Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 12:09:44 (8302)

2001-05-19 12:09:44# 126. lþ. 129.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, KLM
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[12:09]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Nú þegar við ræðum sölu Landssímans við 3. umr. vil ég aðeins bæta við nokkrum orðum um áhyggjur mínar af þeim aðstöðumun sem mun verða á næstu árum. Sá munur er þegar og mun að öllum líkindum aukast milli íbúa þessa lands hvað þetta varðar.

Það er ljóst, nú þegar ríkisstjórnarflokkarnir hafa fellt tillögu frá okkur fulltrúum Samfylkingarinnar í samgn. um að aðskilja grunnnetið frá fyrirtækinu við sölu á hlutabréfum Landssímans, að á næsta þingi, næsta haust, bíður okkar mikil vinna við að breyta póst- og fjarskiptalögum og öðru til að tryggja öruggar og betri samgöngur fyrir alla landsmenn.

Ég ætla að reyna, herra forseti, að koma ekki inn á það sem áður verið rætt um í þessum efnum, varðandi það að aðskilja grunnnetið áður en að sölu kemur. Hins vegar hefur það margsinnis komið fram í máli mínu að ég óttast að með sölu grunnnetsins með Landssímanum muni aðstöðumunur aukast mikið í þeirri miklu tæknibyltingu sem á sér stað þessa dagana og mun eiga sér stað á næstu missirum, hvað varðar dreifingu sjónvarpsefnis og annars um landið. Þar er höfuðborgin náttúrlega með mjög mikið forskot vegna frumkvæðis Línu.Nets og borgaryfirvalda í Reykjavík. Sú tækni og sú þjónusta sem þar verður boðið upp á mun óneitanlega spyrjast út. Aðrir landsmenn munu sjá muninn þar á og gera kröfu um að fá það sama. Þá mun spila inn í það sem við köllum samkeppnishæfni svæða, hvaða þjónustu verður boðið upp á. Íbúar landsbyggðarinnar mega ekki sitja eftir og verða annars flokks borgarar hvað þetta varðar. Þetta er hröð þróun og hér hefur komið fram að vísustu og bestu tæknimenn okkar hafa sagt að nær ógerlegt sé að spá í hvernig tæknin þróist á næstu missirum.

Ég hef minnist á, hæstv. forseti, þá gríðarlegu uppbyggingu sem hefur átt sér stað á höfuðborgarsvæðinu með lagningu ljósleiðara um borgina. Í vor hafði rúmlega 4.000 heimilum á höfuðborgarsvæðinu verið gefinn kostur á að tengjast ljósleiðaraneti Línu.Nets með öllum þeim miklu tækninýjungum og möguleikum sem því fylgja, að maður tali ekki um hraðlækkandi verð sem nýtist öllum höfuðborgarbúum. Það er gott að verðið sé að lækka.

Í kynningarriti sem Lína.Net hefur sendi í hvert hús er m.a. ávarp framkvæmdastjóra Línu.Nets, Eiríks Bragasonar. Við í samgn. höfðum því miður allt of lítinn tíma til þess að ræða við hann og fræðast hjá honum um hin miklu áform fyrirtækisins, en hér segir m.a.:

,,Ljósleiðaratenging heimila, ljóslína, er frumkvöðlaverkefni þar sem margir aðilar þurfa að stilla saman strengi sína. Því getur margt komið upp á til seinkunar á framkvæmdum. Von bráðar mun ykkur`` --- þ.e. Reykvíkingum --- ,,standa til boða glæsileg þjónusta sem framtíð er í enda er stafrænt sjónvarp og hvers konar fjarskipti um ljósleiðara það sem koma skal og víða um lönd eru fyrirtæki eins og Lína.Net að leggja drög að því að bjóða fólki upp á samþætta fjarskipta- og afþreyingarþjónustu í gegnum ljósleiðara eða aðra háhraðagagnaflutningsleiðir.

