Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 15:31:13 (8346)

2001-05-19 15:31:13# 126. lþ. 129.38 fundur 732. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (grunnlífeyrir, tekjutryggingarauki, frítekjumark o.fl.) frv. 93/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[15:31]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Miðað við það átak sem gert var til að hækka lægstu laun er fráleitt að nota hækkun þeirra í samanburði við hækkun lífeyris eða bóta eða annarra launa. Það var einmitt markmiðið að gera það ekki, herra forseti. Þegar menn bera saman lægstu laun og lífeyri, lægsta lífeyri --- takið eftir því, herra forseti, lægsta lífeyri --- þá má ekki gleyma því að launþeginn með lægstu launin borgar 4% í lífeyrissjóð og hann borgar 1--2% í stéttarfélag þannig að hann er ekki með sambærileg laun.

Hv. þm. sagði að lífeyrisjóðirnir mundu taka yfir. Við erum ekki með kerfi sem er undir það búið. Við erum með allt of litlar tekjutengingar. Það fer nefnilega að gerast núna að lífeyrisþegar geta verið betur settir en vinnandi fólk. Fullt af fólki er með um 100 þús. kr. tekjur og sérstaklega úti á landi, það þekkja þeir sem þar búa, fólk sem er með 100, 120 þús. kr. á mánuði og þarf að borga af því iðgjald í lífeyrissjóð og stéttarfélag o.s.frv. Það er þetta fólk sem er farið að hafa það verra en lífeyrisþeginn sem starfar við hliðina á því. Þessu megum við ekki gleyma heldur. Þetta fólk borgar bæturnar í almannatryggingunum --- það er ekki sjóðsmyndun í almannatryggingakerfinu --- það er lágtekjufólkið, ASÍ, sem er að greiða bæturnar í almannatryggingakerfinu með sköttum sínum. Oft er það þannig að það er fólk með lágar tekjur sem greiðir bætur fyrir fólk sem er með miklu hærri tekjur, sérstaklega fjölskyldutekjur.