Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 19:20:08 (7200)

2001-05-02 19:20:08# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[19:20]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Landssíminn hefur á undanförnum árum fengið samkeppni frá öðrum símafyrirtækjum og sú samkeppni mun fara vaxandi á næstu árum. Sú tíð er að mínu viti liðin að Landssíminn fái ráðið markaðnum og verði til notenda. Ég held að eins og mál hafa þróast varðandi símatækni og samskipti þá sé komin upp sú staða að það verði að teljast eðlilegt að velta því upp, sem hér er lagt til í frumvarpi, að selja Landssímann.

Ég verð að segja að ég hafði löngum áhyggjur af því að ekki yrði nægilega tryggt að landsmenn allir hefðu aðgengi að sambærilegri þjónustu á öllum sviðum varðandi nýja tækni og því sem auðvitað allir vilja að þeim verði tryggt, sambærilegum aðgangi við það sem best gerist hér á suðvesturhorni landsins. Ég er hins vegar kominn á þá skoðun að í fjarskiptalögum sé nægileg trygging fyrir því að hér verði hægt að halda uppi virkri samkeppni. Fyrirtækjum á þessum vettvangi hefur fjölgað á undanförnum árum og mun vafalaust fara fjölgandi. Mér sýnist líka í reglum og leyfisbréfi til Landssímans tryggt að aðrir notendur, önnur fyrirtæki, eigi aðgang að grunnneti og línum Landssímans og geti þannig tryggt virka samkeppni á sambærilegu verði. Þetta held ég að sé í raun og veru meginmál þegar við erum að ræða hvort sú stund sé nú upp runnin að eðlilegt sé að selja þjónustu þar sem samkeppni hefur risið við hliðina á þjónustu sem hefur verið veitt hér af einu fyrirtæki áratugum saman.

Menn geta svo velt þessum verðmætum fyrir sér út af fyrir sig upp og niður og auðvitað má spyrja þeirrar spurningar til upplýsingar t.d., það kann að vera að það hafi komið fram fyrr í dag, en ég ætla samt að leyfa mér að spyrja að því svona til upplýsingar hvert verðmæti fyrirtækisins hafi verið, t.d. 1. jan. 2000, og hvaða fjárhæðum verðmætisbreytingin nemi þá, ef hæstv. samgrh. vildi svara því síðar, þ.e. á hvaða verði fyrirtækið var metið 1. jan. 2000 og hvaða verðmætisbreyting er talin þar á milli þess sem það er talið að verðmæti í dag.

Ég tel hins vegar að verðmæti Landssímans á komandi árum muni ekki vaxa. Ég held að aukin samkeppni muni frekar verða til þess að verðmæti fyrirtækisins muni eitthvað rýrna, nema því aðeins að fyrirtækið sýni þá í framtíðinni miklu betri þjónustu og þá jafnframt ódýrari þjónustu en þau fyrirtæki sem eru nú á markaðnum. Þó að fyrirtækið sé gott og hafi staðið sig vel og hafi haft hæfu starfsfólki á að skipa, sem hefur unnið vel á undanförnum árum er ekkert sem segir að ný fyrirtæki, sem eru að skipuleggja sig á þessu sviði og koma inn á þennan markað, geti ekki náð að auka markaðshlutdeild sína. Þó svo tæknin kalli ævinlega á meiri notkun og meiri sölu varðandi þá þjónustu sem fyrirtæki á þessu sviði veita þarf aukningin samt að verða mjög mikil, held ég, svo að fyrirtæki í virkri samkeppni eins og upp er komin á þessum markaði og mun aukast geti haldið verðgildi sínu. Það verður þá a.m.k. að standa sig betur en önnur sambærileg fyrirtæki.

