher og hugmyndafræðilegir leiðtogar, ídeólogar eins og Friedman og Hayek eru oft nefndir til sögunnar. Hún reyndi að taka völdin á Íslandi 1979 með frægri leiftursókn. En það mislukkaðist. Þá komu menn til dyranna eins og þeir voru klæddir. Morgunblaðið lagði forsíðuna undir og það átti að taka þjóðfélagið með stormandi leiftursókn og hefja hér tilraunastarfsemi í anda nýfrjálshyggjunnar, breyta Íslandi í eitt stykki tilraunabúr svipað og gert var á Nýja-Sjálandi á svipuðum tíma með nákvæmlega sömu hugmyndafræði að leiðarljósi. En þetta heppnaðist ekki. Mönnum voru nokkuð mislagðar hendur í áróðrinum. Það tókst að fletta ofan af þessu og einkavæðingarnýfrjálshyggjumarkaðshyggjuöflin, stuttbuxnadeild Sjálfstfl., Eimreiðarhópurinn og allt þetta gengi, hvað það nú var kallað, varð að bíta í það súra epli að fá ekki völdin í þjóðfélaginu á silfurfati eins og þeir höfðu vonast til árið 1979. Og í hönd fór tímabil, í raun 12 ár, þar sem tekist var á um þessi áform. Þau voru undirliggjandi. Þau voru með. Þau höfðu áhrif á árunum 1983--1987. En þau voru ekki ráðandi. Þau voru ekki siglingaljósin sem slík eins og þau hafa hins vegar verið síðan 1991.

Og nú, herra forseti, er enn eitt vígið að falla og þau eru ekki mörg eftir því að samtímis því að þetta gríðarlega mikilvæga almenningsþjónustufyrirtæki með einokunaraðstöðu í landinu í veigamiklum mæli á lífsnauðsynlegri þjónustu fyrir landsmenn á að einkavæða þá hefur sömu öflum heppnast að komast inn fyrir girðingarnar, bæði í heilbrigðiskerfinu og skólakerfinu og þar er nú tilraunastarfsemi í gangi með einkarekið hjúkrunarheimili og Hafnfirðingar hafa tekið að sér fyrir hönd nýfrjálshyggjunnar að breyta einu hverfi í því bæjarfélagi og börnunum sem þar koma til með að ganga í grunnskóla á næstu árum í tilraunabú og þetta láta menn sér lynda.

Herra forseti. Það er ástæða til að draga upp þessi tímamót þegar Landssíminn er á einkavæðingarskurðborðinu. Öflin sem á bak við liggja geta vel við unað. Sjálfstfl., nýfrjálshyggjuöflin þar á bak við, geta vel unað við sinn árangur. Að hluta til hefur þetta heppnast með breyttri aðferðafræði í stað leiftursóknarinnar þar sem taka átti völdin fyrir opnum tjöldum í þjóðfélaginu 1979 hefur komið skref-fyrir-skref-aðferð og það hefur komið aðferð vinnuhjúanna, þ.e. að láta meðreiðarsveinana um verkin í veigamiklum mæli. En hugmyndafræðin er nýfrjálshyggjunnar, þjónar pólitískum markmiðum hægri aflanna, fjármagnseigendanna og þeirra sem gera sér góðan mat úr því að sýsla með hlutina í einkavæðingarferlinu því það er ekki ókeypis frekar en gerð heimasíðna og annað slíkt. Það væri gaman að taka það saman einhvern tíma við tækifæri, herra forseti, hverjir og hve mikið ýmsir aðilar í þjóðfélaginu hafa haft upp úr krafsinu sem starfsmenn einkavæðingartrúboðsins, sem verkamenn í þeim víngarði Drottins að afhenda fjármagnsöflum í landinu eigur almennings.

Herra forseti. Mig undrar ræðuhöldin hér áðan um spurninguna um það hvort almenningur gæti keypt einhvern hlut í Landssímanum á aðeins meira eða minna verði. En er það ekki almenningur sem er að selja? Er það ekki almenningur sem á að kaupa af sjálfum sér þegar almenningsþjónustufyrirtæki í 100% eigu ríkisins fyrir hönd þjóðarinnar á í hlut? Eru menn kannski búnir að gleyma því? Það er ekki, hæstv. samgrh. Sturla Böðvarsson eða Sjálfstfl. sem á Landssímann og ekki heldur ekki Valhöll. Landssíminn er ekki enn með kennitölu þar þó að menn hegði sér eins og hann sé það og hafi gert um langt skeið.