Ljóslínan og sú fjölbreytta þjónusta sem henni tengist mun gjörbreyta möguleikum heimilisins til afþreyingar og vinnu`` --- takið eftir að ljóslínan, sem þeir kalla svo, mun gjörbreyta öllum möguleikum heimilis til afþreyingar og ekki síður vinnu. --- ,,Nú þegar erum við farin að sjá marga frábæra eiginleika ljósleiðarans en það er þó aðeins toppurinn á ísjakanum. Þróunin heldur áfram og munum við gera okkar besta til að upplýsa ykkur ... um nýjungar um leið og þær koma.``

[12:15]

Herra forseti. Það er þetta sem ég segi að er það sem skiptir máli í nútímanum, skulum við segja, og það á jafnt við um byggðamál og annað. Þetta er með öðrum orðum miklu stærri þáttur í byggðamálaumræðu núna en fyrir nokkrum missirum síðan, þ.e. þetta mikla frumkvæði og miklu möguleikar á höfuðborgarsvæðinu og ég óttast að íbúar landsbyggðarinnar, fyrir utan kannski nokkra stærstu þéttbýlissvæði eins og Akureyri og eitthvað á Suðurlandi, Selfoss, Vestmannaeyjar og annað slíkt þar sem þetta hefur verið lagt, á þessum stöðum muni allir sitja eftir. Og svo er það samningur sem hæstv. samgrh. hefur gert við Landssímann um að innan fimm ára, að mig minnir, skuli allir staðir með 150 íbúa og fleiri hafa aðgang að ADSL-tengingunni. Þetta er því miður nánast orðið úrelt. Það er bara svo. Svo er hraðinn mikill í þessu. Þetta er nánast orðið úrelt.

Hér höfum við líka rætt um leigulínuverð og annað slíkt sem við höfum talað um að hamli fyrirtækjum sem eru í rekstri á landsbyggðinni og sem kom skýrt fram hjá öllum þeim sem þaðan komu. Þetta leigulínuverð er líka þannig að sjónvarpsfyrirtæki eins og Stöð 2 eða jafnvel bara ríkissjónvarpið treysta sér ekki til að leigja línur til þess að senda sjónvarpsefni út á land. Besta dæmið um það kom fram á fundi samgn. frá einum aðila sem þar kom, Páli Kolbeinssyni, framkvæmdastjóra Element á Sauðárkróki. Hann lýsti því þar að Element hefur lagt ljósleiðara um allan Sauðárkrók og ætlar að taka þátt í þessar byltingu. Þetta eru mjög framtakssamir menn og framsækið fyrirtæki. Þeir ætla að bjóða íbúum Sauðárkróks upp á þessa hröðu byltingu, upp á þessar nýjungar. En í ljós kemur þegar sjónvarpsfyrirtæki og aðrir ræða við breiðbandsdeild Landssímans að svo mikla bandbreidd þarf til þess að senda þetta sjónvarpsefni norður að það mundi aldrei svara kostnaði að leigja sér þessar línur hjá Landssímanum. Þess vegna fagna ég mjög, og það er kannski það sem hefur komið hvað best út úr þessari umræðu, þeim yfirlýsingum sem tekist hefur að ná fram. Hér hafa komið fram hugmyndir og áætlanir um að í sumar verði tíminn notaður til þess að finna leiðir til þess að jafna fullkomlega kostnað við að flytja efni hvort sem það er héðan frá Múlastöð, vestur á Seltjarnarnesi eða niður í miðbæ eða frá Múlastöð út á land til Sauðárkróks eða annarra staða. Til þess að geta notað breiðbandið á hinum og þessum stöðum þar sem verið er að leggja það í hvert hús með ljósleiðara þá verður gjaldið að lækka til þess að sjónvarpsfyrirtæki sjái sér hag í eða geti bara yfir höfuð leigt sér línu til þess að flytja það efni sem við erum að tala um. Í þessu sambandi er rétt að minna á um hvað við erum virkilega að tala. Þegar við viljum sækja okkur kvikmyndir í fullri lengd yfir netið eða erum að flytja stóra gagnagrunna, kvikmynd eða hreyfimynd í fullum gæðum, þá þarf 45 megabita samband á sekúndu sem þýðir að taka mun átta klukkustundir að sækja sér þetta efni í gegnum ADSL sem á að vera komið inn á hvern stað þar sem íbúar eru 150 eða fleiri innan fimm ára. Þróunin er svo hörð í þessu að blekið í undirskrift hæstv. samgrh. er varla þornað í þessu merka og góða átaki sem þarna var vegna tækniþróunar þegar þetta er nánast að verða úrelt. Að sækja þetta sama efni í gegnum ljósleiðara tekur 4 sekúndur. Þetta er munurinn og um þetta erum við að tala sem óttumst að stór hluti landsins muni sitja eftir og fá ekki að nýta sér þessa þjónustu.

