Utandagskrárumræða um gengisþróun

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 20:19:14 (7210)

2001-05-02 20:19:14# 126. lþ. 116.96 fundur 508#B utandagskrárumræða um gengisþróun# (um fundarstjórn), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[20:19]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Þar sem það lá fyrir að hæstv. forseti hafði synjað um að hér yrðu utandagskrárumræður með hinu hefðbundna sniði, þá fór ég þá leið að óska eftir því að fá að gera athugasemd um störf þingsins til þess að get rætt þetta við hæstv. forsrh. Tilefnið er augljóst. Ég hafði hér fyrir nokkrum vikum átt orðastað við hæstv. forsrh. og greint honum frá áhyggjum Samfylkingarinnar um þróun efnahagsmála. Ég hafði þá jafnframt greint honum frá því að ég teldi að tiltekin atburðarrás sem væri hafin í efnahagslífinu mundi geta leitt til þess sem við höfum séð gerast í dag.

Nú vildi ég fá að ræða við hæstv. forsrh. um það hvaða augum hann lítur þessa þróun og jafnframt hvaða ráð hann sér helst til að reyna að stemma stigu við þessari þróun.

Ég ætla ekki að fara að ræða þetta mál efnislega, herra forseti. En það er alveg ljóst hvað hefði gerst ef við værum stödd, ekki í byrjun maí heldur á miðju sumri. Þá hefði stjórnarandstaðan og sennilega einhverjir stjórnarþingmenn líka talið fulla ástæðu til þess að þingið yrði kvatt saman til að ræða þessa alvarlegu stöðu.

Nú blasir hins vegar við að hæstv. forseti synjar okkur umræðunnar á þessu kvöldi og hann ætlar að senda þingið í nefndaviku, senda þingið í reynd burt úr þessum sölum um heillar viku skeið á meðan þessi válega staða er uppi. Hverjir eru það sem eiga að ræða þessa þróun mála ef ekki hv. þm., kjörnir fulltrúar þjóðarinnar? Til hverra er horft á augnablikum eins og þessum? Til þingmanna, til umræðna hér, skoðanaskipta og í kjölfar þeirra til aðgerða af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.

Við vitum hins vegar, herra forseti, að ríkisstjórnin virðist vera ráðalaus. Ég gæti bent á ýmis dæmi því til staðfestu. Mér sýnist því ekki vanþörf á því að hæstv. ríkisstjórn fengi nokkrar ráðleggingar frá þingheimi. Það er einfaldlega þannig, herra forseti, að sá sem hefur haft rangt fyrir sér um þróun efnahagsmála er hæstv. ríkisstjórn. Sá sem hafði rétt fyrir sér er stjórnarandstaðan. Ef menn vilja læra eitthvað af reynslunni, ættu þeir að fara að hlusta á okkur. Allt það sem við höfum sagt hefur gengið eftir.

Herra forseti. Hér eru uppi ákveðnar hugmyndir sem hafa komið fram af hálfu stjórnarandstöðunnar í umræðunni. Ég óskaði eftir því að fá að gera athugasemd um stöðu þessara mála. Ég óska eftir því, herra forseti, að sú bón mín verði íhuguð af hálfu forseta. Mér er kunnugt um að hæstv. forsrh. kemur í hús til atkvæðagreiðslu á eftir, hann hefur a.m.k. lögbundna skyldu til þess. Hvað er það sem kemur í veg fyrir að hægt sé að taka þetta mál þá til umræðu með þeim hætti sem ég óskaði eftir?