Ýmsar tryggingar eru fyrir því að Landssíminn skuli veita öðrum fyrirtækjum eðlilegar reglur, eðlilega þjónustu. Það eru málsmeðferðarreglur fjarskiptalaga sem tryggja að samkeppnisaðilar Landssímans eiga lögvarða kröfu á því að þjónusta sem þeir kaupa sé seld á sama verði og því sem aðrar deildir Landssímans greiða fyrir sams konar þjónustu. ,,Notendur og fjarskiptafyrirtæki í samkeppni við Landssímann greiða því ekki hærri gjöld fyrir fjarskiptaþjónustu en þeir mundu gera ef fyrirtækinu yrði skipt upp.`` Þetta segir m.a. á bls. 6 í fylgiskjali með frumvarpinu. Síðan er í leyfisbréfum, sem gerð er grein fyrir aftar í fylgiskjölum með frumvarpinu, tekið fram hvaða skyldur Landssíminn þarf að uppfylla. Hins vegar má sjá á bls. 20 að þegar litið er á skiptingu rekstrartekna Landssímans þá kemur langmestur hluti tekna hans úr tveimur þáttum. Þeir koma úr talsímaþjónustunni og farsímaþjónustunni. Þetta er einmitt á sama vettvangi og þau fyrirtæki hafa verið að hasla sér völl sem eru komin í samkeppni við Landssímann og þau fara eðlilega beint inn á það svið sem gefa mestu tekjurnar, þ.e. inn á talsímaþjónustuna og inn á farsímaþjónustuna. Þar er vísasti vegurinn að ná í tekjur, enda eru tekjur Landssímans langmestar af þessum tveimur þáttum og þar mun samkeppnin verða mikil. Landssíminn mun ekki komast upp með það á komandi árum að hafa þar dýrari þjónustu en samkeppnisaðilar þannig að niðurstaða mín af skoðun á frumvarpinu og þeim rökum sem þar fylgja með er sú í raun og veru, að ég tel að þeim tímapunkti sé náð að breyta Landssímanum í fyrirtæki í einkaeigu úr því að vera fyrirtæki sem ríkið á. Ég tel að sá tími sé nú upprunninn og það sé eðlilegt að stíga þar einhver skref.

Menn geta svo velt því fyrir sér hvort nú sé einmitt rétti tíminn til sölu og þá hversu mikils hluta eða hvort bíða eigi einhvern tíma. Um það er ég ekki dómbær. Ég er ekki neinn markaðsfræðingur að þessu leyti.

Ég vil hins vegar segja það sem sjónarmið mitt, og ég byggi það á því sem ég sagði áðan, að ég mundi vara fólk við að vænta þess að með kaupum á hlutabréfum í Landssímanum væri það komið með í hendur einhvern verulegan gullmola. Það eru bara hugleiðingar mínar að telja að það þurfi ekkert endilega að vera svo. Það ræðst auðvitað af því hversu virka samkeppni önnur fyrirtæki munu veita Landssímanum og þá að Landssíminn standi sig mjög vel í þeirri samkeppni. Þó að þetta geti verið góður fjárfestingarkostur þá held ég að hollt væri fyrir alla að hugsa þetta þá eins og langtímafjárfestingu en ekki eitthvað sem menn ætluðu að fara inn í með svipuðu hugarfari og þegar þeir voru að kaupa í deCode þar sem menn væru að skuldsetja sig og fjölskyldur sínar fyrir verulegum fjárhæðum til að kaupa í fyrirtækinu.

Með ákvæðum um alþjónustu sem hér kemur fram að fyrirtækinu er skylt að veita þá tel ég líka að það ætti að vera tryggt að fyrirtæki ættu jafnan aðgang að grunnnetinu og landsmenn allir jafnan aðgang að þjónustu á sambærilegu verði.

Símakostnaður landsmanna í samanburði við erlend fyrirtæki hefur verið lágur og ég tel vafalaust að hann geti haldið þeirri stöðu sinni áfram. Fyrirtækið hefur samt sem áður haft mikinn og góðan hagnað og er búið að hafa það nokkuð lengi.

(Forseti (GuðjG): Fyrr á þessum fundi var tilkynnt um matarhlé klukkan hálfátta þannig að forseti vill spyrja hv. þm. hvort hann sé kominn að lokum ræðu sinnar eða ætli að halda henni áfram eftir matarhlé.)

Herra forseti. Ég á mjög stutt eftir af ræðu minni þannig að ég ætla ekki að teygja lopann mikið yfir þessu. Niðurstaða mín og okkar í Frjálslynda flokknum er sú að ekki sé óeðlilegt að fara núna út í það að einkavæða fyrirtækið. Við erum hins vegar ekkert endilega vissir um að sala á þessu vori sé eitthvað sem sé endilega heppilegt þó að við séum engir sérfræðingar á því sviði. En við treystum því auðvitað að þegar ríkið ákveður að selja sína hluti þá horfi það til þess að það sé að tryggja eðlilegt verð fyrir fyrirtækið en jafnframt þá líka að tryggja það að í sölunni felist engar þær væntingar að menn telji sig vera að kaupa gullmola sem ekki reynist vera.