Tóbaksvarnir

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 17:27:22 (8368)

2001-05-19 17:27:22# 126. lþ. 129.37 fundur 345. mál: #A tóbaksvarnir# (markaðssetning, tóbaksmengun o.fl.) frv. 95/2001, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[17:27]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Eins og kom fram í framsögu með nál. þá skrifa ég undir það með fyrirvara ásamt hv. þm. Karli V. Matthíassyni og hv. þm. Þuríði Backman sem hefur gert grein fyrir fyrirvara sínum. Við höfum flutt brtt. við málið. Hv. þm. Þuríður Backman hefur gert ágæta grein fyrir þeim fyrirvörum sem hún er 1. flm. að og ég flyt ásamt henni.

Síðan er önnur brtt. á þskj. 1259 frá þeirri sem hér stendur ásamt hv. þm. Þuríði Backman þar sem við leggjum til að til tóbaksvarna verði varið örlítið hærri upphæð en gert er ráð fyrir í frv. Í frv. er sú upphæð hækkuð um 0,2%, farið úr 0,7% upp í 0,9%. En í staðinn fyrir að það séu 0,9% þá leggjum við til að það verði 1%. Ýmsir umsagnaraðilar töldu að það bæri að verja allt að 2% til tóbaksvarna af verði. Þar má nefna t.d. Krabbameinsfélagið o.fl. Við teljum sem sagt að þarna ætti að hækka töluna örlítið.

Herra forseti. Eins og komið hefur fram rita ég undir þetta nál. og stend að þeim brtt. sem nefndin leggur fram og tel að þær séu allar til bóta, m.a. sá þáttur sem snýr að föngum, að þeir fangar sem ekki reykja eigi rétt á reyklausum fangaklefa sem er náttúrlega sjálfsagt mál.

Síðan hefur hv. þm. Þuríður Backman gert grein fyrir þeirri brtt. sem snýr að þætti Vinnueftirlitsins í umsóknarferlinu hvað varðar undanþágurnar og sömuleiðis að því er snýr að veitingastöðunum og sérstökum reykherbergjum og öðru því sem hún gerði grein fyrir áðan.

Herra forseti. Þar sem við höfum ákveðið að hraða nokkuð þingstörfum mun ég ekki orðlengja þetta frekar en hef hér með gert grein fyrir þessum brtt. og sömuleiðis fyrirvara mínum við þetta nál.