Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 14:51:57 (8339)

2001-05-19 14:51:57# 126. lþ. 129.38 fundur 732. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (grunnlífeyrir, tekjutryggingarauki, frítekjumark o.fl.) frv. 93/2001, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[14:51]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Áður en þessi umræða um fundarstjórn forseta hófst var mælt hér fyrir nál. um frv. til breytinga á lögum um almannatryggingar og félagslega aðstoð og eins kom fram hjá flm. rita ég undir það nál. með fyrirvara, ásamt öðrum þingmönnum stjórnarandstöðunnar í heilbr.- og trn.

Ég mun gera grein fyrir þeim fyrirvörum sem ég hef við þetta mál og sömuleiðis mæla fyrir brtt. sem minni hluti heilbr.- og trn. leggur fram við frv.

Fyrst vil ég, herra forseti, nefna eina setningu í nál. sem ég geri vissulega fyrirvara við og það er þar sem segir að nefndin líti svo á ,,að með þessu sé stigið umtalsvert skref í þá átt að bæta kjör þeirra sem verst eru settir meðal aldraðra og öryrkja.``

Ég get ekki fyllilega tekið undir þetta og hefði talið að unnt hefði verið að gera mun betur við þennan hóp. Ég hef sagt það áður að þó að þetta frv. sé í áttina, þá geti nú varla talist hér um skref, hvað þá umtalsvert skref að ræða, og hef ég áður sagt það hér og annars staðar að ríkisstjórnin sé aðeins að fara fetið, varla er hægt að kalla þetta skref.

Annað sem ég vil gagnrýna varðandi þessa lagasetningu er það að verið er að gera kerfið mun flóknara en það var. Verið er að bæta við bótaflokki með enn eina tegund tekjutengingar sem gerir það mun erfiðara að átta sig á hvaða rétt lífeyrisþeginn á og sömuleiðis að reikna út bætur hans í hinum ýmsu tilvikum.

Herra forseti. Varðandi þær brtt. sem við leggjum fram og eru á þskj. 1324, þá er það svo að við teljum ekki nógu langt gengið til móts við þá sem eru í atvinnulífinu og eru öryrkjar. Það hefur verið gagnrýnt mjög rækilega að almannatryggingakerfið sé mjög vinnuletjandi, reglur þess séu vinnuletjandi, þannig að þeir sem gætu farið út að vinna gerðu það ekki, vegna þess að þeir hefðu ekkert upp úr því við það, lítið standi eftir. Í frv. er aðeins farið í áttina og 40% tekna lífeyrisþegans eru tekin út fyrir sviga áður en tekjutryggingin og heimilisuppbótin fara að skerðast. Þannig að 40% af tekjum öryrkjans eru tekin út fyrir sviga.

Við teljum að ekki sé nægilega langt gengið í þeim efnum og leggjum til að gerð verði breyting við 1. gr. og í stað þess að þessi regla gildi aðeins um tekjutrygginguna, þá gildi hún um grunnlífeyri og tekjutryggingaraukann einnig. Og 40% af tekjum lífeyrisþegans verði tekin til hliðar áður en grunnlífeyrir, tekjutrygging, heimilisuppbót og tekjutryggingarauki fara að skerðast.

Í nefndinni kom fram og er ljóst þegar menn fara að skoða hvernig þessar tekjutengingar virka, að þeir lífeyrisþegar sem eru með litlar tekjur og við getum nefnt sem dæmi öryrkja sem vinna á vernduðum vinnustöðum, þeir eru margir hverjir að vinna á vernduðum vinnustöðum sem ákveðna hæfingu, komast í félagsskap við aðra, þeir eru í raun ekki að fá neina kjarabót með þessu frv., þ.e. þeir missa tekjutryggingaraukann þar sem hækkunin kemur inn og eru þar með ekki að fá þá hækkun sem felst í frv. En eins og sést á töflu nr. 32 í fskj. með frv., þ.e. skýrslu nefndarinnar sem vann frv., fá þeir öryrkjar sem búa einir og eru með 15--30 þús. kr. ekki neina hækkun.

