Suðurlandsskógar

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 22:04:04 (8450)

2001-05-19 22:04:04# 126. lþ. 129.41 fundur 589. mál: #A Suðurlandsskógar# (starfssvæði) frv. 89/2001, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[22:04]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég skrifaði undir þetta nál. með fyrirvara og mun hér gera nokkra grein fyrir ástæðunum fyrir því.

Í fyrsta lagi tel ég að málið hafi komið of seint fram. Það vannst ekki tími til að senda það út til umsagnar. Að vísu var óskað eftir því í nefndinni að nefndarmenn nefndu til þá gesti sem þeir vildu fá á fund. Aðeins einn gestur var tilnefndur, þ.e. formaður skógræktarfélagsins á Suðurnesjum, sem ég tilnefndi, og kom hann á fund nefndarinnar. Á aðra var ekki kallað, t.d. forsvarsmenn sveitarfélaganna sem hefðu örugglega viljað hafa eitthvað um málið að segja. Ég tel að það hafi verið mistök að gera það ekki og ég tel að það hefði átt að geyma málið. Það hefði verið hægt að afgreiða þetta mál strax í október, hefðum við tekið það aftur upp í haust, en ekki var orðið við þeim tilmælum.

Eitt er óheppilegt í þessu frv., að það er vísað þar til sýslna, sem eru mjög óljósar stjórnsýslueiningar. Af því tilefni langar mig að lesa kafla úr bréfi sem mér barst, vegna þess að í frv. er vísað til Gullbringusýslu. Í þessu bréfi er sagt, með leyfi hæstv. forseta:

,,Af ýmsum ástæðum er Gullbringusýsla ekki alls kostar hentug skilgreining á svæði. Í tímans rás hefur svæðið tekið allmiklum breytingum. Lengi framan af mættust Gullbringusýsla og Kjósarsýsla við Elliðaár. Þá tók Gullbringusýsla yfir stærstan hluta þess svæðis sem nú er Reykjavík. Fjölmargar fleiri breytingar hafa orðið síðan og sem dæmi má nefna að um 1970 var Bessastaðahreppur fluttur frá Gullbringusýslu til Kjósarsýslu.``

Í töflu Hagstofu Íslands, Hagtölum sveitarfélaga, janúar 2001, er Gullbringusýsla talin ná yfir sveitarfélögin Sandgerði, Gerðahrepp og Vatnsleysustrandarhrepp. Það er því ljóst að ef sú skilgreining hefði verið látin gilda um þetta heiti, Gullbringusýslu, hefði frv. aðeins náð til til fimmtungs þess svæðis á Suðurnesjum sem tilheyra mun Suðurkjördæmi eftir kjördæmabreytingu. Mér fannst nauðsynlegt að leiðrétta þetta og hafði áhuga á því að nefndin flytti brtt. um þetta. Undir það var ekki tekið og þess vegna flyt ég þessa brtt. sjálf. Hún hljóðar svo:

,,Við 1. gr. Í stað orðanna ,,Gullbringusýslu, Árnessýslu, Rangárvallasýslu, Vestur-Skaftafellssýslu og Austur-Skaftafellssýslu`` --- það sjá nú allir hvers lags stjórnsýsla þetta er, þessar sýslur eru ekki til lengur í lögum sem stjórnsýslueiningar --- ,,komi: Suðurkjördæmi eins og svæðið er skilgreint í lögum nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis.``

Það kom skýrt fram í nefndinni að meining ráðuneytisins var að lögin næðu akkúrat yfir þetta svæði og ekki annað. En ég var þegar vör við að ýmsir á svæðinu alveg upp í Kjós töldu að þarna væri verið að setja þá undir Suðurlandsskóga. Þessi misskilningur náði alla leið inn í ráðuneyti. Ég spurði þar hve mörg lögbýli heyrðu undir Gullbringusýslu og mér var sagt að þau væru 300--400, en það á þá einmitt við gömlu skilgreininguna alveg upp í Kjós. Ráðuneytið gengur því líka út frá skilgreiningu sem ekki stenst.

Ég veit að hv. formaður nefndarinnar, hv. þm. Hjálmar Jónsson, gerði grein fyrir því í ræðu sinni hver væri meining ráðuneytisins með þessu en ég verð að segja að mér hefði þótt það mjög til bóta að þessu hefði verið breytt í frv. og meiningin kæmi þar mjög skýrt fram.

Að öðru leyti hef ég orðið vör við að miðað við það hvernig forsvarsmenn Suðurlandsskóga skilgreina verkefni sitt þá líti þeir ekki svo á að hægt sé að fela stjórn Suðurlandsskóga skógræktarverkefni þar sem einstaklingum, sveitarfélögum og félagasamtökum er veittur stuðningur til skógræktar, eins og lögin um landshlutabundin skógræktarverkefni áskilja. Þeir telja ekki að þetta eigi við Suðurlandsskóga. Ég veit að þetta atriði verður ekki til að auka þeim bjartsýni sem bundu einmitt miklar vonir við flutning þessa frv. Menn héldu að frv. mundi efla viðleitni þeirra sem hafa lagt á sig ómælt brautryðjendastarf og lagt mikið fé úr eigin vasa í að reyna að koma á legg trjáplöntum á Suðurnesjum, þar sem menn trúa að fram á 18. öld hafi landið að miklu leyti verið kjarri vaxið. Samkvæmt þeim skilgreiningum sem ráðuneytið og forsvarsmenn Suðurlandsskóga halda fram er ekki hægt að láta Suðurlandsskóga yfir Suðurnes. Jafnvel þó að búið sé, með ærinni fyrirhöfn, að skilgreina svæðið, sem skógarbeltið rómaða á að ná yfir, þá er ekki talið raunhæft að verkefnið geti náð yfir Suðurnes vegna þess að þar eru engin lögbýli í byggð. Hið fróma markmið, að styðja við byggð með þessu verkefni á því ekki við þar. Auðvitað hefði alltaf verið í forsjá nefndarinnar hverjir fá leyfi og hverjir ekki en ég tel að það væri til mikilla bóta ef brtt. sem ég og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson höfum lagt fram yrði samþykkt. Hún gengur út á að við það sem stendur í lögum um landshlutabundna skógrækt bætist:

,,Landbúnaðarráðherra getur, í samráði við skógræktarstjóra, falið stjórn Suðurlandsskóga umsjón skógræktarverkefna þar sem einstaklingum, sveitarfélögum og félagasamtökum er veittur stuðningur til skógræktar.``

Þarna mundi þá opnast möguleiki til að gróðursetja a.m.k. eitt limgerði á Suðurnesjum á vegum Suðurlandsskóga.

(Forseti (GuðjG): Áður en næsti hv. þm. tekur til máls vill forseti geta þess að milli forseta Alþingis og formanna þingflokka var gert samkomulag um að hér yrðu ekki langar og ítarlegar ræður í kvöld. Reyndin hefur orðið önnur. Þess vegna mun ég skerða andsvaratíma og verður ræðutími aðeins ein mínúta í hvorri umferð.)