Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 16:48:52 (7165)

2001-05-02 16:48:52# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[16:48]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Það er dæmalaust að hlusta á þetta. Skerðir það samkeppnisstöðu þjóðarinnar að selja hlutabréf í Símanum? Þetta er alveg dæmigert fyrir málflutning vinstri grænna að slá fram einhverjum svona staðhæfingum án nokkurrar röksemdafærslu og svo eiga menn bara að reyna að geta í eyðurnar. Það er ekkert sem styður þennan málflutning hv. þm. Ef hv. þm. á við að verið sé að draga úr mætti landsbyggðarinnar þá er það misskilningur. Það er verið að auka t.d. gagnaflutningsmöguleika símakerfisins tíuþúsundfalt í sumum tilvikum. Það er einmitt það sem gerir samkeppnisstöðu landsbyggðarinnar sterkari, það er að tengjast inn á höfuðborgarsvæðið, tengjast út í heim, að vera samkeppnishæf. Það er akkúrat það sem svona fyrirtæki gerir.

Að halda því síðan fram að verið sé að skerða samkeppnisstöðuna og stórskaða þjóðina er svo mikið kjaftæði að það er alveg með ólíkindum.