Tekjutengingin á tekjutryggingaraukanum sem er nýi bótaflokkurinn, þar sem öll kjarabótin og hækkunin kemur, er það mikil eða um 67% vegna eigin tekna og ekkert er tekið frá, gerir það að verkum að tekjutryggingaraukinn er orðinn að engu ef lífeyrisþeginn er með rúmar 15 þús. kr. á mánuði í laun, þ.e. 15.743 kr. þá fær hann ekki neitt, fær engan tekjutryggingarauka. Þetta er mjög stór hópur þeirra fötluðu öryrkja sem vinna á vernduðum vinnustöðum samkvæmt upplýsingum sem við fengum hjá Öryrkjabandalaginu, en einnig hafði komið fram í félmn. hjá fulltrúum frá vernduðum vinnustöðum að nokkuð breytilegt væri hver laun öryrkja hjá vernduðum vinnustöðum væru, en þeir sem eru mest fatlaðir og þyrftu þá sérstaklega að fá þennan stuðning og viðbót eru á þessu bili, þ.e. með frá 15--30 þús. kr., fá ekki neitt.

Sá einhleypi sem er á þessu bili fær ekki neitt til viðbótar og sömuleiðis er lífeyrisþeginn, þ.e. öryrkinn sem er í hjónabandi, ekkert að fá fyrr en hann fær 30 þús. kr. í laun.

Þetta er atriði sem við gagnrýnum harðlega og leggjum því til að allir bótaflokkarnir komi inn í þá reglu að 40% tekna séu tekin út fyrir.

Við höfum óskað eftir því að fá upplýsingar um hvað það kosti ríkisstjórnina að fara þær leiðir sem við bendum á í brtt. okkar og sú leið að taka 40% atvinnutekna öryrkjans til hliðar kostar á ári 90 millj. kr. Það er þó nokkuð minni upphæð en það kostaði að bruðla með húsnæði fyrir þingið hér hinum megin við Austurvöll, þó nokkuð lægri upphæð, bara til þess að bæta kjörin hjá þeim verst settu öryrkjum, eins og t.d. þeim sem eru á vernduðum vinnustöðum og fá þarna enga kjarabót.

[15:00]

Það er jafnframt full ástæða til að minna á að ekki hefur verið staðið við lög gagnvart lífeyrisþegum. Samkvæmt lögum hefði hækkun á bótum almannatrygginga átt að fylgja launaþróun en það hefur ekki gerst. Þrátt fyrir að þessi breyting hafi orðið vantar enn 2.000 kr. upp á að þeir lífeyrisþegar, sem verst eru settir og hafa aðeins almannatryggingabæturnar sér til framfærslu, séu jafnsettir og ef fylgt hefði verið launaþróun í hækkun almannatrygginga. Ég benti á, herra forseti, að öll kjarabótin í almannatryggingunum er í tekjutryggingaraukanum, nýja bótaflokknum sem er með 67% skerðingu, þannig að þeir verst settu bera ekki það úr býtum sem eðlilegt hefði verið, miðað við að staðið hefði verið við lög.

Minni hlutinn leggur einnig til, þ.e. sú sem hér stendur ásamt hv. þm. Þuríði Backman og Karli V. Matthíassyni, að í brtt. í nál., sem hv. þm. Ásta Möller hefur nú gert grein fyrir, að verði skerðingarhlutfallið ekki 67%, sem er geysilega hátt skerðingarhlutfall, heldur 45% alveg eins og í tekjutryggingunni. Það að vera með 67% skerðingarhluta á þessum nýja bótaflokki gerir það að verkum að við hverja krónu sem öryrkinn vinnur sér inn eru 67 aurar teknir til baka og hann borgar einnig skatt af þeim aurum sem eftir standa. Þannig stendur vart nokkuð eftir í þessum bótaflokki hafi öryrkinn atvinnutekjur eða tekjur úr lífeyrissjóði. Við hverja krónu eru 67 aurar teknir til baka í ríkiskassann og skattur til viðbótar. Menn sjá þannig að þarna er ekki um mikla kjarabót að ræða fyrir þá sem á annað borð hafa smátekjur annars staðar, þegar tekjuskerðingin er svo brött.