Fjármagnseigendur í landinu eru ekki að kaupa þetta í góðgerðarskyni. Þeir eru ekki að kaupa af hugsjónaástæðum. Það eru hins vegar seljendurnir sem selja af hugsjónaástæðum og þá skiptir verðið ekki máli í öllum atriðum frá þeirra hlið og það kom skýrt fram í ræðunni hér áðan. Umsýsluiðnaðurinn er auðvitað umfangsmikill í trúboðinu fyrir því að þetta beri að gera og það var komið í hann hungurhljóð í fyrrahaust og það er hungurhljóð í þeirra eyrum nú því að það er að verða lítið eftir af veisluföngum hins thatcheríska góðæris sem með ærinni misskipingu hefur ríkt á Íslandi undanfarin ár. Og nú vantar þá meira silfur og þá er farið djúpt í skúffurnar og Landssíminn tekinn, ekki Pósturinn. Af hverju skyldu þeir ekki hafa byrjað á Póstinum? Hvers vegna einkavæða þeir ekki frekar Póstinn? Ég býst við að flestir væru sammála um það t.d. frá sjónarhóli möguleika landsmanna, almennings og atvinnulífs, ég tala nú ekki um landsbyggðarinnar til þess að vera fullgildir þátttakendur í upplýsinga- og hátæknisamfélagi framtíðarinnar og nútímans þess vegna, þá væri minni áhætta tekin með því að einkavæða Póstinn. En það er ekki, nei. Getur það verið vegna þess að gróðaöflin í landinu hafa miklu minni áhuga á Póstinum? Hann er ekki eins góð mjólkurkýr. Hann er ekki með jafnverðmæta þjónustu, nánast einkaverndaða af einokunaraðstæðum, efnislegum einokunaraðstæðum eins og á hlut í þessu tilviki.

Ég tel, herra forseti, og það er afstaða Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, að einkavæðing Landssíma Íslands hf. við þær aðstæður sem hér eru á Íslandi hvað sem öðru líður séu fráleitar þó ekkert annað kæmi til en það að reynslan af því að reka öflugt opinbert fyrirtæki sem hefur bolmagn til þess að fjárfesta og sjá landsmönnum fyrir nútímalegri fjarskiptaþjónustu er góð. Hún er það góð að við höfum haft hér fjarskipti og verið þátttakendur í þeirri þróun á undanförnum árum þannig að við höfum verið í fremstu röð. Samtímis því hefur fyrirtækið skilað ágætum arði í ríkissjóð í talsvert á annan áratug frá því að slíkar greiðslur hófust, er nánast skuldlaust og er prýðilega sett hvað eiginfjárstöðu og alla getu snertir til þess að halda þessari þróun áfram. Hvers vegna þá, herra forseti, að breyta því sem hefur gefist nokkuð vel? Það má auðvitað segja ýmislegt um fyrirtækið Póst og síma sáluga og síðan Landssímann og Póstinn. Menn hafa að sjálfsögðu gert ýmis mistök þar og það mætti skoða ýmislegt úr þeirri sögu. En lítum fram hjá því og spyrjum okkur að því: Hvernig hefur það í það heila tekið gefist okkur Íslendingum að gera þetta í gegnum opinbert öflugt fyrirtæki af þessu tagi? Svarið hlýtur að vera: Vel. Hver viti borinn maður sem eitthvað kynnir sér þessa hluti sér að það er ekki slæm niðurstaða fyrir fámenna þjóð í stóru og strjálbýlu landi að búa við það góða þjónustu á þó ekki hærra verði en raun ber vitni. Það verða því ekki sótt rök í þessar breytingar þangað og ekkert annað sérstakt knýr okkur til þess að gera þessa breytingu. Engar ytri aðstæður, engar lögþvinganir, engir alþjóðasamningar knýja okkur til þess. Að fullgiltum þeim skilyrðum um bókhaldslegan aðskilnað, einokunarstarfsemi og samkeppnisstarfsemi og fleiri slíkum hlutum, þá getum við, ef okkur sýnist svo, haldið þessu áfram a.m.k. enn um skeið þó ekki væri nema svo að menn settu sér þau markmið að beita næstu fimm árin af fullum krafti getu Landssímans til þess að halda áfram uppbyggingu dreifikerfisins, efla gagnaflutningsmöguleikana út um land, tengja alla þéttbýlisstaði ljósleiðaranum o.s.frv. Þá gætu menn gert það.

