Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 17:00:10 (7174)

2001-05-02 17:00:10# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[17:00]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Þarna kom það nefnilega. Hv. þm. er ánægður með að eitt fyrirtæki verði öflugt á þessum markaði. Önnur fyrirtæki komi ekki til með að standa undir nafni. Það eigi hins vegar að fóðra samkeppnina á því að til verði erlend fyrirtæki. Eiga þau að þjónusta íslenskan markað hvað varðar Símann? Markaðurinn er ekki kominn á það stig enn þá að svo geti orðið.

Síðan langar mig til þess, hæstv. forseti, að spyrja hv. þm. vegna þess að hann nefndi áðan að það að fara að selja Símann núna kæmi kannski lífi í markaðinn. Síðan hvenær fór það að verða aðferðin til að koma lífi í markað þar sem offramboð er á einhverju að bæta við framboðið? Meira framboð inn á markaðinn núna virðist ekki líklegt til að gera ástandið betra. Það er miklu meira en nóg af alls konar framboðum núna á markaðnum enda falla öll bréf í verði. Mun það ekki bara þýða að önnur bréf og verðmæti muni falla enn þá meira í verði ef farið er að bæta inn bæði bönkum og Símanum líka?