Með því að samþykkja tillögu okkar mundi, í stað þess að tekjutryggingaraukinn hjá einhleypingi er orðinn að engu við rúmar 20 þús. kr. eins og reglan er í dag, tekjutryggingaraukinn ekki falla út fyrr en um 31 þús. kr. Þarna munar 11 þús. kr. fyrir þessa hópa. Það er veruleg kjarabót. Þessi brtt. er nr. 2 á þingskjalinu, þar sem 67% skerðingarhlutfallinu er breytt í 45%, og kostar ríkissjóð 330 millj. kr. Þetta mundi koma til góða öllum þeim öryrkjum sem eru með einhverjar tekjur, annaðhvort úr lífeyrissjóði eða atvinnutekjur. Í heild mundu þessar breytingar kosta 430 millj. kr. á ársgrundvelli, fyrri breytingin mun lægri upphæð, 90 milljónir, en ég ítreka og bendi á að menn greiða skatt af þessum peningum. Í raun kostar þetta ríkissjóð minna þegar menn hafa borgað af þessu skatta. Í fyrsta skipti í sögunni er það svo að lífeyrisþegar, sem eru aðeins með greiðslur úr almannatryggingunum og hafa þær einvörðungu sér til framfærslu, greiða skatt af sínum almannatryggingagreiðslum. Það hefur ekki verið áður, það hefur aldrei verið áður. Það hefur verið séð til þess að skattleysismörkin hafi færst þannig að þeir sem eru eingöngu með almannatryggingabæturnar hafa ekki borgað skatt.

Þeir öryrkjar sem borga í skatt í dag greiða sem nemur heilum mánaðargreiðslum á ári. Heilar mánaðargreiðslur öryrkjans, sem hefur ekkert annað en almannatryggingabæturnar sér til framfærslu, fara aftur í ríkiskassann. Ríkisstjórnin er að taka af þessum hópi, verst settu öryrkjunum, verst settu lífeyrisþegunum, verst setta aldraða fólkinu, heila mánaðargreiðslu til baka í ríkissjóð á hverju ári. Ég hefði talið, herra forseti, að taka ætti á þessum þætti þegar talað er um það hér sé verið að bæta kjör hinna verst settu í almannatryggingunum. Þarna verða menn fyrir verulegri kjaraskerðingu. Það hefði verið hægt að ganga lengra í að minnka vinnuletjandi áhrif almannatrygginganna, eins og ég hef bent á áður.

Þegar þetta mál var fyrst til umræðu hér í þinginu, fyrir síðustu helgi, þ.e. fyrir rúmri viku, þá hrósaði ég hæstv. heilbrrh. fyrir að hafa kynnt þetta mál fyrir hagsmunaaðilum, stjórnarandstöðunni og formönnum þingflokka. Ég verð hins vegar aðeins að draga í land með hrósið þó að ráðherrann eigi hrós skilið fyrir að hafa þó kynnt málið. Það kom nefnilega í ljós við umfjöllun um málið í nefndinni að kynningin hafði nú ekki verið meiri en svo að hvorki fulltrúar aldraðra né öryrkja höfðu fengið skýrsluna. Þeir höfðu heldur ekki fengið hana frá opinberum aðilum þegar þeir komu til fundar við nefndina sl. laugardag, fyrir viku. Þeir urðu sér úti um hana eftir krókaleiðum og það finnst mér ekki vera til fyrirmyndar, að þegar hagsmunaaðilum er ætlað að gefa umsagnir um mál og menn telja að búið sé að kynna málið fyrir þeim þá hafi þeir ekki fengið til sín skýrsluna sem málið snýst um, hvað þá frumvarpið.

Ég veit að hæstv. ráðherra vill standa vel að þessum málum og legg til að þegar næsta skref verður stigið --- sem mér skilst á hæstv. ráðherra að verði með haustinu --- þá verði það kynnt almennilega fyrir hagsmunaaðilum og einnig stjórnarandstöðunni. Þá mundu menn hafa hlutina á hreinu áður en breytingar verða á lögum sem varða þá.