Þau verkefni sem þarna eru fram undan mæla náttúrlega öll með því, herra forseti, að gera þetta ekki. Vandamálin sem menn sjá tengjast einmitt því að fara út í breytingarnar og þá koma til sögunnar hlutir sem einhvern tíma hefðu þótt saga til næsta bæjar í plöggum frá Sjálfstfl., þ.e. að þá verði farið út í millifærslukerfi með töku jöfnunargjalda og styrkjum vegna þess að menn viðurkenna að hlutar þjónustunnar munu ekki bera sig á efnahagslegum forsendum. Þá verður slíkt nauðsynlegt og þá er Sjálfstfl. allt í einu til í það af því að það þjónar markmiðinu mikla og stóra og heilaga um að einkavæða einkavæðingarinnar vegna.

Það er í þriðja lagi, herra forseti, mikil óvissa uppi í fjarskiptamálum. Hún er það m.a. vegna þess að það er margt á huldu með möguleika ýmiss konar nýrrar tækni á komandi árum. Hið hörmulega snautlega svar sem ég fékk, herra forseti, frá hæstv. samgrh. eftir margra mánaða töf við sundurliðuðum og nákvæmum spurningum um kostnað við ljósleiðaravæðingu landsins hefur þó eitt sem mark er á takandi í sér fólgið og það er að viðurkennd er þessi óvissa og það er líka sagt að ekki sé líklegt að svokölluð þriðja kynslóð farsíma eða aðrir þráðlausir gagnaflutningamöguleikar af því tagi muni leysa breiðband eða ljósleiðara af hólmi á komandi árum. Þetta, herra forseti, er sama niðurstaða og norrænn starfshópur komst að fyrir um ári síðan eftir að hafa skoðað sama atriði nákvæmlega og það er ágætt að þarna fara saman niðurstöður sérfræðinga Landssímans eða samgrn. og þessa norræna starfshóps sem m.a. hafði aðgang að ekki ómerkari sérfræðingum en helstu ráðgjöfum bæði Nokia og Ericsson á þessu sviði. Ég er sama sinnis að sjálfsögðu hafandi nokkuð reynt að skoða þessi mál. Ég held að ekki sé í sjónmáli þróun sem líkleg er til að breyta í grundvallaratriðum aðstöðu okkar hvað snertir hið mikla magn flutninga upplýsinga á stafrænu formi eða rafrænu á allra næstu árum. Ergo: Í aðalatriðum verður staðan óbreytt hvað þetta snertir nema á höfuðborgarsvæðinu og e.t.v. á Akureyri og nágrenni. Það segir okkur heilmikið um það inn í hvaða samhengi er verið að afhenda þetta einkavædda fyrirtæki. Það eru ótal endar lausir í þessu máli. Það liggur fyrir.

Herra forseti. Reynsla annarra þjóða í fimmta lagi, hvar er hún hér á blaði? Fór hæstv. samgrh. til Nýja-Sjálands? Hefur hann ferðast um sveitir þess lands og hefur hann skoðað t.d. hversu vel það hefur gefist Nýsjálendingum að ríða á vaðið, vera tilraunadýr í þessu eins og fleiru og selja sín fjarskiptafyrirtæki í aðalatriðum til Ameríku? Ætli sé almenn og útbreidd ánægja í þessu mikla dreifbýlisþjóðfélagi, landbúnaðarþjóðfélagi sem Nýja-Sjáland er? Ég hygg ekki, þar sem mörg hundruð útibú bæði síma og pósts hafa lokað og þjónustan hefur stórversnað á landsbyggðinni og landsmenn ráða nú nánast engu um framtíðarþróun fjarskiptamála sinna af því að þær ákvarðanir eru teknar í Washington D.C. nema það væri kannski New York. Þannig er nú það.