Herra forseti. Breiðbandsnetið hefur verið byggt upp undanfarin ár og á að vera framtíðargagnanet en hefur verið nýtt eingöngu sem sjónvarpsdreifingarkerfi. Rétt er að geta þess að það þarf rosalega mikla viðbótarfjárfestingu til þess að þetta nýtist sem alhliða fjarskiptanet fyrir netið og stafrænt gagnvirkt sjónvarp. Þetta vildi ég láta koma fram vegna þess sem ég hef heyrt um eina sjónvarpsrásina á höfuðborgarsvæðinu. Því miður er það bara svo að á laugardegi nær maður ekki í þá tæknimenn hjá þessum fyrirtækjum sem maður hefði viljað spyrja betur út í málið. Ég hef heyrt að aðilar hafi viljað leigja sér línu til þess að senda stafrænt sjónvarpsefni út á land í gegnum ljósleiðarakerfi Landssímans og hafi ætlað að setja upp endabúnað fyrir viðkomandi kaupstaði og endurkasta því þar í örbylgjusambandi, ekki með lögnum í hvert hús, ljósleiðara, vegna þess að það er náttúrlega mjög dýrt og krefst þess að bæir verði grafnir upp og ekki ætlum við að gera það. Hluti af því sem við settum inn í fjarskiptalögin var einmitt að aðilar skuli geta leigt þetta. Við skulum ekki fara meira út í það. En þegar komið er að þessum kaupstað og menn vilja varpa þessu yfir viðkomandi kaupstað og bjóða íbúunum upp á þessa miklu þjónustu og þau þægindi sem þessu fylgja þá kemur að því að það þarf að nota breiðbandið sem Landssíminn hefur eytt miklum peningum í að byggja upp. Ég vil spyrja hæstv. samgrh. út í það hvort sjónvarpsfyrirtækin á Íslandi, annað eða bæði, hafi átt í viðræðum við samgrn. út af þessu atriði. Mig skortir, eins og ég segi, að geta talað við tæknimann til að fá nánari skýringu á því hvort leitað hafi verið eftir því að gera þetta og yfir höfuð hvort einhver leyfi þurfi eða úthlutaða rás til að senda þetta í örbylgjusambandi yfir viðkomandi kaupstaði. Ég vona að ég komi þessari spurningu frá mér til hæstv. samgrh. á ekkert allt of flókinn hátt. Hafa svona viðræður átt sér stað um flutning á sjónvarpsefni til tiltekinna kaupstaða á landinu og eru einhverjir annmarkar á því að þetta verði gert miðað við stöðuna eins og hún er í dag? Eða er kannski ætlunin að í þessum hraða heimi, í þessari miklu tæknibyltingu sem er að eiga sér stað í þessu, að ekki verði hægt að gera þetta eins og ég er að lýsa með því að varpa þessu yfir viðkomandi kaupstaði í örbylgjuloftnet? Vilja samgönguyfirvöld kannski frekar beina þessum viðskiptum inn á breiðbandið hjá Landssímanum? Um þetta vil ég spyrja og bið hæstv. samgrh. að fara yfir þetta í lokaræðu sinni á eftir. Á hverju strandar hvað þetta varðar, hvar þetta verður gert, ef leigulínuverðið lækkar eins og boðað er þannig að sjónvarpsfyrirtækin sjái sér hag í því að fara eftir þessum leiðum?

Ég vil svo rétt í lokin áður en ég hverf frá þessu, herra forseti, geta þess að eftir 2. umr. um þetta mál, grunnnetið og allt það og spurningar mínar og áhyggjur um að Íslendingar sitji ekki allir við sama borð í þessari tæknibyltingu þá hafa hringt til mín nokkrir sveitarstjórar og bæjarstjórar af landsbyggðinni sem hafa sagt mér þessa sögu og það er kannski dæmi um hvað er að gerast. Verið er að auglýsa eftir kennurum, leikskólakennurum, grunnskólakennurum og öðrum og náttúrlega er spurt um kaup og kjör, en stór hluti spurninga kennaranna sem koma af höfuðborgarsvæðinu úr skóla hér er um hvaða þjónustu boðið er upp á í viðkomandi sveitarfélagi. Og það þekkjum við hæstv. samgrh. sem fyrrverandi sveitarstjórnarmenn að alltaf var talið upp að sundlaug væri á staðnum, leikskóli og að verið væri að klára að malbika göturnar og allt þetta sem var fyrir tíu árum.