Í nefndinni kom einnig fram, sem mér fannst ámælisvert, að starfsmenn Tryggingastofnunar voru ekki hafðir með í ráðum þegar nefndin vann þessar breytingar og þessar tillögur. Þeim var tilkynnt og þeir látnir vita í tvígang, svona lauslega, af einum nefndarmanni hvað væri að gerast. Ég er hins vegar sannfærð um að það hefði verið til bóta að þeir sem þekkja almannatryggingarnar best og framkvæmd þeirra hefðu verið með í ráðum. Ég er sannfærð um að þar hefðu komið fram tillögur sem ekki hefðu kostað mikið meira en þessi, bæði til þess að einfalda kerfið og létta þeim störfin sem vinna við að kynna þetta og sinna þjónustunni. Þær ráðleggingar hefðu einnig getað auðveldað þeim sem lifa við að fá almannatryggingagreiðslurnar að skilja og átta sig á þeim greiðslum og upphæðum sem þeir eiga rétt á.

Eins og t.d. tekjutryggingargreinin í lögununum er orðin í dag þá er hún óskapnaður, herra forseti, algjör óskapnaður. Þar eru a.m.k. tvenns konar skerðingarákvæði, þá er reglan um tekjutryggingaraukann komin inn í tekjutryggingarkaflann og þar eru aðrar reglur sem gilda. Reglurnar um öryrkjana, um 40% sem eru tekin til hliðar, gilda aðeins um tekjutrygginguna en ekki tekjutryggingaraukann sem er inni í 17. gr. o.s.frv. Ég held því að full ástæða sé til þess að menn leggist yfir það í sumar í ráðuneytinu að einfalda þetta og gera skýrara þannig að mögulegt sé að skilja þetta kerfi.

Vissulega er það til bóta að frítekjumark skuli hækkað en það kemur ekki öllum til góða, eins og ég hef bent á í sambandi við öryrkjana á vernduðu vinnustöðunum. Þeir eru ekki með það háar tekjur að hækkunin á frítekjumarki komi þeim til góða né þá það að 40% af tekjunum þeirra séu tekin til hliðar áður en tekjutryggingin fer að skerðast. Þannig er að mörgu að hyggja og ekki nema von að fólk átti sig almennt ekki á þessu. Þetta er það snúið og flókið kerfi.

Það er alveg ljóst, herra forseti, að mönnum hefur ekki tekist að einfalda kerfið með þessum breytingum. Ég tel að mönnum sé ekki stætt á því að ætla ekki að hækka bætur í takt við launaþróun, þó svo að þessi breyting hafi verið gerð. Hún er í áttina en engu að síður, með því að setja þennan tekjutryggingarauka inn er á vissan hátt verið að skekkja kerfið. Það er verið að skekkja myndina og það er áhyggjuefni, sérstaklega þegar kjarabótin kemur öll inn í þann bótaflokk sem mest er tekjutengdur.

Herra forseti. Ég gæti náttúrlega farið mörgum orðum um það sem fram kom í nefndinni um kjaramál lífeyrisþega. Til þess væri full ástæða. Aldraðir voru t.d. mjög ósáttir við sinn hlut og töldu þarna litla framför gagnvart þeim. Þeir upplýstu að þeir væru að undirbúa málsókn vegna þess hvernig komið hefur verið fram við þá í kjaramálum. Þeir dreifðu upplýsingum um kjaramál sín, hvernig þjónustugjöld hafa hækkað án þess að bætur hafi hækkað í takt við launaþróun eins og lög kveða á um. Sömuleiðis dreifðu þeir ýmsum öðrum upplýsingum, t.d. um það sem menn gera sér grein fyrir um kerfið á Íslandi. Íslenska kerfið beinist að því að styðja við þá sem lægstu tekjurnar hafa, á meðan lífeyrissjóðakerfið er að taka yfir ellilífeyrinn, en þeir sem hafa safnað í lífeyrissjóði koma lítið betur út en þeir sem eru á almannatryggingunum eingöngu meðan tekjutengingarkerfið er við lýði. Það er kannski ekki óeðlilegt en engu að síður er munurinn of lítill. Til marks um það hvernig kerfið virkar voru nefnd dæmi um ellilífeyrisþega sem hefur engar tekjur úr lífeyrissjóði. Hann mundi hafa, ef hann býr einn og er án annarra tekna, hátt í 74 þús. kr. í kerfinu í dag. En ellilífeyrisþegi, sem fær 50 þús. kr. úr lífeyrissjóði, er með tæplega 89 þúsund, 88.700 kr. Þarna munar því fremur litlu á þeim sem þó hafa safnað í lífeyrissjóð og hinum sem hafa ekki neitt. Þetta er vissulega nokkuð sem erfitt er við að eiga í þessu kerfi en engu að síður er full ástæða til að benda á það.