Tímapunkturinn sem hér er valinn er líka mikið umhugsunarefni og ég vísa til þeirrar umræðu sem þegar hefur farið fram um það. Það markmið, herra forseti, að selja undirstöðufjarskiptafyrirtæki landsmanna úr landi er athyglisvert. Það eru líka tímamót sem verðskulda að farið sé yfir söguna þegar Framsfl. lætur sig hafa það að ganga svoleiðis í vatnið fyrir Sjálfstfl. og einkavæðingaröflin þar að hann setur fram frv. þar sem það er orðið að markmiði í sjálfu sér að selja fjórðung Landssímans úr landi, búa til Stóra norræna á nýjan leik fyrir Íslendinga. Og ekki dugar það einu sinni því að það má taka 10% í viðbót frá fyrir erlenda aðila. Það er teiknað inn í þetta mál að einhver stór erlendur fjarskiptarisi skuli fá 25% af Landssímanum og opnað er fyrir möguleika á að semja við hann um 10% í viðbót. Það þýða 35% ef mín stærðfræði dugar mér, sem sagt ráðandi hlutur, algjörlega ráðandi hlutur í þessu fyrirtæki með einokunaraðstöðu hér í landinu á þessu sviði, eignarhlutur sem nægir til þess að stöðva breytingar á samþykktum o.s.frv. ef þessu fer svona fram.

Nei, herra forseti. Ég held að menn hefðu átt að skoða ýmislegt betur og vaða ekki áfram blindaðir af þessu trúboði sem á ekkert skylt við íslenskan veruleika og íslenskar aðstæður. Ég lýsi ábyrgð á hendur þeim mönnum sem ætla að taka svona stóra og afdrifaríka ákvörðun og ég tala nú ekki um skerða möguleika okkar þjóðkjörinna fulltrúa til þess að hafa eðlilegan aðgang að málinu. Það er hneyksli, herra forseti, að samgrh. þjösnast áfram með þetta mál. Stjórnarandstaðan er ekki virt viðlits. Málið kemur hér inn á síðustu dögum þingsins og það liggur í málinu að það á að setja færibandið í gang og rúlla því í gegn á nokkrum sólarhringum. Það er skömm að þessu, herra forseti, og ég lýsi ábyrgð á hendur þeim mönnum sem standa svona að málum. Ég ætla mér það að vera á dögum eftir eins og 10--15 ár og fari svo illa sem ég óttast að fari í framhaldi af þessu brölti þá ætla ég mér að geta átt orðastað um það við þá menn sem bera ábyrgð á því. Þeir eru ekki að hugsa að mínu mati númer eitt, tvö og þrjú um hagsmuni almennings í landinu, um stöðu landsbyggðarinnar eða möguleika hennar t.d. til þess að vera á jafnræðisgrundvelli þátttakendur í þróun samfélagsins á komandi árum. Það er algjörlega borðleggjandi að áhættan liggur á þá hlið að þar verði menn út undan fyrir utan það, herra forseti, að lokum, að mér finnst það vera afbökun lýðræðisins þegar menn jafnruddalega, leyfi ég mér að segja, eins og þessi ríkisstjórn er að gera, rífa í sundur samstöðu um mikilvæga þætti samfélagsgerðarinnar eins og almenningsþjónustan er, taka sér það vald í krafti meiri hluta að afhenda burtu mjólkurkýr, verðmætar eignir samfélagsins og lyfta ekki litla fingri, reyna ekki að ná einhverri samstöðu í þjóðfélaginu um slík mál. Það á að nálgast þá hluti eins og viðfangsefni af því tagi sem menn reyna a.m.k. að skoða hvort eitthvert samkomulag sé hægt að hafa um áður en þeir beita valdi sínu eins og núverandi ríkisstjórn gerir. Það mætti halda að hún sé komin að þeirri niðurstöðu að valdið sé hennar að eilífu, hún hafi þegið það frá guði og það sé nákvæmlega sama hvernig hún fari með það.