En hvað er nú spurt um? Það er nefnilega spurt um möguleika í þessari upplýsingabyltingu: ,,Er stafrænt sjónvarp á staðnum? Hvernig eru tengingar við internetið. Þarf ég að keyra á einhverjum Trabant um internetið eða kemst ég á hraða Mercedes Benz?`` Svo er komið að fyrir tíu árum var aðallega sagt að sundlaug væri á staðnum og góð íþróttaaðstaða en árið 2001 hættir jafnvel ungt fólk við að ráða sig í vinnu úti á landi í skólum og annars staðar, hjúkrunarfræðingar eða hverjir sem eru, vegna þess að viðkomandi staðir geta ekki boðið upp á það sem boðið er upp á á höfuðborgarsvæðinu í þessari miklu tæknibyltingu og eiginlega stærsta byggðamáli samtímans. Ef fólk á að þurfa að sækja sér kvikmyndir, ef það vill það yfir höfuð, á átta klukkustundum í gegnum ADSL en getur náð í þær á 4 sekúndum heima hjá sér þá er spurning hvort þetta sé ekki orðið þannig atriði að það er farið að hamla frekari búsetu á landsbyggðinni.

Þessi atriði vildi ég draga fram, herra forseti, vegna þess að þetta eru mestu áhyggjuefni okkar í dag. Ég óttast að ekki verði til staðar sú samkeppni til nokkuð margra staða á landsbyggðinni hvað varðar gagnaflutninga að það verði ekki byggt upp eins og í kringum þéttbýlið sem ég er alls ekki að gera lítið úr heldur fagna og vil ítreka það sérstaklega.

Ég er ekki viss um að mörg fyrirtæki muni keppast um að leggja ljósleiðara vestur á firði. Sú staða getur alveg komið upp, herra forseti, að Landssíminn sjái í framtíðinni hag sínum best borgið, og þeir fjárfestar sem þar eru og gera ákveðnar arðsemiskröfur, með því að bjóða jafnvel grunnnetið á Vestfjörðum til sölu, vilji ekki koma nálægt því, vilji ekki reka það. Við höfum enga tryggingu fyrir því að þetta verði ekki gert miðað við það hvernig hér er farið fram.

Nei, herra forseti. Það er ekkert, finnst mér, í málflutningi stjórnarliða sem hefur hrakið þær hugmyndir okkar og tillögur um að aðskilja grunnnetið frá áður en að sölu kemur vegna þessara atriða sem ég hef hér nefnt. Það var annars vegar um samkeppnisstöðuna á höfuðborgarsvæðinu og hins vegar á landsbyggðinni, þ.e. að íbúa hennar eigi að skilja eftir sem annars flokks þegna.

Herra forseti. Það er rétt að í tölvu okkar í gær kom fréttatilkynning frá menntmrn. eins og við fáum oft. Hún fjallar um að gerðir voru samningar um fjarkennslu og annað slíkt. Nefnd sem menntmrh. skipaði var að skila af sér. Hún fékk m.a. til sín Gísla Hjálmtýsson, prófessor við verkfræðideild Háskóla Íslands, til þess að vinna greinargerð um mögulegar fjarskiptalausnir en einnig var haft samráð við Byggðastofnun. Í þessari stuttu fréttatilkynningu segir svo, með leyfi forseta:

Fjarkennsla hefur aukist hröðum skrefum á undanförnum árum. Skólar bjóða hana í vaxandi mæli og símenntunarmiðstöðvar eru nýr og mikilvægur hlekkur í miðlun fjarkennslu. Símenntunarmiðstöðvar eru nú átta talsins í öllum landshlutum og á vegum þeirra stunda nemendur meðal annars nám með aðstoð fjarfundabúnaðar. Verður sífellt brýnna að tryggja greið fjarskipti vegna fjarnáms.

