Stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 14:28:01 (8325)

2001-05-19 14:28:01# 126. lþ. 129.96 fundur 575#B stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi# (umræður utan dagskrár), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[14:28]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Fyrsta niðurstaða skýrslunnar eru lítil tengsl milli valds og eigna. Hér er fyrst og fremst verið að vísa til lífeyrissjóðanna. Þetta atriði staðfestir gagnrýni Samfylkingarinnar á stórfyrirtæki sjálfstæðismanna, sem ráða öllu í Samtökum atvinnulífsins. Stórforstjórar Sjálfstfl. og Framsfl. hafa hreiðrað um sig í stjórnum lífeyrissjóða og beita þeim miskunnarlaust í þágu valda sinna. Þetta kerfi hefur Samfylkingin gagnrýnt.

Önnur niðurstaða skýrslunnar er hversu fákeppni er áberandi í íslensku atvinnulífi. Þar er staðfestur hornsteinn í stefnu Samfylkingar í efnahagsmálum sem er stuðningur við aukna samkeppni. Samfylkingin hefur bent á hættu af fákeppni, þröngra fyrirtækjablokka sem eru í nánum tengsum við ríkisstjórnarflokkana. Afstaða þeirra gagnvart Samkeppnisstofnun kemur skýrt í ljós þegar þeir vilja rýra hlut hennar eins og þeir geta. Þessi stefna er fjandsamleg neytendum.

Þriðja niðurstaða skýrslunnar er hversu áberandi hlutur ríkisins er í atvinnulífinu og sem hefur aukist. Samfylkingin hefur margoft lagt til að ríkið dragi sig út úr atvinnurekstri og leggur þunga áherslu á samkeppnisvæðingu.

Fjórða niðurstaðan, um blokkamyndun, lýsir baráttunni við kolkrabba og smokkfisk þar sem nýir aðilar hafa bæst við. Þetta staðfestir einnig gagnrýni Samfylkingarinnar.

Meginniðurstaðan í þessu kemur þó fram í hvernig ríkisstjórnin hefur auðveldað stofnun eignarhaldsfélaga erlendis í skattaparadísum til að komast hjá gjöldum hér á landi. Þannig er það sem stjórnarherrarnir vilja hafa það, leyndin er góð í huga þeirra.

Stefna Samfylkingarinnar er að gæta hagsmuna almennings og neytenda. En stefna ríkisstjórnarinnar er að gæta sérhagsmuna. Þessi skýrsla, herra forseti, staðfestir þennan mun á Samfylkingunni og ríkisstjórninni.