Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 20:36:21 (7214)

2001-05-02 20:36:21# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[20:36]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hendir æði oft þegar menn eru rökþrota að þeir grípi til gamalkunnugs úrræðis sem er að snúa út úr. Og hv. þm. Jón Bjarnason er nákvæmlega í þeirri stöðu. Hann er rökþrota í málinu og þá grípur hann til þess ráðs að snúa út úr með mjög ómerkilegum hætti. Ekki bara einu sinni, heldur tvisvar á einu síðdegi, þegar hann lætur að því liggja að í máli mínu hafi falist á einhvern hátt lítilsvirðing gagnvart því góða starfsfólki sem vann hjá Póst- og símamálastofnun, síðar Pósti og síma. Það er ekkert í málflutningi mínum sem gefur honum tilefni til að tala með þeim hætti sem hann gerði. Ekki neitt. Enda kom það greinilega fram í andsvari mínu hér áðan.

Það sem ég var einfaldlega að segja var að ég vakti athygli á því að ímynd fyrirtækisins hefði verið með þeim hætti sem ég sagði áðan, það var ekki með einu orði verið að halla á neitt starfsfólk. Ég var einfaldlega að segja frá þessu. Og ég var að segja að samkeppnin sem stofnunin og fyrirtækið hefði síðan orðið að mæta hefði aukið þjónustuhæfni fyrirtækisins. Það er um það að ræða að sama starfsfólk í mjög mörgum og flestum tilvikum hefur verið að störfum hjá bæði stofnuninni og fyrirtækinu og ekkert sem gefur þess vegna tilefni til að snúa þannig út úr orðum mínum að lítilsvirðing hafi falist á nokkurn hátt í þeim eða ég hafi verið að sneiða að starfskröftum þessa fólks.

Ég vakti einnig athygli á því hérna fyrr í dag að ég hefði í ræðum þegar við vorum að fjalla um þetta mál á Alþingi á sínum tíma, formbreytinguna á Pósti og síma, farið lofsamlegum orðum um þann árangur sem stofnunin hafði náð, t.d. í lækkun símakostnaðar. Mér er því alveg óskiljanlegt hvernig hv. þm. reynir ítrekað að snúa út úr orðum mínum og leggja mér bókstaflega orð í munn og hugsun í það sem ég var hér að segja.