Ég ætla ekki að lengja mjög umræðuna um kjör aldraðra þó að full ástæða sé til þess. Það var ágætis úttekt á þeim málaflokki í Morgunblaðinu sl. sunnudag. Þar var farið yfir þá þætti sem fulltrúar aldraðra kynntu fyrir heilbr.- og trn. á fundinum fyrir viku. Ég tel fulla ástæðu til þess að menn skoði það. Einnig komu fram á fundinum upplýsingar um hvernig kaupmáttur lífeyrisgreiðslna og lágmarkslauna verkamanna hafa þróast frá 1987--1999. Það þarf ekki frekari vitnanna við og af því er ljóst hvernig lífeyrisþegar hafa farið mun verr út úr þeirri þróun. Aðalatriðið er þó að hér er verið að fara fetið og maður hefði viljað sjá stjórnvöld ganga mun lengra.

Ég spurði, herra forseti, við 1. umr. hvað menn teldu að það kostaði ríkissjóð að fara þessa leið. Talað er um að það kosti 1 milljarð 430 þús. kr. Stór hluti kemur aftur til baka í ríkissjóð í formi skatta og fróðlegt væri að fá að vita hvað þessi breyting kostar í raun.

Við í minni hlutanum höfum lagt til brtt., aðallega til að koma til móts við öryrkjana. Það hefði verið full ástæða til að gera aðrar breytingar á þessum lögum en eins og frv. liggur fyrir þá hefði það verið mjög flókið og kannski ekki tími til að fara út í það.

Áður en ég lýk máli mínu langar mig til að lesa ályktun fundar Öryrkjabandalagsins frá 15. maí sem samþykkt var í kjölfar þessara breytinga. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Öryrkjabandalag Íslands lýsir vonbrigðum vegna þeirra vanefnda ríkisstjórnarinnar sem fram koma í fyrirhuguðum breytingum á lögum um almannatryggingar. Bandalagið átelur harðlega þau áform hennar að láta boðaða hækkun bóta, sem er nú þegar er lögbundin, lúta 67 prósent skerðingareglu fyrir skatt. Þá mótmælir Öryrkjabandalagið því að enn skuli gengið lengra í þá átt að halda niðri grunnlífeyri og tekjutryggingu sem dregist hafa verulega aftur úr launaþróun frá því á miðjum síðasta áratug. Óhjákvæmilegt er að vekja sérstaka athygli á þeirri staðreynd að núverandi ríkisstjórn er sú fyrsta í sögu lýðveldisins sem innheimtir tekjuskatt af þeim sem ekkert hafa nema greiðslur almannatrygginga. Verði ekkert að gert munu þeir sem verst eru settir þurfa að greiða rúmlega 70 þúsund krónur í beina skatta á ári, sem jafngildir því að ríkisvaldið svipti þá andvirði mánaðargreiðslu á ári hverju.``

Herra forseti. Minni hlutinn hefur lagt til breytingar bæði við 1. gr. og sömuleiðis við 3. gr., þ.e. tillögu um breytingu á brtt., þar sem skerðingarhlutfallinu væri breytt í 45%. Við munum því sitja hjá ef þessar tillögur okkar verða felldar. Hins vegar styðjum við málið að öðru leyti. Þetta er auðvitað aðeins í áttina. Það er verið að bæta peningum inn í kerfið og minnka muninn á milli hjóna og einstaklinga, sem er vissulega í áttina. Frítekjumarkið er einnig hækkað þó að þar séu á verulegir ágallar.

Ég óska eftir því, herra forseti, við hæstv. ráðherra að hann láti skoða þetta betur þannig að hægt sé að koma til móts við þá hópa, sem ég hef nefnt hér, áður en næsta frv. kemur frá hæstv. ráðherra í haust.