,,Tillögur nefndarinnar miðast við að í uppbyggingu fjarskiptaþjónustu vegna fjarkennslu verði leitast við að nýta internetið (IP staðla) sem mest en minni áhersla lögð á hefðbundnar símalausnir, svo sem ISDN og ATM, sem hingað til hefur verið stuðst við. Til þess að tryggja miðlun fjarfunda til skamms tíma leggur nefndin til að boðin verði út þjónusta vegna þeirra með svokallaðri IP brú. Slík brú býður upp á þann möguleika að miðla fjarfundum milli aðila sem hafa mismunandi tengingar sín á milli en jafnframt nýja möguleika háhraðatenginga milli þeirra sem hafa yfir slíkum tenginum að ráða. Haft verði samráð við ríkisaðila og sveitarfélög um útboð á þjónustu vegna slíks fjarfundakerfis.``

Þetta er ansi mikil ályktun, sýnir frumkvæði og framtak. Menn hafa kannski lent stundum í þessum fjarfundum og séð hvernig það gengur fyrir sig. Þeir sem þar hreyfa sig eru nánast eins og einhverjir spýtukarlar úr gömlum teiknimyndum og hljóðið berst mjög skringilega. Þetta er engin tækni. Og rétt til að segja frá því þá hefur Alþingi Íslendinga t.d. ekki tileinkað sér þessa tækni til þess að eiga fundi með íbúum á landsbyggðinni heldur verður hver og einn að taka sér ferð fyrir tíu mínútna fund eins og gerðist hjá okkur í samgn. Þetta er atriði sem ég held að forsætisnefnd ætti að taka upp. Nú sé ég að kominn er nýr forseti í forsetastól og vil segja að það væri verkefni fyrir Alþingi á komandi sumri að tryggja að Alþingi verði tengt við þær stöðvar sem eru úti á landi á góðum hraða, ekki neinum Trabant-hraða, þannig að við getum oftar kallað til okkar íbúa landsbyggðarinnar til að ræða hin ýmsu mál en gerum það ekki þannig að þeir þurfi endilega taka sér flugferð suður og hitta viðkomandi nefndir og fá kannski fimm eða tíu mínútur til að koma sínum málum á framfæri. (Samgrh.: Er þetta ekki í nýja nefndahúsinu?)

[12:30]

Já, það er spurning, herra forseti, hvort gert hafi verið ráð fyrir þessu í nýja nefndahúsinu. Ég vildi óska þess að það hefði verið og ég mundi eiginlega halda að allur kostnaður við þetta væri kominn inn í þann kostnað í byggingu hússins. Nægur var nú kostnaðurinn. Ég mundi því halda að búið væri að taka þar inn allar ljóslínur Línu.Nets og alla þá möguleika sem hægt er að hafa. Ég vildi óska þess að svo væri. Þá eigum við kannski bara eftir að tileinka okkur þessi mál.

Herra forseti. Ég nefndi áðan fjarfundabúnaðinn og það sem menntmrn. er að leggja til en talað mál er svo viðkvæmt fyrir flökti og það þolir alls ekki að neinir pakkar detti út. Þess vegna er einmitt verið að tala um þessa IP-tækni sem lausn á gagnaflutningum framtíðarinnar. E.t.v. verður hoppað yfir þessa IP-tækni og farið yfir í það sem tæknimenn kalla ethernet-tækni. Í þessu sambandi er rétt að nefna álit sem hér hefur komið fram frá aðilum hjá Línu.Neti sem fagna því eiginlega mjög hvað þeir komu seint fram. En þar ætlar Lína.Net að hoppa yfir þetta allt saman. Þeir ætla ekki að fara í neitt ATM-system sem við ætlum að bjóða landsbyggðinni upp á. Menn ætla að hoppa yfir þetta vegna þess að menn telja það úrelt og bjóða upp á IP-tækni eða bara fara yfir í þetta sem heitir ethernet.

Herra forseti. Ég ætla að spyrja hæstv. samgrh. út í það sem kemur fram í nál. en rétt, af því að ég ætla að bæta einu atriði við það sem ég hef sagt um frómar óskir, ætlun Alþingis, tilmæli frá forsrh., tilmæli frá ríkisstjórn um að gera hitt og þetta í byggðamálum til að jafna lífskjör í landinu. Ég fór yfir það við 2. umr. og ætla ekki að bæta neitt við með t.d. áliti frá svokallaðri byggðanefnd forsrh. Eitt atriði vil ég nefna í viðbót. Sjómenn á Vestfjörðum eiga þess ekki kost að horfa á sjónvarp þegar þeir eru komnir skammt frá landi. Ég fer oft vestur á firði og hef oft heyrt sjómenn kvarta yfir þessu og jafnframt að á Bolafjalli, þar sem eitt ljósleiðarapar NATO-strengjanna endar á ratsjárstöðinni, hefði verið hægur vandi að setja upp sendi sem hefði gert það að verkum að sjómenn hefðu náð sjónvarpi en ég kann þó ekki að segja á hve stórum hluta Vestfjarðamiða. En það hefur ekki verið gert. Þetta svæði mundi stækka mjög við að þessi sendir hefði verið settur upp. Nú kann ég ekki að segja hve mikill kostnaður væri því samfara en af því að ég sá áðan að komnir voru sjómenn vestan af fjörðum út af öðru máli, þá fór ég og spurði þá út í þetta og þeir staðfestu að þetta væri svoleiðis. En það er dálítið táknrænt og það sló mig mjög, herra forseti, sem viðkomandi sjómaður sagði þegar ég var að nefna þetta atriði. Hann svaraði með þessum orðum: ,,Heyrðu Kristján, það er ábyggilega orðið of seint að setja upp þennan sjónvarpssendi núna miðað við það sem á að fara að gera hér og liggur í loftinu hvernig á að fara með smábátasjómenn og aðra. Þetta ábyggilega of seint vegna þess að útgerð og annað slíkt mun dragast það mikið saman, jafnvel leggjast af. Eigum við ekki allir að flytja suður og þá getum við farið inn á kerfi Línu.Nets og annarra og séð allt það sjónvarpsefni sem við mögulega getum séð?`` Þetta voru svakaleg orð.

Herra forseti. Ég hef tvær spurningar til hæstv. samgrh. í lokin og þær eru um það sem kemur fram í nál. meiri hlutans. Það er um þá lýsingu sem þar kemur fram um að þjónusta á sviði upplýsingatækni sem gerir kröfu til öflugri gagnaflutninga og allt það og fjallað er um að enn sé talsverður munur á verðlagningu á þessari þjónustu. Ég vil spyrja hæstv. samgrh. og biðja hann að gefa okkur skýrt og gott svar um það hér hvað hann segi um þetta og hvort það verði þannig eins og kemur fram í nál. að unnið verði að þessu á árinu fyrir árslok í samvinnu við samgn. og að hluta af andvirði af sölu Landssímans. Kannski má líka hugsa sér að 100 millj., 200 millj., milljarður verði notaður til að gera það mögulegt að jafna fullkomlega leigulínuverð eða verðskrá Landssímans vegna gagnaflutninga sama hvar er á Íslandi. Svo ég orði það skýrt: Mun hæstv. samgrh. beita sér fyrir því á þessu ári, eins og fram kemur í nál. hv. meiri hluta samgn., að landið verði gert að einu gjaldsvæði hvað þetta varðar þannig að ekki muni verða neinar verðhindranir í því að flytja sjónvarpsefni hvort sem það er t.d. austur á Raufarhöfn eða vestur til Bolungarvíkur? Með öðrum orðum að landsmenn hvar sem þeir búa á landinu muni búa við sama rétt og sömu möguleika til að nýta sér þessa upplýsingatækni?

Ég vil svo segja rétt í lokin að það hefur verið reyndin þegar við höfum verið að gagnrýna verðskrá fyrir leigulínur að þegar þær hafa verið lækkaðar, sem við höfum fjallað um, hefur það ekki leitt til tekjumissis fyrir Landssímann vegna þess að notkunin hefur aukist það mikið. En mér þykir mjög mikilvægt, herra forseti, að heyra það hér frá hæstv. samgrh., sem ég vil líka jafnframt þakka fyrir setu sína hér við alla þá umræðu sem hér hefur verið við Landssímann og það er rétt að segja að maður þakkar fyrir það vegna þess að hæstv. ráðherra hefur gert það, hann hefur verið hér allan tímann. Það er ekki oft sem aðrir ráðherrar í ríkisstjórn gera það, þó kemur það að sjálfsögðu fyrir og í raun og veru á ekki að þakka fyrir það, en engu að síður vil ég gera það.

Ég óska þess, herra forseti, í lokin að ég fái að heyra það skýrt og skilmerkilega hjá hæstv. samgrh. að það sé ætlunin og hann styðji það sem kemur þarna fram og það sé kannski fyrir tilstilli hans sett fram að landið verði gert að einu gjaldsvæði, helst ekki seinna en um næstu áramót hvað varðar leigulínuverð, þannig að allir sitji við sama borð hvað varðar verðið og allir sitji við sama borð við að flytja þau miklu gögn og alla þá miklu tækni sem hægt er til afþreyingar, vinnu og annars á landsbyggðinni, sama hvar menn búa á landinu.